mánudagur, desember 13, 2004

Upplifun: Minning

Helginni var eytt fyrir norðan, á Sauðárkróki, þar sem við fylgdum Elvari Fannari Þorvaldssyni, systursyni Vigdísar, til grafar. Öll stórfjölskyldan var þar saman komin víða að af landinu. Við Vigdís gistum í huggulegu gistiheimili sem ber það skemmtilega nafn "Kotið" og sváfum þar í úrvals heilsudýnum. Það var þörf á góðum svefni eftir lýjandi akstur norður og átakamiklar tilfinningar framundan. Þetta voru sannarlega erfiðir dagar en þeir voru líka fallegir á sinn hátt. Veðrið var blítt með snjófláka á víð og dreif. Kirkjan bjó yfir huggandi nærveru í friðsömum sveitastíl. Athöfnin var einföld og látlaus enda sorgin nógu mikil fyrir. Sjálfur kirkjugarðurinn gnæfir yfir Sauðárkróki á myndrænasta stað bæjarins, nálægt fjöllunum, skýjunum og fjarri erli bæjarlífsins. Betri stað er vart hægt að hugsa sér að hvíla á.

Engin ummæli: