sunnudagur, janúar 02, 2005

Pæling: Eru Íslendingar örlát þjóð?

Maður er eiginlega búinn að vera of lamaður yfir heimsfréttunum til að fást til að tjá sig á netinu um sitt litla líf. Reyndar erum við Vigdís búin að liggja í flensu yfir hátíðirnar svo það er ekki ýkja margt til frásagnar. Reyndar hef ég mína skoðun á framlagi Íslendinga til neyðarhjálparinnar í Bengalflóa. Ýmis fyrirtæki, stofnanir og opinberir aðilar hafa reyndar lagt drjúga hönd á plóginn en þjóðarsöfnunin finnst mér hafa verið fremur bágborin. Rauði krossinn, af sinni alkunnu kurteisi, hefur þakkað rausnarlegt framlagið, sem hljóðar upp á 25 milljónir króna, en skoðum þetta nánar. Þetta þýðir að aðeins um 25 þúsund manns hafi lagt lítinn þúsundkall í púkk. Þetta er innan við hundraðkall á hvert íslenskt mannsbarn. Við vitum að sannur rausnarskapur krefst fórna. Fyrir þjóð sem hefur efni á að eyða fjögurhundruð milljónum í rakettur á sama tíma, að ótöldum seðlunum sem fara í veisluhöld og áfengiskaup í meðlæti, svo að ekki sé minnst á sjálf jólin og þá eyðslu sem á undan er gengin, þá er tæpur hundraðkall á mann ekki mikill fórnarkostnaður. Hreykjum okkur ekki of hátt á ímynduðu örlæti. Við fæddumst með silfurskeið í munni, munum það, langt í burtu frá heimsviðburðunum og höfum það gott, sama hvað á dynur. Hundraðkallinn er ekki nema málamyndagreiðsla. Þetta er friðþæging til að fá að halda áfram dagsdaglegu sukki. Þetta er veruleiki flestra og kannski ekkert óeðlilegt við það, svo lengi sem maður kallar það ekki örlæti.

Engin ummæli: