miðvikudagur, október 11, 2006

Fréttnæmt: Nýr bílstóll

Við keyptum nýjan og betri bílstól fyrir Signýju í gær í BabySam. Við erum mjög ánægð með þjónustuna hjá þeim þvi þeir eru með aðstöðu til að sýna hvernig maður festir bílstól í sæti (þeir eru beinlínis með sæti og belti til að prófa). Signý fékk líka að prófa stólinn og henni leið greinilega mjög vel í honum (við tókum fullt af myndum). Hún var búin að stynja svolítið yfir gamla stólnum sem var orðinn nokkuð þröngur.

Starfsfólkið kinkuði kolli yfir gamla bílstólnum sem Signý er að vaxa upp úr og voru sammála okkur í því að hann væri svolítið klúðurslega hannaður (enda keyptum við hann hjá Ólafíu og Óliver). Við höfum verið svolítið ósátt við hann enda stirðbusalegur í notkun (en samt öruggur). Þessi er hins vegar betri á allan hátt ef maður ætlar að geta stillt hann af, lengt í böndum og svoleiðis. Og svo er hann stærri (10-18 kg.) auk þess að hann snýr fram en ekki aftur eins og hinn.

Við græjuðum stólinn strax og leyfðum Signýju að "prufukeyra" hann á leiðinni heim. Fyrst var hún hálf smeyk, enda snýr hún öðruvísi og situr hærra. Hún var hins vegar fljót að venjast og var bara eins og konan í gömlu auglýsingunni frá Bílasölu Guðfinns, ef menn muna (...og frúin hlær í betri bíl...). Hún brosti alla leið heim og klappaði saman lófunum.

Engin ummæli: