miðvikudagur, febrúar 02, 2005
Pæling: Tónlistarstefnur aðgreindar
Hvenær verður rokktónlist að pönki? Hver eru mörk kvikmyndatónlistar og klassískrar tónlistar? Hver er munurinn á rokkuðu poppi og poppuðu rokki? Þessar spurningar hef ég verið að glíma við undanfarna daga því ég á haug af geisladiskum með blönduðu efni sem ég ætla mér að dæla í tölvuna mína. Þetta er alls kyns tónlist sem ég jafnan hlusta ekki á vegna þess að lagasamsetningin á diskunum er full tætingsleg. Það getur stundum verið beinlínis vont að vaða úr einu í annað, til dæmis frá kántríballöðu yfir í uppátækjasama raftónlist. Helsti kosturinn við að nýta tölvuna sem hljómflutningstæki er einmitt sá að hún getur spilað tónlist eftir skýrum leitarskilyrðum. Þannig er hægt að setja af stað sína eigin útvarpsstöð heima við sem spilar tónlist af handahófi af tiltekinni gerð, allt eftir líðan manns sjálfs. Vandinn er hins vegar sá að það þarf að skilgreina hvert lag fyrir sig og átta sig á því hvaða tónlistarstefnu það tilheyrir. Þetta vekur upp ýmsar pælingar, opnar fyrir manni nýja sýn og kveikir enn meiri áhuga á tónlistinni.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli