Mitt í slappleikanum og doðanum bilaði heimasíminn (Doro 520). Hann dó í miðju simtali og hefur hvorki andvarpað síðan né blikkað. Í gær fór ég með hann í viðgerð og útlistaði ýmsa galla á honum sem hafa verið að pirra okkur Vigdísi frá fyrsta degi. Sá listi var langur og þrátt fyrir að ég fái ókeypis viðgerð (hann er enn í ábyrgð) langar mig ekki að taka við honum aftur. Það hvarflaði raunverulega að mér að skilja hann bara eftir. Af hverju? Hefst hér upptalning:
1. Ekki er hægt að stilla símann á "silent" þannig að ef maður vill sofa út eða hvílast eftir næturvakt þarf að láta símann á lægstu stillingu og geyma á afviknum stað.
2. Hringingarnar eru hvellar og leiðinlegar.
3. Símanúmerabirtirinn er meingallaður. Hann birtir ekki tímasetningu símtala heldur lista yfir númer í tímaröð. Á þeim lista safnast númerin bara upp þannig að enginn greinarmunur er gerður á eldgömlu númeri og glænýju. Maður þarf beinlínis að leggja á minnið hvar maður var staddur síðast á listanum til að vita hvaða hringingar hafa átt sér stað síðan þá.
4. Þetta er hleðslusími og hann virðist halda hleðslu frekar stutt (innan við 2 sólarhringar eftir margra tíma hleðslu).
5. Batterístáknið sýnir alltaf fulla hleðslu þar til hann á nokkrar sekúndur eftir. Þetta er álíka gagnlegt og að gefa stefnuljós eftir að maður er byrjaður að beygja. Það er því engin leið að átta sig á því hvort það er í lagi að hlaða hann yfir nótt (því hann þarf alltaf að tæmast fyrir hleðslu svo það grynnki ekki á rafhlöðunni).
6. Þegar hann er tómur koma tvö hvell píp. Gildir einu hvort um dag eða nótt er að ræða. Hann hefur því ótal oft vakið okkur frá værum svefni með slíkum tilkynningum.
7. Núna síðast, um daginn, dó hann drottni sínum, loksins. Varla er það hleðslan því við Vigdís komum til móts við tiktúrur símans í einu og öllu.
Nei, nú er mál að linni. Ég hef augastað á öðrum síma. Venjulegum veggföstum snúrusíma sem er einfaldur og áreiðanlegur. Heimasími verður að vera traustur. Þetta er öryggistæki. Gemsar mega vera leikföng, að mínu mati, en ekki heimasíminn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli