mánudagur, október 30, 2006

Lestur: Mislestur

Ég var í Bónus í dag og stóð í biðröðinni þar sem við blöstu alls kyns tímarit. Allt í einu sá ég verulega undarlega fyrirsögn yfir mynd af Steingrími Hermannssyni og Guðmundi syni hans og mændi á blaðið. Þar fannst mér standa "Raðnauðganir". Eftir að hafa pússað augun sá ég betur hvað þar stóð: Rauðgrænir. Þar er verið að fjalla um hvernig græni pabbinn (Framsókn) styður við bakið á rauðum syninum (í framboði hjá Samfylkingunni). Þetta minnti mig á gamla mislesturinn á síðum Morgunblaðsins: "Nauðungaruppboð" sem ég misskildi árum saman með þessum sama hætti.

sunnudagur, október 29, 2006

Fréttnæmt: Brúðkaup Bjarts og Jóhönnu

Í gær giftu þau Bjartur og Jóhanna sig við hátíðlega athöfn. Vel valinn söngflokkur stóð á svölunum og söng brúðkaupsmarsinn við orgelspil (og þar naut ég þess að vera innanborðs). Marsinn er sjaldnast sunginn nú til dags en það var þó sérlega viðeigandi og hátíðlegt því sönghefðin er í hávegum á heimili þeirra hjóna. Þau voru gefin saman í Hafnarfjarðarkirkju og buðu svo til veisluhalds í Safamýrinni í veislusal gamla fótboltafélagsins míns. Mikill fjöldi var þar staddur til að fagna með þeim. Fæsta þekkti maður svo sem en inn á milli kannaðist ég við gamla söngfélaga og einn og einn tónlistarmann sem kunnur er á opinberum vettvangi. Eins og við mátti búast var mikið af skemmtiatriðum og söng. Bæði sprellandi og spriklandi Smaladrengum (óborganlega fyndnir) og innilega næmum og fallegum söng Hallveigar. Eftirminnilegust fannst mér þó persónulegri atriðin, þar sem systkini Bjarts og fjölskylda þeirra sungu gömul lög eftir hann sem hann samdi sjálfur sem lítill krakki, að þeirra sögn. Þau voru skemmtilega súrrealísk og einlæg. Einnig stóð Bjartur sig frábærlega þegar hann settist við píanóið sjálfur, við undirleik strengja, og söng ástaróð til Jóhönnu. Ekki man ég hvað lagið heitir, en hann samdi það líka sjálfur, nema hvað, einhver annar var víst á undan honum að semja það :-). Haldin var vísubotnasamkeppni eftir að öllum söngatriðum sleppti og fékk sigurliðið forgang að kaffihlaðborðinu.

Er ég horfi út í geim
oft hann virðist svartur

Einhver sneri út úr keppninni og skipaði þar með borði sínu í aftasta sæti í röðinni:

Þetta er nú heldur "leim"
lakur fyrripartur

En sigurvegarinn var föðursystir Jóhönnu sem samdi þenna snilldarbotn, sem var sérstaklega vel við hæfi.

Um lágnættið þau leiðast heim
litla frænka og Bjartur

Þau héldu einmitt út í nóttina og dvöldu fyrir utan borgarmörkin í kyrrðinni yfir nóttina. Við óskum þeim aftur innilega til hamingju og hlökkum mikið til að hitta þau á ný.

sunnudagur, október 22, 2006

Fréttnæmt: Vikuyfirlit

Stundum gefst mjög takmarkaður tími til að kíkja í tölvuna og lítið sem ekkert bloggað. Þannig var síðasta vika. Hún var samt merkileg á margan hátt. Ef ég stikla á stóru þá ber kannski hæst að Vigdís fór að vinna eftir barneignarfrí (hún hefur ekki unnið síðan í desember síðastliðnum). Hún tók kvöldvakt á mánudag og strax morgunvakt daginn eftir. Akkúrat þann dag fór Signý í skoðun og ég mætti því einn með hana, frekar illa sofinn eftir að hafa vaknað snemma og skutlað Vigdísi. Það var athyglisverð heimsókn (og þess virði að fjalla um sérstaklega í annarri færslu). Svo er frásagnarvert að í vikunni lét eigandin grafa upp garðinn fyrir framan húsið til að komast að frárennslisrörunum. Það flæddi nefnilega upp úr niðurfallinu á ný um síðustu helgi og eigandinn ákvað í þetta skiptið að bíða ekki boðanna, hringdi strax í gröfumann og sérfræðing til að hreinsa leiðslurnar. Skurðurinn hefur nú staðið opinn í nokkra daga því rörin verða ekki hreinsuð fyrr en eftir helgi. Það er því sérkennilegt um að litast í Granaskjólinu og ekki laust við að maður rifji upp gömlu góðu kastalasíkin þegar gengið er fram hjá holunni. Núna um helgina yfirgáfum við Vigdís svæðið og skildum Signýju eftir í höndum ömmu sinnar. Við dvöldum yfir nótt í góðu yfirlæti með Jóni Má og Margréti í bústað í Grímsnesi. Þar var nútíminn tekinn beinlínis úr sambandi. Ekkert sjónvarp, ekkert útvarp - nánast ekkert rafmagn (kertaljós) - og við spjölluðum í algjöru tímaleysi frameftir kvöldi (eftir vel heppnaða kvöldmáltíð þar sem humar lék aðalhlutverkið). Við Vigdís komum endurnærð heim í dag.

sunnudagur, október 15, 2006

Tónleikar: Edda I - eftir Jón Leifs

Ég fór í gær ásamt Villa bróður á sinfóníutónleika. Þeir voru að frumflytja stórvirki eftir Jón Leifs, Eddu I, sem fjallar um sköpun heimsins samkvæmt norrænni goðatrú. Þetta er fyrsta Edda af þremur sem Jón samdi á lífsleiðinni (af áætluðum fjórum Eddum). Hann dó frá þeirri þriðju. Mér skilst að hinar tvær hafi verið fluttar áður en þessi, fyrsti hluti, hafi vaxið flytjendum svo mjög í augum að enginn hafi treyst sér hingað til að flytja hana (og nú eru tæp 40 ár síðan höfundurinn dó). Það þurfti margra vikna strembið æfingaferli fyrir þrautþjálfaða hljómsveitarmeðlimi og kór (Mótettukórinn) til að koma verkinu á framfæri og talað var um að nokkrum dögum fyrir flutning vissi enginn enn hvernig þetta myndi hljóma, svo strembið var æfingaferlið.

Tónleikarnir voru verulega magnaðir og ég fékk gæsahúð í það minnst þrígang í fyrsta og öðrum kafla (af tólf). Síðan fór ég að verða samdauna þessum tónaheimi og fannst síendurteknir hápunktar og hljóðeffektar hreyfa minna við mér. Jón Leifs ræðst á skynfærin og maður hálfpartinn kúplar sig frá eftir um tuttugu mínútna hlustun. Mér fannst verkið skorta í fljótu bragði fjölbreytni og hafði jafnvel á tilfinningunni á tímabili eins og því miðaði ekkert. Þetta var eins og að vera staddur inni í eldfjalli og sjá hraunið vella og logatungurnar steypast yfir mann án þess að neitt sérstakt væri í aðsigi. Það var ekki eins og hraunið væri um það bil að fara að umlykja mann eða neitt slíkt. Engin spenna - bara stöðug dramatík. Að flutningi loknum endurspeglaði salurinn þennan skort á framvindu og spennu í tónlistinni. Fólk var ekki beinlínis æst í að rjúka á fætur. Það hafði ekki fengið almennilega útrás eða svölun, eins og menn væru meira uppgefnir en hrifnir og klappaði meira af virðingu og þakklæti en geðshræringu.

Það var samt ástæða til að dáðst að flutningi verksins. Kórinn fannst mér syngja sérlega virkilega vel og hann rann á mjög sannfærandi hátt saman við sprengingarnar og lætin í hljómsveitinni. Tónlistin var því mjög áhrifamikil á köflum og það voru fjölmargir staðir sem ég vildi gjarnan hlusta á aftur og gefa betri gaum. Það verður vonandi hægt fljótlega enda stendur til að taka verkið upp og gefa út á vegum BIS útgáfunnar. Kannski fattar maður verkið betur í annarri atrennu.

miðvikudagur, október 11, 2006

Fréttnæmt: Nýr bílstóll

Við keyptum nýjan og betri bílstól fyrir Signýju í gær í BabySam. Við erum mjög ánægð með þjónustuna hjá þeim þvi þeir eru með aðstöðu til að sýna hvernig maður festir bílstól í sæti (þeir eru beinlínis með sæti og belti til að prófa). Signý fékk líka að prófa stólinn og henni leið greinilega mjög vel í honum (við tókum fullt af myndum). Hún var búin að stynja svolítið yfir gamla stólnum sem var orðinn nokkuð þröngur.

Starfsfólkið kinkuði kolli yfir gamla bílstólnum sem Signý er að vaxa upp úr og voru sammála okkur í því að hann væri svolítið klúðurslega hannaður (enda keyptum við hann hjá Ólafíu og Óliver). Við höfum verið svolítið ósátt við hann enda stirðbusalegur í notkun (en samt öruggur). Þessi er hins vegar betri á allan hátt ef maður ætlar að geta stillt hann af, lengt í böndum og svoleiðis. Og svo er hann stærri (10-18 kg.) auk þess að hann snýr fram en ekki aftur eins og hinn.

Við græjuðum stólinn strax og leyfðum Signýju að "prufukeyra" hann á leiðinni heim. Fyrst var hún hálf smeyk, enda snýr hún öðruvísi og situr hærra. Hún var hins vegar fljót að venjast og var bara eins og konan í gömlu auglýsingunni frá Bílasölu Guðfinns, ef menn muna (...og frúin hlær í betri bíl...). Hún brosti alla leið heim og klappaði saman lófunum.

þriðjudagur, október 10, 2006

Upplifun: Draugabær

Um helgina fór ég í skemmtilega ferð með Birki Frey. Við stukkum á skipulagða Varnarliðsferð frá BSÍ og upp á Miðnesheiði. "Litla Ameríka" er orðin að draugabæ og nöturlegt um að litast. Ekki sála á ferli. Ferðin var þannig skipulögð að það mátti ekki stoppa og fara út. Við urðum að gera okkur að góðu að sitja í rútunni og hlusta á vandaða leiðsögn um svæðið. Það sem sat eftir í mér var hvað ótrúlega miklir fjármunir hafa farið í endurbætur á húsunum og öðrum byggingum á liðnum misserum, sem síðan eru skilin eftir auð (og verða mörg hver rifin). Það er líka fáránlegt hvað miklum verðmætum var beinlínis hent eftir að herinn fór. Það mátti ekki gefa neitt því það hefði komið "markaðnum" utan girðingar úr jafnvægi. Sama máli gegnir um húsnæðið allt sem nú er ónotað. Ekki er búið að skipuleggja nýtingu þess enn þá. Sumt verður rifið en annað fær að standa. Það þarf að huga hratt að nýtingunni þvi íbúðarhúsnæði getur gereyðilagst á einu ári standi það autt. Það þarf ekki nema saklausan leka sem enginn verður var við.

Ég setti nokkrar myndir úr þessari ferð á myndasíðuna ásamt nokkrum öðrum nýlegum úr Granaskjólinu.

Daglegt líf: Sérstakar verslanir

Nú er rúm vika liðin frá því feðraorlofið hófst. Við Vigdís höfum verið saman í fríi þessa vikuna vegna handarbrotsins. Í dag var gifsið hins vegar fjarlægt og útséð með það hvenær hún byrjar að vinna aftur. Það verður strax eftir næstu helgi.

Maður leyfir sér alls kyns munað þegar tíminn er nægur. Við njótum þess að taka á okkur krók til þess eins að versla þar sem okkur finnst best að versla. Við fundum afmælisgjöf í Nexus, sem er ævintýraleg sérverslun teiknimyndasöguunnenda. Við keyptum nettar tækifærisgjafir í versluninni Völuskrín, sem helgar sig spilum og þroskaleikföngum. Þar er algjörlega hægt að gleyma stund og stað. Við fórum í Móðurást í Kópavoginum sem er til dæmis eina verslunin á höfuðborgarsvæðinu sem hefur fyrir því að kaupa inn sérstakar "skriðbuxur" handa börnum (buxur með gúmmíi á hnjánum svo að börn renni síður þegar þau skríða). Við nýttum sömu ferð til að kíkja í Fjarðarkaup. Þar er alltaf skemmtilegt að versla. Matvörur eru í huggulegum básum, sem gerir þetta allt meira spennandi, eins og í útlöndum. Fjarðakaup flytur inn ýmsar vörur sem ekki fást annars staðar og úrvalið kemur því raunverulega á óvart. Það fæst til dæmis hjá þeim ekta Bugles (Bögglesið, gamla og góða) sem er aðeins til sem eftirlíking i öðrum matvörubúðum. Að lokum gerðum við okkur sérferð til besta framkallarans í bænum, Pixlar, sem ótvírætt afgreiðir bestu stafrænu prentunina í bænum (og getur afgreitt hlutina gegnum tölvupóst og afhent þér við mætingu). Eflaust eru fleiri skemmtilegar snattferðir í þessum dúr framundan áður en Vigdís byrjar að vinna í næstu viku.

laugardagur, október 07, 2006

Netið: Myndasíðan - dætramyndir

Síðasta sumar trassaði ég mánuðum saman að setja myndir á myndasíðuna. Síðan hef ég verið nokkuð duglegur að bæta úr því. Hins vegar tekur það nokkuð langan tíma að vinna upp margra mánaða eyðu. Það bitnar á nýlegum myndum sem birtast fyrir vikið allar nokkurra vikna gamlar. Ég hef því ákveðið að gera þetta í bland. Fyrir hvern skammt af gömlum myndum (og nú er ég kominn í ágústmánuð) set ég alltaf inn nokkrar nýjar myndir. Þannig lokast hringurinn úr tveimur áttum samtímis.

Nýjustu myndirnar eru frá eftirminnilegu kvöldi í Kópavoginum þar sem við Kristján & Stella, Einar & Sólveig og við Vigdís ákváðum að hittast og leyfa dætrum okkar að kynnast svolítið. Þær eru allar í kringum ársgamlar (fyrir utan eldri dóttur Einars og Sólveigar) en við hittumst ekki fyrr en nú þar sem Kristján og Stella eru búsett erlendis. Þetta var heilmikið fjör.

föstudagur, október 06, 2006

Pæling: Eins konar atvinnuskipti

Lítilsháttar kreppa blasir við á heimilinu næsta mánuðinn. Ég fékk aðeins um 10 prósent af laununum útborgað. Ástæðan var sú að ég er kominn í feðraorlof, frá og með mánudeginum síðasta, og þar sem ég er á fyrirframgreiddum launum fæ ég lítið sem ekkert núna frá mínum venjulega launagreiðanda. Engin greiðsla frá Tryggingastofnun skilaði sér hins vegar (80 prósent af venjulegum daglaunum eiga að berast frá þeirri stofnun). Ég hélt að sú greiðsla myndi koma sjálfkrafa því ég tók tvær vikur út í byrjun ársins og tók fram á þeirri umsókn hvernig ég myndi haga skiptingu orlofsins síðar meir. En það þarf víst að ýta eitthvað við þeim. Þetta eru því nánast launalaus mánaðamót. Það er eins hjá Vigdísi, en með öðrum hætti. Barnsburðarleyfið hennar kláraðist þrettánda síðastliðinn (þá voru liðnir 9 mánuðir frá fæðingu Signýjar) og vegna handarbrotsins var hún í veikindaleyfi út mánuðinn (og hefði átt að fá það borgað frá launagreiðanda sínum). Eitthvað klúðraðist hins vegar á launaskrifstofunni hjá henni þannig að hún fékk ekki þann hálfa mánuð sem hún átti von á (en fékk hins vegar hálfa greiðslu frá Tryggingastofnun). Þetta þýðir bara að við þurfum að vera sparsöm þennan mánuðinn vitandi af tveimur feitum tékkum síðar meir þegar þetta verður leiðrétt.

Reyndar er þessi launahagræðing sem feðraorlofið felur í sér óþarflega fyrirhafnarmikil og einmitt líkleg til að valda svona misskilningi. Maður hefði haldið í fljótu bragði að þetta gengi því sem næst sjálfkrafa fyrir sig. Maður ætti ekki að þurfa að gera meira en að rétta upp hönd og segjast ætla í feðraorlof á tilteknum tíma og yfirmaður manns gengur frá pappírum og tryggir að maður fái sín 80 prósent þann mánuðinn í stað fullra launa. Slík umsýsla fer best í eins manns hendi. En svo er nú aldeilis ekki. Launagreiðandinn er ekki sá sami og því þarf að meðhöndla öll gögn eins og um atvinnuskipti sé að ræða (og það er á ábyrgð þess sem "skiptir um" vinnu). Tryggingastofnun þarf að fá skattkortið í hendur frá Reykjavíkurborg auk þess sem ég þarf að fylla út nákvæmt eyðublað og skila inn til þeirra. Þetta þurfti ég að gera í bæði skiptin, þegar ég tók út fyrstu tvær vikurnar í janúar og nú þegar ég klára restina af mánuðunum þremur. Það má því segja að ég sé á launum hjá Tryggingastofnun án þess að mæta nokkurs staðar í vinnu, þ.e.a.s. "heimavinnandi".

mánudagur, október 02, 2006

Fréttnæmt: Tvenn tímamót

Nú um helgina áttu sér stað tvenn tímamót á heimilinu. Fyrst ber að nefna afmæli okkar Vigdísar hér i hverfinu: Granaskjólstíminn okkar telur nú þrjú ár, frá og með í gær. Við fluttum inn fyrsta október 2003. Við héldum ekkert upp á það með neitt formlegum hætti en buðum samt foreldrum mínum í mat og höfðum það notalegt. Enn meiri breyting tengist hins vegar hinum tímamótunum því barneignarleyfi Vigdísar lauk nú um helgina og á sama tíma hófust þeir tveir og hálfur mánuður sem ég á í vændum í feðraorlofi heima. Vigdís fer reyndar ekki að vinna alveg strax því hún er enn með gifsið á sért. Þangað til í næstu viku er hún í leyfi á þeim forsendum.