mánudagur, nóvember 20, 2006

Tónleikar: Sykurmolarnir og Sufjan Stevens

Mikil tónleikaveisla er að baki. Ég fór á Sykurmolatónleikana á föstudaginn og sá síðan Sufjan Stevens daginn eftir. Þetta var náttúrulega kærkomin útrás eftir að hafa verið innandyra dögum saman vegna veðurs (ekki treysti ég mér út í kuldann með Signýju).

Sykurmolarnir stóðust allar mínar væntingar. Ég held satt að segja að hrifning mín á þeim hafi aukist eftir þessa upplifun (það er eiginlega einn helst mælikvarði góðra tónleika að virðing manns eða skilningur á tónlistinni aukist). Molarnir voru í miklu stuði. EInstöku sinnum heyrði maður hnökra í spilamennskunni en það gerði ekkert til því það var ljóst allan tímann að Molarnir komu til að skemmta sér. Björk var hversdagslega klædd (ólíkt því sem hún hefur gert á sólóferlinum) og líktist aftur litlu smástelpunni í súrrealíska bandinu. Reyndar fékk ég gæsahúð um leið og hljómsveitin steig á svið því þá gerði ég mér skyndilega ljóst að þetta var alvöru viðburður. Á íslenskan mælikvarða þá voru Bítlarnir að koma saman aftur, hvorki meira né minna, og allir voru enn í fullu fjöri og endurnýjaðir, ef eitthvað er. Einar Örn fór á kostum alla tónleikana með súrrealísku bulli sem iðulega hitti í mark. Hann talaði töluvert við áhorfendur og dansaði mikið með sérkennilegri líkamstjáningu. Björk var greinilega mjög skemmt yfir frumkvæði hans. Þau tvö voru eins og uppvaxnir krakkar, nýbúnir að finna aftur gamla sandkassann sinn. Súrrealískur karakter allra laganna hjá molunum og líkamstjáningin gerði það að verkum að mér fannst ég sjálfur vera staddur í einhvers konar hliðarveruleika þar sem sviðið var risastór brúðubíll með hreyfisöngvum og öllu tilheyrandi. Þegar leið á tónleikana losnaði meiri kraftur úr læðingi. Delicious Demon, Hit, Fucking in Rhythm and Sorrow og loks Luftgítar enduðu tónleikana með látum. Maður gekk sjálfur í endurnýjun lífdaga.

Sufjan tónleikarnir voru nokkru síðri fyrir það að vera haldnir við vonlausar aðstæður í Fríkirkjunni (þar sem margir urðu að standa langtímum saman í þungu lofti) og einnig vegna þess að það skorti léttleikann og allan spuna. Tónlist Sufjan er þrælskipulögð og margslungin, við því var að búast, og hún er á margan hátt gríðarlega heillandi (sjá umsögn um síðustu plötu hans Illinois sem bestu plötu ársins 2005). Kveikt var á kertum í myrkrinu og allt gert til að skapa notalega umgjörð. Hersveit tónlistarmanna með flugdrekavængi á bakinu stilltu sér upp kringum þröngt sviðið kringum Sufjan sem sjálfur var með arnarvængi. Á sviðinu var einnig haugur af uppblásnum jólasveinum (sem fengu að dansa um salinn eins og blakboltar í einu laganna). Í þessu litla rými var ekki nægilega mikið pláss fyrir þá tónasúpu sem boðið var upp á - enda var meðal hljóðfæraleikara myndarleg blásturssveit með tilheyrandi þéttum hljómi. Ef maður lítur hins vegar fram hjá lýjandi aðstæðum þá stóðu allir sig frábærlega og stemningin var mjög góð. Sufjan er nærgætin og skemmtilegur á sviði, góður sögumaður, með mjóróma rödd sem nær samt að skila sér gegnum hljómsveitina. Í raun var dýrðin svo mikil að mér fannst synd að þetta skyldi ekki vera haldið á Miklatúni. Þar hefði ég legið og lygnt aftur augum. En þetta voru eftirminnilegir tónleikar þrátt fyrir það og ekki síst fyrir þá staðreynd að þetta voru síðustu tónleikar ferðalagsins hjá Sufjan og félögum og ekki laust við að maður skynjaði nostalgíuna hjá þeim á þessum kveðjutónleikum.

Engin ummæli: