föstudagur, desember 03, 2004

Tónlist: Bowie uppfærður

Lítill tími hefur undanfarið gefist til að skrifa. Á milli vinnutarna hef ég verið með allþétt prógram matarboða, jólahlaðborða og kórsöngs. Þegar tími hefur gefist til að setjast við tölvuna hef ég látið til leiðast að dæla tónlist inn í tölvuna mína í stað þess að setjast við skriftir. Eins og ég minntist á fyrir nokkrum vikum er tölvan (Makkinn) margfalt öflugri en sú gamla. Hún gleypir tugi gígabæta af tónlist (10-15 diskar komast í u.þ.b. 1 gígabæti) og það er algjörlega ný reynsla fyrir mig. Það sem hefur afvegaleitt mig hvað mest þessa dagana (þökk sé tölvunni) eru því sjóræningjaupptökur mínar með David Bowie. Nú eru þær komnar ein af annarri í tölvuna (líklega um 15 diskar af óobinberum upptökum).

Eins og mín er von og vísa hef ég leyft mér að skilgreina hvert lag sérstaklega. Þau eru ýmist "live"-upptaka (tónleikar frá öllum tímum), útvarpsupptaka (oftast BBC), "demo"-upptaka (lag í vinnslu), "version" eins og ég kalla það (sem er seinni tíma útfærsla af þekktu lagi, stundum af tónleikum), "take" (önnur upptaka en sú opinbera en í grunnatriðum eins), "single" (lag sem kom obinberlega út á smáskífu en ekki á plötu), "mix" (lag sem byggir á þekktum flutningi en hefur verið hljóðblandað á ný) og svo framvegis. Þessir flokkar gera það að verkum, ásamt ártali, stjörnugjöf og ýmiss konar huglægri flokkun, að hægt er að stilla upp "playlist" (afspilunarlista) af tiltekinni gerð. Við það öðlast þessar upptökur nýtt líf. Það er sérstök nautn að leyfa tónleikaupptökum að renna einum og sér, eða demóupptökum, eða bara uppáhalds upptökunum, og leyfa því svo að flæða inn á heimilið í einhverri röð, enda er þetta í eðli sínu flæði. Nú á ég bara eftir að eltast við hin og þessi aukalög af opinberu diskunum (sem eru nátttúrulega fyrrum "bútleggar") ásamt öllu því sem maður rekst á seinna. Öllum er velkomið að bæta við safnið, að sjálfsögðu.

Engin ummæli: