laugardagur, desember 25, 2004

Upplifun: Kaffi Hljómalind

Jólagjafainnkaupin gengu vel í ár og ég var nokkuð snemma á ferðinni. Það kom mér hins vegar óvænt í koll. Ég keypti nefnilega í síðustu viku nokkrar bækur í lítlu kaffihúsi sem heitir Bleika dúfan (þar sem Hljómalind var áður til húsa). Þetta er skemmtileg lítil bókabúlla og flytur greinilega inn sínar eigin bækur, enda er úrvalið þar nokkur sérstætt. Allt gott um þann stað að segja, nema hvað, nokkrum dögum síðar, tveim dögum fyrir jól, rölti ég þar fram hjá á ný og sá í búðarglugganum tilkynningu um rýmingarsölu, 40-60% afsláttur af öllum bókum fyrir jólin! Ég sem hafði kríað út fimm prósenta afslátt nokkrum dögum fyrr var að vonum svekktur, fór heim og hugsaði mitt rjúkandi ráð. Daginn eftir kom ég kærulaus til baka og þáði af þeim kaffibolla. Þetta var snemma á Þorláksmessu og ég vildi ekki vera með neitt uppistand en spurði hins vegar út í þennan skyndilega afslátt - og laumaði því að í leiðinni að ég væri í raun ekki alls kostar ánægður. Þá frétti ég að útsalan hafi komið til vegna eigendaskipta í millitíðinni. Þar kom skýringin. Hér var ekki við neinn að sakast. Hóað var í eigandann, sem var nokkrum skrefum undan og hann vatt sér áhugasamur að mér og spurði mig hvort ég væri fastakúnni, og sagði mér svo frá metnaðarfullum hugmyndum sínum. Þetta verður reyklaust bókakaffi áfram og mun leggja metnað sinn í að kaupa aðrar bækur en fást í stóru búðunum. Kaffihúsið mun líklega heita Kaffi Hljómalind og er það í fullu samráði við Kidda sem á það nafn. Hann mun vera sjálfur uppveðraður yfir hugmyndinni og er tilbúinn að vera innan handar og bjóða upp á lítilsháttar tónlistarsölu. Í einu horninu verður þeim anda hugguleg hlustunaraðstaða og opnað verður niður á neðri hæðina með hringstiga (þar sem fyrir er áhugaverð lítil plötubúð). Ég sé í hendi mér hvernig þetta gæti snarvirkað enda er menning hússins ofin úr nákvæmlega þessum þráðum (og Sirkus á næsta leyti). Formleg opnun hússins verður snemma í janúar (níunda, að mig minnir). Ætlunin er að staðið verði að lifandi tónlist á staðnum öðru hvoru og munu Mugison ásamt Hjálmum (eða er það Hjálmari?) ríða á vaðið við opnunina. Við þessar fregnir varð ég fljótt hæstánægður, settist niður og las fleiri bækur. Ég keypti nokkrar bækur í viðbót á þessu frábæra verði og hlakkaði til að koma aftur á næsta ári. Í tilefni af þeim afslætti sem ég fór á mis við í fyrra skiptið fékk ég kaffibollan ókeypis.

fimmtudagur, desember 23, 2004

Daglegt líf: Jólaerillinn

Hjá okkur Vigdísi er einfalt gjafafyrirkomulag. Við förum í bæinn saman og splæsum á okkur eitthvað sem okkur hefur lengi vantað. Þetta er ríkulega gjöfin. Til að opna lítinn pakka á aðfangadag bætum við einum litlum við. Hún er meiri leikur og má ekki kosta meira en fyrirframgefin upphæð. Saman höfum við því eytt jólaerlinum vítt um bæinn, keypt frjálslega á okkur sjálf og markvisst handa öllum öðrum í leiðinni, laus við pakkafeluleik okkar á milli. Auðvitað endar þetta alltaf með því að við borðum saman í bænum. Pizza Hut er í uppáhaldi. Þar fengum við okkur gómsætan bita, hún Supreme og ég Zorba, sem stendur sannarlega undir nafni, samsett úr pepperoni, rauðlauki, tómötum, papriku, sveppum og feta-osti. Þetta var sko mjúk lending.

sunnudagur, desember 19, 2004

Heimildamynd: Do they know its Christmas?

Ég sá um helgina frábæra heimildamynd í sjónvarpinu um tilurð lagsins "Do they Know it´s Christmas?". Þátturinn var settur saman í tilefni af því að tuttugu ár eru liðin frá útkomu smáskífunnar sögufrægu. Það var virkilega gaman að sjá hvernig lagið þróaðist úr bölsýnni Dylan-laglínu yfir í tindrandi jólalag með hjálp hljómborðsstefs upptökustjórans Midge Ure. Skondið að heyra hvernig Geldof vatt sér umbúðalaust að efninu þegar hann safnaði saman stjörnunum gegnum síma: "Phil, I need a famous drummer!". Drepfyndið að sjá allar helstu make-up hetjur níunda áratugarins safnast saman, nývaknaðar, með timburmenn, ófarðaðar, fyrir framan stúdíóið þennan sunnudagsmorgun með haug af ljósmyndurum í kring. Merkilegt að heyra umræðuna um tvíræða textabrotið "Tonight, thank God, it´s them instead of you" sem Bono vildi upphaflega ekki syngja, en gerði svo frábærlega að lokum. Flott að sjá hvernig lagið þróaðist á einum degi undir gríðarlegri tímapressu frá tiltölulega einföldu lagi yfir í sælukenndan hópsöng þar sem egóin runnu saman. Hugmynd sem varð að metsölulagi á innan við viku. Gaman til þess að vita að einhvers staðar í plötubunkum inni í geymslu á ég að eiga eintak af þessari merkilegu skífu.

laugardagur, desember 18, 2004

Netið: Ísland - Palestína

Nú er jólaerillinn framundan og margt í deiglunni. Nú þegar ég ég held áfram bloggskrifum mínum af sama krafti og tek ég í leiðinni nokkkur skref til baka og rek slóð okkar Vigdísar til fyrsta desember. Við Vigdís nutum þá saman jólahlaðborðs á Kaffi Reykjavík. Eftir drjúga stund og seðjandi máltíð röltum við fram hjá Gauknum. Þar var verið að setja upp tónleika í nafni frjálsrar Palestínu. Þetta fannst mér skemmtilegt í ljósi þess að ég er nýlega orðinn heitur talsmaður Palestínu. Á efnisskránni voru KK, Mugison og fleiri hljómsveitir sem ég kann ekki að nefna. Stemningin var afslöppuð og bar ekki keim af sterkum áróðri að öðru leyti en því að í anddyri voru til sölu varningur og áróðursbæklingar. Félagið Ísland Palestína er greinilega metnaðarfullt því bæklingarnir voru mjög efnismiklir og vandaðir. Um þetta vitnar heimasíða félagsins. Í beinum tengslum við þennan félagsskap eru ýmis önnur áhugaverð grasrótarsamtök og félagsskapur sem nauðsynlegt er að láta fylgja með þessari færslu (sjá neðar). Hvað tónleikunum hins vegar leið þá stóðu allir sig vel. KK sýndi snilld sína á gítarinn og Mugison fylgdi í kjölfarið og kom mér alveg í opna skjöldu. Þarf virkilega að tékka á honum.

Sjá neðangreindar síður: Annars vegar tenglanetið fólkið. Það tengir saman fólk sem vill standa að ýmsum aðgerðum og gjörningum í "flash-mob" stíl. Hins vegar Snarrót, vettvangur þar sem aktívistar geta komið saman, aflað sér fræðslu, skipulagt fundi, föndrað pólitísk skilaboð og ýmislegt fleira.

mánudagur, desember 13, 2004

Upplifun: Minning

Helginni var eytt fyrir norðan, á Sauðárkróki, þar sem við fylgdum Elvari Fannari Þorvaldssyni, systursyni Vigdísar, til grafar. Öll stórfjölskyldan var þar saman komin víða að af landinu. Við Vigdís gistum í huggulegu gistiheimili sem ber það skemmtilega nafn "Kotið" og sváfum þar í úrvals heilsudýnum. Það var þörf á góðum svefni eftir lýjandi akstur norður og átakamiklar tilfinningar framundan. Þetta voru sannarlega erfiðir dagar en þeir voru líka fallegir á sinn hátt. Veðrið var blítt með snjófláka á víð og dreif. Kirkjan bjó yfir huggandi nærveru í friðsömum sveitastíl. Athöfnin var einföld og látlaus enda sorgin nógu mikil fyrir. Sjálfur kirkjugarðurinn gnæfir yfir Sauðárkróki á myndrænasta stað bæjarins, nálægt fjöllunum, skýjunum og fjarri erli bæjarlífsins. Betri stað er vart hægt að hugsa sér að hvíla á.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Pæling: Viðskiptahugsun

Í gærkvöldi settist ég niður með ís og heitri súkkulaðisósu ásamt Vigdísi og horfði á sjónvarpið. Í þættinum the L-Word skaut upp kollinum pæling sem líklega er flestum viðskiptafræðingum kunn, en sat lengi vel í mér. Ein sögupersónanna útlistaði hugmyndafræði sem ber að hafa í huga við kaup á allri vöru og þjónustu. Hún var sett fram sem þríhyrningur þar sem armarnir bera heitin "cheap", "fast" og "good". Allt eru þetta eftirsóknarverðir kostir vöru sem á að kaupa, en þeir fást nær aldrei allir samtímis. Varan getur hæglega verið ódýr og fengist strax, en þá er hún líklega léleg. Hún getur verið góð og fengist hratt, en þá er hún líkast til mjög dýr. Einnig getur hún einnig verið ódýr og góð en þá fæst hún ekki eftir pöntun. Varasamt er að reikna með að geta fengið góða hluti, á lágu verði, strax. Þá er best að staldra við og hugsa upp á nýtt. Það gera hins vegar fáir og fyrir vikið þrífast gróðabraskarar hver um annan þveran.

mánudagur, desember 06, 2004

Matur: Einföld og skilvirk pastamáltíð

Ég ákvað líka að vera góður við sjálfan mig í kvöld. Vigdís fór á kvöldvakt og í stað þess að híma í myrkrinu fór ég í leikfimi og eldaði mér góðan mat. Það er nauðsynlegt að næra líkamann og koma blóðrásinni af stað aftur, sérstaklega þegar þungar hugsanir sækja á mann. Ekki var úr miklu að moða en ég fann þó tortellini í skápnum og náði að búa til fína máltíð úr knöppum kosti. Tortellini-inu velti ég upp úr ólifuolíu og parmesan. Þá var maturinn strax vel ætur. Við þetta bætti ég nokkrum matarskeiðum af hreinum rjómaosti, saxaði nokkrar grænar ólifur og bætti grænu pestó-mauki við. Til að draga fram frísklegt bragð skar ég niður gúrku og bætti út í. Eðalmáltíð með pilsner.

Fréttnæmt: Harmleikur í fjölskyldunni

Heimilislífið er búið að vera í lamasessi hjá okkur Vigdísi síðan á laugardagsmorgun. Þá barst okkur sú átakanlega fregn að systursonur hennar fórst í eldsvoða á Sauðárkróki. Harminum er ekki hægt að lýsa með orðum. Ég hef reynt að vera innan handar eftir því sem hægt er við það að hóa fjölskyldumeðlimum saman, enda kemst ég líklegast næst því að vera í ökuhæfu ástandi. Jafnvel þegar maður nær að bægja tilhugsuninni frá þá er maður dofinn inn að beini. Þetta er ömurlegt.

föstudagur, desember 03, 2004

Tónlist: Bowie uppfærður

Lítill tími hefur undanfarið gefist til að skrifa. Á milli vinnutarna hef ég verið með allþétt prógram matarboða, jólahlaðborða og kórsöngs. Þegar tími hefur gefist til að setjast við tölvuna hef ég látið til leiðast að dæla tónlist inn í tölvuna mína í stað þess að setjast við skriftir. Eins og ég minntist á fyrir nokkrum vikum er tölvan (Makkinn) margfalt öflugri en sú gamla. Hún gleypir tugi gígabæta af tónlist (10-15 diskar komast í u.þ.b. 1 gígabæti) og það er algjörlega ný reynsla fyrir mig. Það sem hefur afvegaleitt mig hvað mest þessa dagana (þökk sé tölvunni) eru því sjóræningjaupptökur mínar með David Bowie. Nú eru þær komnar ein af annarri í tölvuna (líklega um 15 diskar af óobinberum upptökum).

Eins og mín er von og vísa hef ég leyft mér að skilgreina hvert lag sérstaklega. Þau eru ýmist "live"-upptaka (tónleikar frá öllum tímum), útvarpsupptaka (oftast BBC), "demo"-upptaka (lag í vinnslu), "version" eins og ég kalla það (sem er seinni tíma útfærsla af þekktu lagi, stundum af tónleikum), "take" (önnur upptaka en sú opinbera en í grunnatriðum eins), "single" (lag sem kom obinberlega út á smáskífu en ekki á plötu), "mix" (lag sem byggir á þekktum flutningi en hefur verið hljóðblandað á ný) og svo framvegis. Þessir flokkar gera það að verkum, ásamt ártali, stjörnugjöf og ýmiss konar huglægri flokkun, að hægt er að stilla upp "playlist" (afspilunarlista) af tiltekinni gerð. Við það öðlast þessar upptökur nýtt líf. Það er sérstök nautn að leyfa tónleikaupptökum að renna einum og sér, eða demóupptökum, eða bara uppáhalds upptökunum, og leyfa því svo að flæða inn á heimilið í einhverri röð, enda er þetta í eðli sínu flæði. Nú á ég bara eftir að eltast við hin og þessi aukalög af opinberu diskunum (sem eru nátttúrulega fyrrum "bútleggar") ásamt öllu því sem maður rekst á seinna. Öllum er velkomið að bæta við safnið, að sjálfsögðu.