laugardagur, desember 25, 2004

Upplifun: Kaffi Hljómalind

Jólagjafainnkaupin gengu vel í ár og ég var nokkuð snemma á ferðinni. Það kom mér hins vegar óvænt í koll. Ég keypti nefnilega í síðustu viku nokkrar bækur í lítlu kaffihúsi sem heitir Bleika dúfan (þar sem Hljómalind var áður til húsa). Þetta er skemmtileg lítil bókabúlla og flytur greinilega inn sínar eigin bækur, enda er úrvalið þar nokkur sérstætt. Allt gott um þann stað að segja, nema hvað, nokkrum dögum síðar, tveim dögum fyrir jól, rölti ég þar fram hjá á ný og sá í búðarglugganum tilkynningu um rýmingarsölu, 40-60% afsláttur af öllum bókum fyrir jólin! Ég sem hafði kríað út fimm prósenta afslátt nokkrum dögum fyrr var að vonum svekktur, fór heim og hugsaði mitt rjúkandi ráð. Daginn eftir kom ég kærulaus til baka og þáði af þeim kaffibolla. Þetta var snemma á Þorláksmessu og ég vildi ekki vera með neitt uppistand en spurði hins vegar út í þennan skyndilega afslátt - og laumaði því að í leiðinni að ég væri í raun ekki alls kostar ánægður. Þá frétti ég að útsalan hafi komið til vegna eigendaskipta í millitíðinni. Þar kom skýringin. Hér var ekki við neinn að sakast. Hóað var í eigandann, sem var nokkrum skrefum undan og hann vatt sér áhugasamur að mér og spurði mig hvort ég væri fastakúnni, og sagði mér svo frá metnaðarfullum hugmyndum sínum. Þetta verður reyklaust bókakaffi áfram og mun leggja metnað sinn í að kaupa aðrar bækur en fást í stóru búðunum. Kaffihúsið mun líklega heita Kaffi Hljómalind og er það í fullu samráði við Kidda sem á það nafn. Hann mun vera sjálfur uppveðraður yfir hugmyndinni og er tilbúinn að vera innan handar og bjóða upp á lítilsháttar tónlistarsölu. Í einu horninu verður þeim anda hugguleg hlustunaraðstaða og opnað verður niður á neðri hæðina með hringstiga (þar sem fyrir er áhugaverð lítil plötubúð). Ég sé í hendi mér hvernig þetta gæti snarvirkað enda er menning hússins ofin úr nákvæmlega þessum þráðum (og Sirkus á næsta leyti). Formleg opnun hússins verður snemma í janúar (níunda, að mig minnir). Ætlunin er að staðið verði að lifandi tónlist á staðnum öðru hvoru og munu Mugison ásamt Hjálmum (eða er það Hjálmari?) ríða á vaðið við opnunina. Við þessar fregnir varð ég fljótt hæstánægður, settist niður og las fleiri bækur. Ég keypti nokkrar bækur í viðbót á þessu frábæra verði og hlakkaði til að koma aftur á næsta ári. Í tilefni af þeim afslætti sem ég fór á mis við í fyrra skiptið fékk ég kaffibollan ókeypis.

Engin ummæli: