þriðjudagur, janúar 18, 2005

Upplifun: Leikhústöfrar

Ég minntist á að síðasta helgi hefði verið viðburðarík. Eitt af því sem stóð upp úr var leiksýningin Edit Piaf. Ég fór á hana með Bryndísi systur og Vigdísi. Þetta er ótrúleg sýning. Þetta er mesta leikhúsupplifun mín í fjöldamörg ár. Ég þarf líklega að leita aftur til Hársins, árið 1994, til að finna eitthvað sambærilegt en þá kom fram fjöldinn allur af nýjum leikurum í mjög innblásinni uppfærslu Baltasars Kormáks. Í þetta skiptið er það Brynhildur Guðjónsdóttir sem tendrar salinn með ótrúlega blæbrigðaríkum leik. Brynhildur syngur með ólíkindum vel, með sannfærandi frönskum framburði, og fyllir salinn með opinni og glæsilegri rödd. Til þess notar hún notar allan kroppinn í tjáninguna og gefur að því er virðist takmarkalaust af sér til enda, allt frá því hún er saklaus og óframfærin smástelpa, yfir í glæsilega stórstjörnu þar til hún syngur sitt lokalag, hrum og veikluleg, undir lokin. Þetta var ótrúlega töfrandi sýning, í bókstaflegri merkingu þess orðs, því í hvert sinn sem Brynhildur lék Edit á sviði, syngjandi fyrir sína áhorfendur, breyttumst við leikhúsgestir í raunverulega áhorfendur á tónleikum Edit Piaf. Leiksýningin og raunveruleikinn runnu saman.

Engin ummæli: