föstudagur, janúar 28, 2005

Fréttnæmt: Ferðalag til Kanarí

Í vikunni ákváðum við Vigdís að nýta páskafríið til að ferðast saman til útlanda. Það höfum við ekki gert síðan vorið 2003 (þá fórum við til Færeyja og Hjaltlandseyja með Norrænu). Við vorum ekki alveg samstíga með okkar hugmyndir lengi vel. Ég hafði borgarbrölt í huga, með tilheyrandi kaffihúsum og öðrum menningarafkimum. Eitthvað einfalt. Vigdís lagði hins vegar áherslu á að finna stað þar sem við getum slappað af saman í sumri og sól. Kanarí. Mér var meinilla við hugmyndina um tíma. Ég var þarna í vel heppnuðu fríi fyrir nokkrum árum en fannst ég hafa blóðmjólkað staðinn á innan við einni viku. Við verðum enn lengur en það, tæpar tvær. Eftir að hafa upphugsað fríið sem hreina slökun þá er ég hins vegar orðinn mjög sáttur. Það er hægt að hvíla sig vel á Kanarí. Eitt skilyrði varð þó að fylgja með: Það verður að brjóta upp einhæfa dvöl á Ensku ströndinni með því að fara í smá ævintýraferðir inn á milli, fjallgöngur, strætóferðir, skipulagða túra. Þarna allt í kring eru mjög áhugaverðir staðir og eyjur. Ein þeirra heitir Lanzarote og er eins og heit útgáfa af Íslandi (Sjáið 360 gráðu víðmyndir frá Lanzarote). Uppi á miðhálendi Kanaríeyjunnar (Gran Canaria) er glæsileg fjallasýn og merkileg afdalaþorp. Svo er á Ensku ströndinni besta veitingahús sem ég hef á ævi minni borðað á sem heitir Barbados. Þetta verður fínn kokteill. Nú er bara að finna góða bók, kaupa sér sundskýlu og rifja upp spænskuna.

Engin ummæli: