fimmtudagur, október 18, 2012

Fréttnæmt: Miklar breytingar framundan

Ég hef þagað nógu lengi á blogginu.  Nú er liðinn meira en mánuður síðan ég skrifaði síðast.  Ég hef bara ekki haft frið í mér til að setjast niður og skrifa um líðandi stund.  Ég stend á miklum tímamótum.  Við Vigdís höfum ákveðið að hætta að búa saman.  Okkar samband hefur gengið í gegnum miklar sveiflur undanfarin þrjú ár og forsendur fyrir áframhaldandi sambúð eru brostnar.  Fyrir því liggja ástæður sem ég kann ekki við að greina frá hér en þær eiga sér langa sögu.  Möguleikinn á því að við náum saman aftur er lítill og það er háð forsendum sem eru heldur langsóttar, en við verðum bara að sjá til.

Vigdís flutti að heiman fyrir tæpum þremur vikum síðan.  Það var á 30. september.  Það vill svo til að það gerðist daginn fyrir 1. október, sem er einmitt dagurinn sem við fluttum inn í Granaskjólið fyrir níu árum síðan.  Í gær gengum við loks frá pappírum þess efnis hjá sýslumanni.  Það vantaði einnig dag upp á til að það passaði við merkingarbæra dagsetningu.  Í dag eru nákvæmlega 10 ár og 5 mánuðir síðan við kynntumst (18. maí 2002).

Ég er búinn að velta því fyrir mér hvort ég ætti yfir höfuð að halda áfram að blogga.  Ég byrjaði að skrifa af kappi þegar við fluttum inn í Granaskjólið.  Fyrir þann tíma voru þetta bara þreifingar.  Núna verð ég að finna nýjan metnað og nýja ástæðu til að halda utan um skrifin.  Tíminn er af skornum skammti og hann nýtist helst Signýju og Hugrúnu.  Þegar ég er út af fyrir mig vil ég helst hvíla mig eða skrifa í einkadagbókina hugleiðingar um daginn hverju sinni. Ég trassaði dagbókarskrif um árabil eftir að ég byrjaði að blogga en undanfarin ár hefur sú tjáningarleið nýst mér vel til að halda utan um ruglingslegar hugsanir sem hafa sótt á mig, eftir aðstæðum.

Við Vigdís erum enn í góðu sambandi, þannig séð.  Við tölumst ekkert mikið við en það er engin sérstök beiskja á milli okkar. Við finnum bæði fyrst og fremst fyrir söknuði. En við vorum sammála um að við værum komin á leiðaenda, að minnsta kosti í bili.  Hún þarf tíma til að finna sig á ný hvert sem það á eftir að leiða hana.  Ég vona innilega að það eigi eftir að fara vel.  Það má segja að hún sé að fara út í óvissuferð á meðan mín staða er önnur.  Ég er heima á sama stað og stelpurnar áfram með lögheimili hér.  Ég legg ofurkapp á að halda hlutunum í horfinu og sinna stelpunum eins vel og ég get.

laugardagur, september 15, 2012

Daglegt líf: Brúðkaup og veikindi

Eins og fram kom síðast er margt búið að ganga á.  Ýmiss konar veikindi hafa barið að dyrum en einnig gleðilegir atburðir, stundum samtímis. Til dæmis var Signý sárlasin um mánaðarmótin.  Hún var með háan hita í þrjá daga og var um það bil viku að jafna sig.  Á meðan var haldið eftirminnilegt brúðkaup í stórfjölskyldunni þegar Ásdís og Toggi giftu sig. Signý var svo lasin heima að hún var varla meðvituð um hvað var að gerast.  Hugrún naut sín hins vegar til hins ítrasta.  Hún fékk það hlutverk að vera blómaberi og skilaði sínu hnökralaust.  Hún settist í þrepin við altari Dómirkjunnar, var mjög yfirveguð og brosti út í salinn með jöfnu millibili eftir því hver náði augnsambandi við hana.  Athöfnin var einföld, falleg og látlaus.  Svo fóru veislugestir út í kaffi Flóru.  Það var einstaklega vel til fundið því veðrið var svo dumbungslegt.  Þar er bara huggulegt að finna fyrir rigningunni dynja á glerskálanum eins og í vel heppnaðri útilegu.  Krakkarnir undu sér líka einstaklega vel á þessum stað tiplandi í kringum tjörnina með gullfiskunum.  Þeir fengu sáupkúlustauka til að leika sér með og höfðu nóg fyrir stafni á meðan við hin sátum afslöppuð í góðum félagsskap.

Þau tóku sig einstaklega vel út brúðhjónin og voru svo sannarlega vel að því komin að eiga hvort annað, enda fimmtán ára samvistir að baki.  Þau hafa farið í gegnum alls kyns tímabil í sameiningu, og hafa upplifað bæði súrt og sætt, og vita nákvæmlega hvar þau hafa hvort annað.  Það er ekki hægt að segja um mörg nýgift hjón.

Það gerðist margt skemmtilegt í Flóru en ég má til með að segja frá einni uppákomu.  Ég var svolítið utan við mig um tíma og heyrði allt í einu einhvern kalla fram einhver orð við klingjandi glas, eitthvað sem endaði á -oss.  Fólk lyfti glösum og ég gerði slíkt hið sama og endurtók það sem mér fannst hafa verið sagt: "Já, proust" (er það ekki franska fyrir "skál"?)  Ég skildi ekkert hvers vegna viðkomandi hafði slegið um sig á frönsku en ég tók bara undir og var eitthvað hissa á því þegar kliður fór um salinn sem magnaðist þar til brúðhjónin stigu upp úr sætum sínum og skelltu myndarlegum kossi á hvort annað.  Þá fattaði ég: "Já, koss!", var allt of seinn að draga fram myndavélina.  Missti af Kódak-augnablikinu.

Sem betur fer hvíslaði Vigdís einhverju að Hugrúnu nokkru seinna, sem lék á als oddi.  Vigdís lét klingja í glasi og Hugrún kallaði stríðnislega: "Kyssist! Kyssist!" og þá kom annað tækifæri.  Stríðnisglampinn í augum Hugrúnar var hins vegar svo ómótstæðilegur að ég byrjaði að smella mynd af henni.  Ég verð bara að treysta því að aðrir hafi náð kossinum  :-)

Svo var ennþá gaman þegar við komum heim.  Ég var afslappaður að aðstoða Hugrúnu við að búa sig undir svefninn og sagði upp úr þurru: "Hugrún, þú varst alveg frábær í dag!"  Sú stutta svaraði bara blátt áfram: "Já, ég veit". Síðan bætti hún við: "Þetta var líka alveg frábær dagur!"


sunnudagur, september 09, 2012

Daglegt líf: Dekurdagar um helgina

Það eru eins konar dekurdagar núna um helgina hjá Signýju og Hugrúnu.  Þær fengu að gista hjá Beggu á föstudaginn, fóru svo í afmæli til Almars daginn eftir, haldið í ævintýragarðinum, og fengu þar á eftir að gista hjá Ásdísi í fyrsta skipti.  Þau Ásdís og Toggi stilltu þessu upp sem náttfatapartíi og það féll aldeilis í góðan jarðveg.  Þær vildu helst ekki taka eftir mér þegar ég kom til að sækja þær áðan.  Síðan fórum við út að leika, buðum Almari með, og erum aftur á leiðinni heim til hans á eftir í kaffiboð (fullorðins afmæli).  Dekurdagar, eins og ég sagði.

Um sveiflur í bloggfærslum

Í síðasta mánuði setti ég met í bloggskrifum.  Ég komst upp í tíu færslur í fyrsta skipti í heil fjögur ár (frá  því í ágúst 2008).  Það er að sama skapi til marks um það hvað mikið hefur gerst í þessum mánuði að ég hef ekkert mátt vera að því að skrifa.  Fyrir því liggja ótal ástæður, sumar þeirra jákvæðar og aðrar neikvæðar, en þar er fyrst núna sem ég er að ná áttum.

þriðjudagur, ágúst 28, 2012

Ferðalag: Óvissuferð með Togga, fjórði hluti

Það var sannarlega gaman að aka beina leið eftir hitaveiturörinu í átt að Nesjavöllum með þrumandi rokktónlist í bakgrunni.  Adrenalínið fór því sjálfkrafa af stað á leiðinni í Adrenalíngarðinn á Nesjavöllum, sem var næsti áfangastaður.  Þar fengum við útrás fyrir spanið og eftirvæntinguna.  Toggi vissi auðvitað ekkert hvað tæki við á þessum stað og virtist hæstánægður með lendinguna, enda mikið fyrir hraðskreið farartæki, spennu og "adrenalín". Garðurinn er vel hannaður og öllum öryggiskröfum fylgt út í æsar.  Þetta er kaðlavirki með alls kyns "brúm" á milli stólpa (sem ná 10-15 metra upp).  Þrautirnar liggja á þremur hæðum og eru misjafnlega erfiðar en í öllum tilvikum er maður festur í tvöfaldri öryggislínu.  Þegar skipt er um þraut þarf að leysa sig og festa aftur en lögð er áhersla á það að maður festi aukalínu á sig áður en hinni fyrri er sleppt.

Þarna döngluðum við á víbrandi köðlum og tipluðum í 12-15 metra hæð eftir þröngum einstigum.  Sums staðar var mælt með því að maður styðji sig við öryggislínuna sína, sem hangir rétt fyrir ofan, til að finna jafnvægið betur.  Hins vegar er það meira krefjandi að láta sem hún sé ekki þarna og reyna eftir bestu getu að fikra sig eftir mjög svo ótryggri brú í allt að því lífshættulegri hæð (vitandi af línunni góðu, samt sem áður).  Að endingu var boðið upp á að láta sig gossa og renna sér eftir kaðli niður yfir læk sem rennur fram hjá þrautabrautinni.  Til að pumpa enn meira adrenalíni gegnum æðakerfið var svo slúttað með þar til gerðri risarólu sem sveiflar manni nánast úr frjálsu 10 metra falli upp í sömu hæð og aftur til baka.  Sú tilfinning var geggjuð.

Sæmilega örir og kampakátir fórum við til baka sem leið lá Nesjavallaleiðina og mættum þá sama hægfara bíl og hafði verið á vegi okkar fyrr um daginn.  Er við höfðum tekið fram úr honum mundi Toggi skyndilega eftir einu verkefninu: "Mundu að hleypa bílum fram úr ef þú þarft að hægja á þér".  Um leið og Toggi hafði sleppt orðinu fann Kristinn álitlegan stað til að stöðva bifreiðina, og framúr silaðist fjölskyldubifreiðin, eflaust sátt og sæl eftir vel heppnaðan berjaleiðangur og jafnframt undrandi yfir þessum sveiflukennda akstri okkar.  Þetta var hins vegar skammgóður vermir því stuttu eftir að við vorum lagðir af stað lentum við aftur á eftir sama bílnum.  Þegar Kristinn tók framúr á ný hvatti hann Togga til að setja á sig yfirvaraskeggið: "Sýndu þeim stashið maður!".  Þetta var nú meira hugsað sem ögrun fyrir Togga því hann er svo ferlega fyndinn með þetta skegg og hann tók áskoruninni hikstalaust. En því miður var sem enginn tæki eftir Togga með sitt prýðilega skegg.  Þá varð Kristinn nokkuð svekktur og fann sig knúinn til að leggja bílnum á ný og gera þetta almennilega.  Á þeim tímapunkti áttaði Toggi sig hins vegar á því að gamanið væri kannski öllu grárra hjá greyið fólkinu í fjölskyldubílnum og við ákváðum að láta kyrrt liggja enda virtist okkur þau aka óvenju hratt framúr í þetta skiptið.

Ferðin gekk nokkuð tíðindalaust sem eftir var að því undanskildu að ég vildi skipta um föt áður en við færum út að borða og datt í hug að renna við í Nauthólsvíkinni.  Þar eru skiptiklefar og ég nýtti tækifærið til að vaða út í saltan sjóinn.  Þeir Toggi og Kristinn létu sér nægja að fylgjast með, - sundsprettnum það er að segja.  Eftir það var ég sjálfur mjög ferskur og tilbúinn að snæða öndvegis pizzu.  Á Pisa var rætt og skrafað út frá ýmsum heilræðum sem Toggi hafði valið sér í hellinum og síðustu verkefnin lögð fyrir í leiðinni. Hann átti að vera sérlega kurteis við gengilbeinur og vera duglegur að hrósa, sem hann og gerði svo sannfærandi að ein daman fór næstum hjá sér. Annars bragðaðist maturinn frábærlega og við meira en sáttir við daginn, orðnir lúnir og saddir í senn.  Á planinu hjá Togga var að lokum skálað í ógeðsdrykk: Rauðrófusafa.  Hann var reyndar prýðilegur á bragðið að mínu mati (ég veit að þeir eru mér ekki sammála) en lyktin var eins og úr fjósi.   

föstudagur, ágúst 24, 2012

Ferðalag: Óvissuferð Togga, þriðji hluti

Hellinn fundum við á sínum stað.  Leiðarendi er magnaður hellir.  Hann er einn til tveir metrar á hæð og  liggur sem göng neðanjarðar einhver staðar undir helluhrauninu milli Bláfjalla og Hafnarfjarðar.  Göngin ná um það bil kílómetra og liggja í hring þannig að hægt er að ganga inn hellisopið á einum stað og koma út annars staðar.  Við þremenningarnir vorum ögn tímabundnari en svo að við gætum grandskoðað hellinn en fórum þó nógu langt inn, gegnum klungur og ruðninga, til að missa algjörlega sjónar af dagsljósinu.  Rigning undanfarinna daga hripaði niður sprungur í hellisloftinu.  Þegar Kristinn stakk upp á því að við slökktum á lugtum og hlustuðum á kyrrðina upplifðum við magnaða stund.  Að því loknu tendraði ég nokkur sprittkerti og fór yfir prógrammið með Togga.

Við vorum með bók sem innihélt 509 heilræði og hann fékk að nefna tölur af handahófi í daufum bjarmanum af kertaljósinu.  Heilræðin skyldu höfð í huga það sem eftir var ferðarinnar sem eins konar verkefni handa Togga. Hann var hins vegar heppinn með verkefni og þurfti bara að: vera kurteis við gengilbeinur, vera óspar á hrós, muna eftir því að vera brosmildur og annað í þeim dúr.  Við Kristinn sáum í hendi okkar að þetta væri hægt að gera á einu bretti á veitingahúsi seinna um daginn.  Hann fékk reyndar líka nokkur ónýt heilræði í ljósi aðstæðna eins og "Vinkaðu börnum í skólabílum" en heilræðið "Mundu að hleypa bílum framúr ef þú þarft að nema staðar" átti eftir að vinda upp á sig.

Okkur vað brátt hrollkalt í hellinum og fikruðum okkur aftur í átt að opinu.  Það var eins og að stíga úr flugvél á Spáni að koma aftur upp á yfirborðið.  Hlýr rakamettaður loftmassinn lagðist utan í okkur og það var gríðarlega notalegt.

Aftur var skálað í pólsku gosi og haldið sem leið lá í átt að Nesjavöllum.  Nesjavallaleiðin var svolítið ný upplifun fyrir mig.  Ég hafði í mesta lagi ekið hana hálfa áður.  Ég var ekki við stýrið og naut þess að fljóta með farþegamegin.  Það sæmdi vel þeim bílaáhugamönnum sem ferðuðust með mér að bruna þessa beinu braut á eðalvagni.  Mér varð næstum um og ó en sem betur fer setti bíllinn okkur takmörk.  Á meðan var hlustað á "framandi" tónlist, sem framhald af framandleikanum í ávaxtaverkefninu. Hvað er meira framandi á svona stað en "dauðarokk"?  Það er að minnsta kosti ekki tónlist sem margir leggja sig eftir að hlusta á að jafnaði og heyrist afar sjaldan í útvarpi.  Kristinn er hins vegar áhugamaður um harða rokktónlist og miðlaði af þessu til okkar hinna sem kyrjuðum með af miklum móð meðan kerran brunaði sína leið.  Svo kom að því einhvers staðar á leiðinni að við mættum hægfara bíl.  Í hneykslunartón sagði ég gegnum bílrúðuna "Haltu dampi maður!" sem Kristinn var fljótur að yfirfæra á slangur: "Haltu dampi hvað það var gaman!"  Toggi sveiflaði í sömu mund fram blótsyrði sem umsvifalaust varð að klassík í okkar eyrum: "Haltu á ketti!".  Þetta tvennt var rumið og kyrjað á víxl á leið til Nesjavalla, þar sem Toggi vissi ekki hvað beið sín.

miðvikudagur, ágúst 22, 2012

Ferðalag: Óvissuferð með Togga, annar hluti

Óvissuferðin var sannkölluð óvissuferð.  Við Kristinn vorum aðeins með lauslegt plan og spunnum ferðina að hluta til jafn óðum.  Grunnhugmyndin var hins vegar nokkuð skýr: Ætlunin var að reyna á Togga með ýmsum hætti og sjá hvort hann sé haldinn innilokunarkennd, geti treyst öðrum blindandi, hvort hann sé nokkuð smeykur við hið óþekkta og hvort hann geti yfirvegið eigin lofthræðslu.  Sem meðlæti alla leiðina buðum við upp á framandi veitingar af ýmsu tagi sem fengust í skemmtilegri pólskri búð í Breiðholtinu (Pólskt gos og nammi er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og svei mér ef það á ekki upp á pallborðið hjá þeim Togga og Kristni eftir ferðina).

Ferðin hófst fyrir alvöru með fyrsta verkefni um leið og við náðum útjaðri borgarinnar.  Þá fékk Toggi framandi ávexti í hendur, sex talsins, hver öðrum skrýtnari, og eyðublað þar sem hann þurfti að gera grein fyrir bragði og framandleika hvers og eins auk þess að gefa frá sér ítarlega lýsingu eðli bragðsins. Þetta verkefni kláraði Toggi með miklum sóma og varpaði fram ýmsum skáldlegum lýsingum ("eins og hlaupkenndur appelsínubörkur" var ein).  Sigurvegari ávaxtasmakksins reyndist vera granatepli, sem var eini ávöxturinn sem við vorum allir hrifnir af (og Toggi lýsti með "berjabragði, sætu en þó svolítið súru").

Við enduðum fyrsta hluta bíltúrsins í Bláfjöllum, alveg óvart, því við Kristinn vorum ekki með mjög nákvæma leiðarlýsingu á fyrsta áfanga ferðarinnar.  Skemmtilegur og súrrealískur staður til að staldra við á að sumarlagi, eins og draugaborg eða eyðibýli, mannvistarleifar sem vakna til lífsins öðru hvoru. Þar var stoppið nýtt til að stilla sér upp. Kristinn dró fram yfirvaraskegg (sem við kölluðum "the stash") og skellti á Togga.  Hann líktist helst ábúðarmiklum rússneskum kaupsýslumanni sem ígrundaði troðnar brekkurnar bak við sig.  Þá fórum við aftur af stað að afleggjaranum í átt að Hafnarfirði, sem okkur hafði sést yfir. Hann átti að leiða okkur að næsta áfangastað: Hellinum Leiðarenda.

Við Kristinn studdumst við mjög ónákvæma leiðarlýsingu og samkvæmt henni átti slóðinn að hellinum að vera mjög greinilegur norðan megin við veginn.  Merking á korti gat skeikað nokkur hundruð metrum.  Við stoppuðum því á vitlausum stað og gengum mjög "greinilegan" slóða út í hraunbreiðuna, út í óvissuna.  Toggi hafði ekki hugmynd um það hvað við ætluðum að gera en setti þó á sig hjálm (eins og við) og gekk með bundið fyrir augu.  Það var eiginlega aðdáunarvert hvað hann var þolinmóður og fótviss í senn og gekk án sýnilegs tilgangs í 15-20 mínútur áður en við Kristinn áttuðum okkur á því að slóðinn endaði ofanjarðar og dó út.  Toggi fékk að opna augun úti á berangri og horfði í kringum sig.  Ég skokkaði um í leið að mögulegum hliðarstígum og leyndum hellum en allt kom fyrir ekki. En við komumst að minnsta kosti út í óvissuna og komumst á leiðarenda, Toggi öðrum fremur, enda upplifði hann miklu torfærari og lengri göngu en við hinir.

Við skáluðum sem oft fyrr í pólsku gosi þegar við komum að bílnum og ákváðum að freista þess að aka í tíu mínútur lengur til að finna réttan stíg. Og hann blasti við, svo sannarlega, með áberandi vörðu og grárri möl sem gerði gönguleiðina mjög greinilega.

Meira seinna

laugardagur, ágúst 18, 2012

Ferðalag: Óvissuferð með Togga - fyrsti hluti.

Í gær var ég óvenju þreyttur, nýkominn úr vel heppnaðri óvissuferð sem ég skipulagði með Kristni (bróður Vigdísar). Við vorum búnir að brjóta heilann og velta vöngum lengi án þess að hafa haft gott svigrúm til samráðs.  Þegar fókusinn var orðinn skarpur og öll plön endanlega samofinn í eina samfellu var lagt í "steggjun".  Það var í fyrradag, fimmtudag, sem við "steggjuðum" Togga í tilefni af brúðkaupi hans og Ásdísar (systur Vigdísar) undir lok mánaðarins.  Undirbúningurinn var vandmeðfarin því við vildum gera eitthvað sem var okkur öllum til ánægju.  Við Kristinn erum þar að auki ekki þannig hugsandi að við vildum gera Togga of vandræðalegan og sneiddum að mestu fram hjá vandræðalegum uppákomum.  Vorum sammála um að virða öll velsæmismörk.  Áherslan var því lögð á óvissuna og ögruðum Togga frekar með áhættu og spennu í stöðugri glímu við hið "óþekkta".

Dagurinn byrjaði hins vegar með smá vandræðagangi, svona til að gefa tóninn.  Við mættum alveg óvænt í vinnuna til hans eftir hádegismat.  Yfirmenn og samstarfsfólk vissi af þessu en Toggi kom alveg af fjöllum.  Við Kristinn mættum með furðuleg gleraugu þar sem augun okkar eru afmynduð með skringilegum myndum af annarlegu augnaráði og litum hálf geðveikislega út.  Toggi var bara í vinnugírnum, eitthvað að dunda sér við að sýna Ásdísi bíl, og var ekkert á því að fara með okkur í fyrstu.  Það var ekki fyrr en við skelltum á hann hárkollu að hann fór að átta sig á því hvert stefndi. Hann settu fús á sig kolluna og leit nákvæmlega út eins og Davíð Oddsson á borgarstjóraárunum.  Það var óvæntur bónus og öllum til skemmtunar.  Þegar hann var búinn að ganga frá síðustu erindum og kveðja starfsfólk, með hlátrasköllum þeirra, fór hann hálf ringlaður með okkur út í bíl, gamlan Volvo (árgerð 1990).  Bíllinn var honum að skapi og þegar við vorum búnir að skála með orkudrykk var lagt af stað í glampandi sólina.

Framhald seinna  (í kvöld eða á morgun)

þriðjudagur, ágúst 14, 2012

Tónlist: "Gleðigjafi" enduruppgötvaður

Elton John hefur verið mikið spilaður á okkar heimili undanfarna viku.  Ástæðan er fyrst og fremst teiknimynd sem stelpurnar eignuðust um daginn, Gnomeo and Juliet.  Þetta er ágæt teiknimynd að mörgu leyti en ekkert sérstaklega merkileg nema fyrir það helst að innihalda nær eingöngu gömul klassísk lög eftir Elton John.  Í stað þess að frumsemja fyrir myndina gaf þessi skrautlegi tónlistarmaður leyfi fyrir því að gömlu lögin hans yrðu aðlöguð myndinni.  Útkoman er sérkennileg í fyrstu en virkar vel þegar maður venst henni.  Þarna má heyra smelli eins og Your Song og Rocket Man en þau lög sem njóta sín best í myndinni (og stelpunum finnst skemmtilegust) eru hressilegu stuðlögin hans: Crocodile Rock,  Don´t Go Breaking My Heart og Saturday Night´s All Right For Fightin´.  Í hvert sinn sem við förum í bíltúr þessa dagana biðja þær til dæmis um "kappaksturslagið" og þá vita allir hvað átt er við.

Ég hef lengi átt tvöfaldan safndisk með Elton John í tölvunni og einstaka sinnum sett hann í ipodinn en einhvern veginn hef ég aldrei nennt að hlusta á hann.  Ég er ekki alltaf í stuði fyrir hreina og beina popptónlist og vel yfirleitt eitthvað frumlegra, torræðara eða dularfyllra.  Hins vegar nýt ég þess til hins ýtrasta þessa dagana að uppgötva með stelpunum (enduruppgötva, í mínu tilfelli) tónlist Elton Johns og geri svo í því að læða nokkrum lögum að inn á milli sem leynast á safnplötunni.  Mikið eru lög eins og Song for a Guy smekkleg.  Það er nánast alveg instrumental og finnst mér vera á par við lagasmíðar á borð við Chariots of Fire og slíka tímalausa tónlist.  Eða poppsmellurinn Nikita, sem er uppfullt af söknuði eftir því sem ekki er hægt að fá.  Þetta lag minnir mig alltaf á dvöl mína í Rússlandi hér um árið (1999), enda heyrðist manni rússar hafa sérstakt dálæti á tónlist Elton John.  Hann var stöðugt í spilun þar eystra, bæði þetta lag og aðrar melódískar perlur, og það gerði sitt til að ylja manni þreyttum ferðamanninum.  Mörg laga Elton Johns vekja fyrir vikið upp rússnesk hughrif hjá mér og mér þykir svolítið vænt um það.

Svo er því ekki að neita að framan af ferlinum var Elton John mjög frumlegur og djarfur lagasmiður.  Lögin hans áttu það til að vera uppfull af sérkennilegheitum (sbr. Bennie and the Jets).  Sum lög hef ég svo tekið til endurskoðunar, lög eins og Candle in the Wind, sem ég hef ekki hlustað á í meira en fimmtán ár.  Ég varð skyndilega mjög þreyttur á laginu á sínum tíma eftir að Elton flutti það í minningarathöfn Díönu prinsessu.  Þá upplifði ég það sem yfirdrifna vellu.  Lagið er samt frábært og ég nýt þess að hlusta á það með ferskum eyrum á ný eftir svona langt hlé.  Eins er það með meistaraverkið hans, Goodbye Yellow Brick Road, sem var talsvert spilað á sínum tíma.  Mér fannst það alltaf mjög flott en einhvern veginn náði það enn betur til mín tilfinningalega núna.  Þetta er eitt af þessum fáu lögum sem ná því að vera metnaðarfull, frumleg og sérkennileg en samt innileg og ógurlega fögur.

Fyrir þremur dögum síðan, á sama tíma og gleðigangan þrammaði niðri í bæ, var ég staddur einhvers staðar í úthverfi með þennan frábæra tónlistarmann í spilaranum og fannst það einhvern veginn við hæfi að enduruppgötva þennan glysgjarna tónlistarmann á þessum degi.  Hann er einn frægasti glamúrhommi samtímans og hefur náð merkilega vel að höfða til mismunandi kynslóða gegnum tíðina. Af seinni tíma afrekum hans má nefna tónlistina við Lion King sem við í fjölskyldunni höfum hlustað á óspart í allt sumar og oftar en ekki sett í botn.







föstudagur, ágúst 10, 2012

Pæling: Uppgjör við tapið í London

Þá er það opinbert: Liðin sem við unnum í okkar riðli í handboltanum eru að keppa til úrslita á ólympíuleikunum.  Þetta má líta á sem svekkelsi út af fyrir sig en það má líka sjá þetta sem hvatningu. Frammistaða liðsins í riðlinum, með hliðsjón af niðurstöðu mótsins, sýndi það og sannaði að liðið hafði alla burði til að sigra.  Þeir misstigu sig bara á versta tíma. Núna geta þeir hins vegar horft á verðlaunapallinn og sagt með sjálfum sér: Þarna eigum við heima! Og þeir vita að það er engin ímyndun. Eftir að hafa nagað sundur handarbökin (sem ég veit að þeir hafa gert) eiga þeir svo sannarlega að geta gengið stoltir frá mótinu.

miðvikudagur, ágúst 08, 2012

Tímamót: Leikskólabyrjun og veðraskil

Í dag fór Hugrún í leikskólann á ný.  Ég sofnaði hálfpartinn á verðinum og áttaði mig fyrst á því seinni partinn í gær að leikskólastarfið væri að hefjast.  Leyfði mér fyrir vikið að taka því rólega í morgun, horfði á leikinn umrædda og leyfði stelpunum að dunda sér í tölvunni á meðan.  Hún fór ekki í leikskólann fyrr en eftir hádegi í dag.

Það mun taka smá tíma að snúa svefnrútínunni aftur.  Þær voru farnar að sofna upp úr tíu og vakna níu að morgni.  Voða kósí hjá okkur í sumar.  Ég hugsa að við vöknum rólega næstu tvo daga, enda helgi framundan.

Dagurinn í dag markaði önnur þáttaskil: Það kom bæði rok og rigning!  Þetta er eiginlega fyrsti alvöru rigningardagurinn í allt sumar.  Með kvöldmyrkri ágústmánaðar finnur maður rækilega fyrir návist haustsins. Eftir sólríkasta sumar í manna minnum má segja að veðurguðirnir hafi vottað okkur samúð eftir tapið í morgun með bæði dimmum og drungalegum degi.

Handbolti: Tapið gegn Ungverjum

Þá er ólympíuævintýri handboltalandsliðsins lokið.  Það er ekki laust við að maður sé vankaður af undarlegum tómleika svona rétt á eftir.  Við vorum öll búin að sjá fyrir okkur að liðið kæmist í fjögurra liða úrslit og að þeir myndu vinna til verðlauna, jafnvel ná gullinu.  Slíkar væntingar voru í þetta skiptið raunhæfar því önnur lið í keppninni virtust vera af svipuðum styrk og við.  Frakkarnir hafa verið áskrifandi að gullinu hingað til en núna voru mun árennilegri en áður.  Breiddin í okkar hópi var líka mun meiri en nokkru sinni fyrr.  Við áttum meira að segja nóg "inni", ef tekið er mið af þeim leikmönnum sem enn áttu eftir að blómstra eða voru einfaldlega lítið búnir að spreyta sig. Það lá einhvern veginn í augum uppi að við myndum ná langt með þetta lið.  Samsetning ferskleikans (Arons) og reynslunnar (Ólafs) var baneitruð auk þess sem aðrir reynsluboltar í liðinu voru í toppformi.  Hvernig gat þetta eiginlega gerst?

Vantaði einhverja hvatningu?  Þegar liðinu hefur verið stillt upp við vegg hefur það alltaf staðið sig best.  Þegar þeir hafa "klúðrað" auðveldum leikjum og "orðið" að vinna lið á borð við Frakka til að komast áfram, þá hafa þeir magnað upp einhverja geðveiki og slátrað andstæðingunum.  Þá skiptir engu hverjum þeir mæta. Kannski hefðu þeir átt að sjá fyrir sér fyrirsagnir morgundagsins á borð við "Ólympíudraumurinn úti", fyrir leik, til þess að gera sér grein fyrir því að Unverjarnir væru komnir til að stela af þeim tækifærinu.  Búa til einhverja grimmd.  En sú einbeiting virtist vera fyrst og fremst í hinu liðinu, því miður.

Það er líka synd að fyrirkomulag keppninnar skuli leiða fjögur efstu liðin í átta liða útsláttarkeppni.  Persónulega er ég mun hrifnari af hinu fyrirkomulaginu, þegar tvö efstu liðin mætast í kross í undanúrslitum.  Þá skiptir meira máli að standa sig mótið á enda.  Með þessu fyrirkomulagi hefði vel verið hægt að slappa af allt mótið og leyfa sér að tapa móti Svíum, Frökkum og .... tja, ég ætla ekki að segja Bretum, en Túnis, þess vegna.  Með fjórða sætinu hefðum við líklega náð meiri einbeitingu. Ég veit ekki.  Einn stakur leikur getur svo auðveldlega þróast út í "happdrætti" (eins og Guðmundur þjálfari tók til orða).  Það var nánast hending hvoru megin sigurinn lenti.  Eðlilegra hefði verið að við fengjum að gera atlögu að bronsinu eftir frammistöðuna í mótinu, en því er ekki að skipta, eins og mótinu hefur verið stillt upp.

Á maður þá að halda með Ungverjum?  Þeir stóðu sig frábærlega gegn okkur og það væri viss huggun harmi gegn ef þeir næðu verðlaunum. Að minnsta kosti hef ég ekki lyst á að halda með hinum liðunum sem komin eru áfram.

Sjá öll úrslit hér.



mánudagur, ágúst 06, 2012

Kvikmyndir: Dáleiðandi meistaraverk

Verslunarmannahelgin hefur verið ljúf eins og venjulega.  Hvað er betra en að spóka sig í mannlausri borg þegar þorri landsmanna hamast úti á landi við að elta mesta fjörið eða sterkustu sólina?  Flestir koma eflaust þreyttir til baka og jafnvel pirraðir eftir umferðarteppuna eftir helstu þjóðbrautum landsins.  Hér heima er hins vegar slíkur friður að það er engu líkara en sveitasælan hafi flúið landið og leitað inn í borgina.

Ég hefði getað kíkt á innipúkann, þar var nóg af áhugaverðum uppákomum, en lét það vera því ég hlakkaði svo mikið til að klára myndina sem ég var nýbyrjaður á: Once Upon a Time in America.  Þetta er mikið meistaraverk, bæði fyrir eyru og augu,  eftir meistara Sergio Leone (sem gerði sína ódauðlegu spagettívestra á miðjum sjöunda áratugnum).  Þessi saga er ólík vestrunum að því leyti að hún gerist í borgarumhverfi á tuttugustu öld, nánar tiltekið í New York frá kreppuárunum til 1968 og spannar lífshlaup svikahrappa og bruggara sem maka krókinn á bannárunum og þurfa að svífast einskis til að lifa af.  Myndin hefur mikla mannlega dýpt og fjallar að miklu leyti um tækifæri sem fara forgörðum og vináttu sem spillist.  Persónusköpun í myndinni og handritið eru bæði í hæsta gæðaflokki, enda eru Robert de Niro og James Woods í aðalhlutverkum.  Þetta er saga sem flakkar fram og til baka í tíma, sem er ekki svo óvenjulegt í dag, en á þeim tíma sem myndin kom út (1984) fann bandaríska kvikmyndaeftirlitið sá sig knúið til að raða söguköflunum í rétta tímaröð (klippa myndina upp á nýtt, sem sagt).  Myndin er heldur engin smásmíði, rúmlega 240 mínútur í óstyttri útgáfu (sem hefur reyndar enn aldrei komið út).  Eftirlitið miskunnarlausa í Bandaríkjunum skar myndina niður í rúma tvo tíma, en í Evrópu var hún sýnd sem þriggja og hálfs tíma mynd, og það er nokkurn veginn sú útgáfa sem ég horfði á í áföngum núna um helgina.

Það var reyndar mjög skemmtilegt að vera með svona stórvirki í spilaranum því ég er nýbúinn að breyta til í stofunni og færa til húsgögn þannig að sjónvarpsaðstaðan hefur batnað til muna.  Þvílíkur munaður að sitja í leiðslu yfir þessari mynd og vígja þannig "nýju stofuna".  Myndin er dáleiðandi meistaraverk.

Tónlist: Vínylsala aldarinnar - afrakstur

Síðast skrifaði ég nokkuð ítarlega um goðsagnakennda plötu.  Hana fékk ég á plötusölu í Norðurmýrinni, sem titluð hefur verið "vínylsala aldarinnar" og hefur mikið verið mikið í fréttum.  Hún stóð undir nafni enda um merkilegt safn að ræða.  Þetta var hluti af einkasafni tónlistargagnrýnandans Arnars Eggerts, sem skrifað hefur mikið fyrir Morgunblaðið.  Ég hef átt auðvelt með að treysta dómgreind hans gegnum tíðina. Hann er af sömu kynslóð, hlustaði á sömu þætti í gamla daga (Skúla Helgason og Snorra Má) og virðist halda upp á nákvæmlega sömu perlur úr tónlistarsögunni.  Við eigum það til dæmis sameiginlegt að halda óumræðilega mikið upp á sveitir eins og Talk Talk og Thin White Rope og getum gleymt okkur í spjalli um þær og hristum á sama tíma hausinn yfir sveitum eins og Nirvana.  Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar þegar ég frétti af sölunni og það er líka gott að vita að salan komi til af góðu: Hann stefnir á nám í sínum tónlistarfræðum í Skotlandi.

Ég er sjálfur þokkalegur safnari sjálfur en á þó ekki nema um þúsund geisladiska og aðeins nokkur hundruðu platna.  Ég grisja safnið mitt reglulega. Safn Arnars skipti þúsundum platna og diska.  Hann hafði, að eigin sögn, þann háttinn á að safna nánast öllu án þess að grisja neitt, tapa svo gleðinni og missa sjónar á tilganginum með safninu.  Fyrir vikið voru á sölunni mörg merkileg heildarsöfn af ýmsu tagi auk alls konar dýrgripa inni á milli, sem hann átti eflaust í tvíriti (á diski og plötu og svoleiðis).

Þetta var notaleg garðsala, svolítið þrönt í blábyrjun þegar allir kepptust um að finna feitasta bitann.  Ég kom hins vegar aftur daginn eftir og grúskaði örlítið meira.  Vigdís fann tvær plötur en að því slepptu hélt ég mig alveg við diskana.  Plötuspilarinn er ónothæfur eftir að magnarinn minn brann yfir hér um árið.  En ég fann aldeilis fína titla á diski:

Love: Forever Changes (tónleikaútgáfan)
Dexy´s Midnight Runners: Don´t Stand Me Down
David Bowie: Christiane F./Baal/Rarities
Talk Talk: Missing Pieces
Jethro Tull: Too Old To Rock´n Roll
(Original Soundtrack): The Wizard of Oz
Peter Gabriel: Up
Eugene Chadbourne & Jimmy Carl Black: The Jack and Jim Show

svo fékk ég nokkrar plötur sem tengjast "Ameríkuþemanu" mínu:

Johnny Cash: American III, Solitary Man
The Handsome Family: Through the Trees og Twilight
Whiskeytown: Strangers Almanac

Að lokum, þegar ég spjallaði við Arnar einslega eftir söluna, gaukaði hann að mér miklum gæðagrip sem ég sá eitt sinn á lista yfir bestu týndu ("lost") plötum allra tíma. Þetta er sem sagt ein af þeim plötum sem vöktu enga athygli þegar þær komu út (eða komu hreinlega ekki út fyrr en löngu eftir að þær voru teknar upp, eins og í þessu tilviki, og eru því á skjön við tónlistarsöguna).  Það er plata Chris Bell: I am the Cosmos.  Þessi tónlistarmaður var í rokkhljómsveitinni Big Star, sem hafði mikil áhrif á amerískt rokk á sínum tíma (R.E.M. og the Replacements eru tvö dæmi).  Þeir notuðust við mjög melódíska tónlist og safaríka harmóníu í anda Beach Boys og Bítlanna en matreiddu það sem rokktónlist, með seiðandi áhrifum.  Þessi plata er mögnuð á svolítið undarlegan hátt og ég átti virkilega erfitt með að slíta mig frá henni strax í fyrstu spilun.

mánudagur, júlí 23, 2012

Tónlist: Goðsagnakennd plata enduruppgötvuð

Ég hlustaði í gærkvöldi á frábæra plötu og hékk yfir henni frameftir kvöldi: The La´s: The La´s

Þessa plötu er ég búinn að halda upp á síðan hún kom út 1990.  Þá keypti ég mér hana á vínyl (sem ég á enn). Tæplega tíu árum seinna eignaðist ég plötuna á diski og núna, um síðustu helgi, eignaðist ég hana einu sinni enn, aftur á diski.  Ástæðan er sú að ég fann Deluxe útgáfuna af plötunni með aukadiski sem inniheldur aðra útgáfu af plötunni. Þar heyrir maður plötuna í heild sinni eins og hún átti upphaflega að hljóma.  Hvað þýðir það eiginlega? Þetta er ein af þessum goðsagnakenndu "týndu" plötum sem glataðist vegna þess að söngvari hljómsveitarinnar og lagasmiður, Lee Mavers, sem er mikill sérvitringur, fann allt plötunni til foráttu (eitthvað sem enginn annar heyrði) og guggnaði á því að gefa hana út.  Masterinn var á endanum eyðilagður en sem betur fer varðveittist upptaka af honum einhvers staðar uppi á háalofti.  Það er þessi upptaka sem við heyrum fyrst með þessari merku útgáfu (sem kom reyndar út fyrir nokkrum árum). Platan kom hins vegar út á sínum tíma í breyttri mynd (það er upptakan sem ég hef hlustað á í gegnum tíðina).  Þá hafði hljómsveitin sundrast og sameinast að nýju (að hluta) og með nýjum upptökustjóra tekið plötuna upp.  Hljómurinn er allt annar en á upprunalegu upptökunni, mun fínslípaðri og poppaðri.  Það fór á endanum því svo að hljómsveitin varð sammála um að vera mjög ósátt við útkomuna og hvatti aðdáendur til að kaupa hana ekki, eins fáránlega og það hljómar.  Að þeirra mati endurspeglaðist hinn sanni andi laganna ekki á plötunni. Samt er sú plata ekkert slor og er vafalaust ein eftirminnilegasta plata síns tíma. Stórkostleg plata, reyndar, en hefði hugsanlega getað orðið betri með hrárri og meira lifandi spilamennsku. Hún kom út ári eftir að Stone Roses gáfu út sína frægu  Hún inniheldur hið fræga There She Goes, sem margir þekkja eflaust best í talsvert útþynntri poppútgáfu.  Takið eftir því (ef þið smellið á tengilinn) hvað rödd Lee Mavers er flott - mátulega rám og hversdagsleg en full af ákefð.  Hér er annað frábært lag af plötunni, Timeless Melody, og minnir mann rækilega á the Stone Roses.  Platan þeirra kom hins vegar út ári eftir að Stone Roses höfðu slegið ræklega í gegn, þökk sé vandræðagangi bandsins í hljóðveri.  Platan var tilbúin mörgum árum fyrr og reyndar eru til fleiri en tvær útgáfur af henni (þessu var ég að komast að nú á dögunum).  Þeir hefðu getað verið stóri áhrifavaldurinn í Britpoppinu og hrundið af stað bylgjunni sem lá í loftinu (afturhvarf til sixties hljómsins).  Þeir misstu sem sagt af lestinni og koma fyrir vikið alltaf til með að vera sem "költ" band sem fáir þekkja, eins konar neðanmálsgrein í sögu breskrar tónlistarsögu.

Eftir að ég fór að hlusta á þessa gömlu uppáhaldsplötu aftur rifjaðist upp með mér að ég var aldrei  fyllilega sáttur við hana (þrátt fyrir að vera mjög hrifinn).  Það var alltaf eitthvað sem ekki virkaði alveg.  Það er fyrst núna eftir að ég hef hlustað á hina upptökuna til samanburðar, þessa sem næstum glataðist, að ég átta mig á því að stúdíóvinnan var sökudólgurinn.  Opinbera útgáfan af plötunni er full fáguð og hljómurinn of hreinn.  Það veldur því að lögin, sem enduróma samt sem áður í höfðinu, kalla ekki á endurtekna spilun.  Það er því gríðarlegur fengur að fá upprunalegu plötuna. Hún býr yfir eldri hljómi sem virkar meira ekta og spilamennsku sem er mun afslappaðri og meira lifandi.

Svo fór ég að lesa mig til og sá að gagnrýnendur eru einmitt á þessari skoðun og tala margir um að hinn sanni hljómur plötunnar hafi helst verið fangaður í lifandi flutningi, hvort sem það var í útvarpsupptökum eða á sviði.  Þá var auðvitað næsta skref að finna tónleikadisk með hljómsveitinni og útvarpsupptökur þeirra hjá BBC.  Svo fann ég líka útgáfu af plötunni á netinu sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til - svokallða "De Freitas Session" frá 1987! (platan var sem sagt nokkurn veginn tilbúin þremur áður en endanlega kom út).  Þá kemur á daginn að hljómsveitin hafi gegnum tíðina oft reynt og aldrei náð að klára upptökuferlið á plötunni. Hún er sem sagt til í mörgum brotakenndum útgáfum undir handleiðslu ýmissa upptökustjóra.  Síðan lagði hljómsveitin upp laupana, kannski fyrirsjáanlega, enda var hún, þegar á hólminn var komið, lömuð af fullkomnunaráráttu Lee Mavers.

föstudagur, júlí 13, 2012

Bækur: Bandaríkjastúdía

Ég hef verið að fræðast heilmikið um Bandaríkin að undanförnu.  Þetta er eitt að mínum áráttukenndu áhugamálum sem koma upp öðru hvoru.  Síðasta vetur var það stjörnuhiminninn (sjá Yfirlit yfir 2011), núna eru það Bandaríkin.  Þetta áhugamál hófst, eins og stjörnuhiminninn, með því að ég keypti bók í Bandaríkjunum síðasta sumar  (Fifty States: All You Need to Know) .  Hún fjallar skipulega um fylki Bandaríkjanna og ber þau markvisst saman í nokkuð ítarlegum texta sem er þó ekki yfirgripsmeiri en svo að maður les sig til um hvert fylki á svona kortéri.  Það er gott að grípa í þessa bók á milli verkefna.  Nýlega bætti ég öðrum sambærilegum bókum í safnið mitt.  Önnur þeirra er svona "coffe-table" bók, þ.e.a.s. stór og myndræn bók (The USA book) sem auðvelt er að detta inn í.  Hún er verulega safarík, með hnitmiðaðan en stuttan texta og leggur áherslu á grípandi ljósmyndir og eftirminnilega uppsetningu. Að lokum keypti ég mér eina um daginn sem fókuserar á nokkur vel valin svæði innan marka Norður-Ameríku og spannar því Kanada og Mexíkó líka (The Traveller´s Atlas: North America).  Í henni get ég lesið mig nánar til um ýmsa þjóðgarða og áhugaverða afkima (sem ekki koma fram í hinum bókunum).  Þetta er bókin sem ég keypti sérstaklega fyrir bústaðaferðina og þurfti að dúsa í bakpokanum mínum lengst af.  En hún rataði upp á borðið um síðir og reyndist afbragðslesning.

Það er stórhættulegt að byrja á svona nýju áhugasviði.  Núna langar mig að lesa mig sérstaklega um frumbyggja Ameríku, renna yfir sögu forsetanna, gleyma mér í ævintýralegum frásögnum af könnun nýja heimsins og sökkva mér ofan í einstök svæði, fjallgarða og stórfljót.  Grúsk er einhvers konar fíkn, en ólíkt efniskenndri fíkn þá hefur þetta þveröfug áhrif á heilann: Sá sem haldinn er fíkninni er líklegur til að mynda nýja tengingar í heilanum eftir því sem fíknin vex.

fimmtudagur, júlí 12, 2012

Bústaðardvöl: Að vera veikur í veðurblíðu

Það er gaman að vera til þessa dagana þegar veðrið leikur svona við mann.  Ég undrast enn á þessari veðurblíðu og hef gert siðan ég tjáði mig um það í byrjun sumars.  Síðan þá er liðinn einn og hálfur mánuður og vart dropi úr lofti allan tímann!  Hvað er eignlega að gerast?  Ísland er ábyggilega sólríkasta land Evrópu nú um mundir.  Að minnsta kosti heyrir maður bara rigningarsögur af ferðum Íslendinga erlendis þessa dagana.

Um síðustu helgi gerðum við vel við okkur og skelltum okkur í bústað.  Jón Már og fjölskylda höfðu reyndar frumkvæði að því og hvöttu okkur til að skella okkur í Melkorkuhús.  Það var kominn tími til enda nokkuð langt liðið síðan síðast (hátt í tvö ár). Við tökum örlætinu að sjálfsögðu fagnandi. Það er mikill munaður að geta skotist fyrirhafnarlítið út fyrir borgarmörkin og notið þess að vera út af fyrir sig. Hins vegar var ég ferlega óheppinn.  Einmitt þegar við ætluðum að njóta kyrrðarinnar í Þingvallasveit og nágrenni í friði og spekt varð ég hundslappur.  Fór sem hálfur maður yfir heiði og uppgötvaði hinum megin, þegar á áfangastað var komið, að ég var kominn með háan hita.  Það sem var enn kaldhæðnislegra var að Vigdís var fjarri góðu gamni í þetta skiptið - aldrei þessu vant (ég fór einn með Signýju og Hugrúnu) þannig að ég þurfti samt sem áður að standa mína plikt.  Með stöðugan haustverk og hita- og kuldagusur til skiptis reyndist fyrsta nóttin mjög óþægileg.  Maður strögglaði við að koma til móts við börnin en hélt sér þar fyrir utan bara til hlés, eftir því sem það var hægt.  Bækurnar sem ég ætlaði að njóta í rólegheitunum (og keypti sérstaklega í tilefni af dvölinni) sátu ósnertar í bakpokanum í heila tvo sólarhringa.  Það var ekki fyrr en þriðja daginn, sunnudaginn var, sem ég var farinn að vera nokkuð góður, þökk sé verkjatöflum og hitastillandi. Þá var stutt í brottför.  Sunnudagskvöldið var hins vegar ákaflega notalegt og dregnar voru upp eðalbækur að hætti Þorsteins :-)

Þrátt fyrir slappleika og hita var það vel þess virði að skella sér austur.  Við gerðum margt skemmtilegt. Við hittum mömmu, pabba, Beggu og börn, sem voru í árvissri óvissuferð í sveitinni og kíktum með þeim á Geysissvæðið.  Þau komu auðvitað færandi hendi, vitandi af ástandi mínu, með lyf og hlý föt og annað í þeim dúr.  Það var svo sannarlega lán að þau skyldu vera á ferðinni.  Svo var dvölin nýtt til að skoða næsta nágrenni.  Við höfðum til að mynda aldrei áður gefið okkur tíma til að skoða Kerið.  Hugrún kunni ágætlega við "eldfjallið" og settist strax á ákjósanlegan stað í lótusstellingu.  Signý hélt sig hins vegar fjarri barminum.  Ég þurfti að sannfæra hana um að þetta væri öruggur staður áður en húnn tyllti sér varfærnislega við hlið systur sinnar.  En svo áttum við annað "heimili að heiman", ef svo má segja.  Við vissum af Ásdísi og Togga í nágrenni við Laugarvatn, þar sem fjölskylda Togga á land og hefur ræktað skjólsælan reit. Jörðin er við Apavatn og þar er algjör hitapottur á sólríkum dögum.  Þar gátu stelpurnar unað sér í ærslafullum leik við Almar frænda á meðan ég lá á dýnu, orkulítill, og naut þess að vera utandyra við stofuhita.  Í venjulegu veðri hefði kannski slegið að manni við að vera svona mikið á ferðinni en eins og lofthitinn hefur verið að undanförnu þá var tiltölulega lítið mál að ferðast lasinn og hanga meira eða minna utandyra.  Bara notalegt.


fimmtudagur, júlí 05, 2012

Um gildi þess að geta skammað

Að endingu verð ég að setja eina færslu inn um Hugrúnu, svona til að gæta jafnræðis, en ég má líka til því hún tjáði sig svo skemmtileg um daginn.  Þá kom hún upp að mér heima og faðmaði fótinn mjög innilega og sagði: "Það er gott að eiga pabba!".  Mér fannst þetta auðvitað ósköp hlýlegt og sagði eitthvað fallegt til baka og faðmaði hana.  Þá spurði hún: "Er gaman að vera fullorðinn?".  Ég hugsaði mig um andartak og sagði svo diplómatískt: "Já, stundum".  Vissi eiginlega ekki hvernig ég átti að svara þessu.  Þá sagði hún til baka: "Já, maður getur skammað og svoleiðis!"


Þær eru mjög ólíkar systurnar að mörgu leyti.  Þarna kristallast einn munurinn: Hugrún vill verða stór sem fyrst en Signý saknar þess vera "lítil" (hún hefur stundum horft með söknuði á myndir af sjálfri sér eins árs og verður svolítið meyr).  Til dæmis hefur Hugrún oft óskað eftir því að fara í skólann til Signýjar og finnst leikskólaverkefnin nógu verðug en Signý saknar öryggisins sem hún upplifði í leikskóla. Líklega er það mjög eðlilegt að finnast grasið grænna hinum megin, sérstaklega þegar systir manns er þar.  En maður verður samt var við ríkari tilhneigingu hjá Hugrúnu til að sækjast eftir sjálfstæði.  Hún vill langoftast gera hlutina sjálf (ef hún er ekki þeim mun þreyttari).  Ef manni verður á að aðstoða hana á hún það til að pirrast, aflaga það sem maður gerði og byrja upp á nýtt.  Hún fer stundum út úr bílnum og inn aftur, bara af því maður lyfti henni í hugsunarleysi. Svo finnst henni greinilega tilhlökkunarefni að vera fullorðin, vera við stjórnvölinn og "geta skammað og svoleiðis" :-)

Orðapæling: Kirtill breytir um nafn

Signý virðist eitthvað vera að braggast þessa dagana.  Hún er stundum kvíðin við vissar aðstæður en er farin að borða betur.  Hún kvíðir auðvitað pínulítið fyrir aðgerðinni en þær mæðgur hafa spjallað svolítið um hana og hún vill vera viss um að við séum hjá henni allan tímann og bíðum eftir að hún vakni.

Núna í gær var hún hins vegar hin hressasta og var úti að leika sér með systur sinni.  Þá var hringt í mig og Signý fékk að spjalla um stund.  Þá heyrði ég hana segja þegar hún kynnti sig: "Nei, ég er ekki hoppandi og skoppandi Signý.  Ég er Signý Sól - með of stóran kyrkil".

Tvö orð krefjast útskýringar.  Annars vegarað Signý er farin að kalla sig Signý Sól. Það er hennar eigin sjálfsprottna nafngift sem hún hefur þróað með sér í vetur.  Okkur hinum finnst það passa ágætlega við hana.  Það hefur alltaf verið bjart yfir henni sem persónu.  Hún er að kynnast sjálfri sér sem meiri einstaklingi en áður eftir að hún byrjaði í Grandaskóla og þetta er eflaust hluti af sjálfstæðisyfirlýsingu hennar.  Okkur finnst hún vera að finna sig mjög skemmtileg sem "karakter" og var farin að vera öruggari með sig eftir því sem leið á veturinn (þar til í vor, eins og ég minntist á í síðustu færslu).

En svo er það hitt orðið sem varð kveikjan að því að ég setti inn þessa færslu: Kyrkill!. Það er mjög lógískt að hún skuli misskilja orðið með þessum hætti.  Hálskirtillinn er einmitt það sem hefur verið að valda henni andþrengslum að undanförnu. Hvað getur hann heitið annað en "kyrkill"?

Signý: Þrúgandi vanlíðan af völdum hálskirtla

Ég sé að fátt var um færslur í síðasta mánuði. Það má skýrast með ýmsu móti. Meðal annars var ég sjálfur svo upptekinn við að horfa á fótboltann að lítill frítimi gafst þar fyrir utan. Svo komu veikindi upp á heimilinu af ýmsu tagi, bæði hjá Vigdísi (án þess að ég fari út í það hér) og Signýju. Signýju fór að líða illa þegar leið á vorið. Hún gerðist kvíðin við vissar aðstæður og vildi alls ekki fara inni í skólabygginguna á allra heitustu og sólríkustu vordögunum. Henni fannst skólinn þrúgandi og upplifði mjög sterka köfnunartilfinningu. Í ljós kom að hún var með mjög bólgna hálskirtla sem stuðluðu mjög að þessari tilfinningu. Hún hefur verið matgrönn undanfarnar vikur og bæði viðkvæm og grátgjörn í leiðinni.

Við fórum til sérfræðings með hana í mánuðinum sem leið og lýstum bæði líkamlegri líðan hennar og þeirri þráhyggjukenndu flóttatilhneigingu sem við höfum orðið vör við.  Hegðunarmynstrið tengist sterklega "köfnun" því hún vill alltaf hafa opinn glugga alls staðar þar sem hún kom, á erfitt með að kyngja, vill ekki fara með höfuð í kaf í sundi, fríkar út ef hún er hulin teppi og vill alls ekki að aðrir en hún smeygi bol eða peysu yfir höfuðið á henni.  Hún á meira að segja erfitt með að vera ein inni í sínu eigin herbergi jafnvel þó hún viti af öðrum fjölskyldumeðlimum hinum megin við vegginn.  Þetta hefur truflað hana félagslega og valdið henni óþarfa kvíða að mörgu leyti.  Hún var til dæmis hrædd við að fara í strætó eftir að hafa orðið bílveik í rútuferð (á sólríkum degi) og óttaðist stöðugt að "kafna". Alls staðar þar sem hún kom í heimsókn byrjaði hún á að tryggja sér að hafa aðgang að opnum glugga. Hún á erfitt með að tyggja og vill stundum spýta matnum út úr sér. Um daginn var henni boðið í heimsókn til vinkonu sinnar en hringdi svo hálftíma síðar hágrátandi af því vinkona hennar skammaði hana fyrir að þurfa að þurfa að skyrpa matnum sem þær fengu. Þetta hefur þróast með tímanum upp í einhvers konar félagsfælni því hún óttast að mæta ekki skilningi á líðan sinni þar sem hún er sem gestur hverju sinni. Hún vildi til að mynda fara með mér heim úr afmæli hjá sameiginlegri vinkonu þeirra Hugrúnar af því "mamma hennar talar ekki íslensku". Það var nóg til að hún varð óörugg (Hugrún var hins vegar sátt allan tímann, lét þetta ekki trufla sig, og kláraði veisluna eins og vera ber.) Í frístundaheimilinu sem Signý sækir þessa dagana hefur oft borið á aðskilnaðarkvíða hjá henni og hún miklar fyrir sér verkefni dagsins (sundferð, húsdýragarðinn og annað í þeim dúr).

Lækirinn samþykkti út frá samtali við okkur Vigdísi, samfara hálsskoðun, að panta tíma fyrir hana í hálskirtlatöku seinni partinn í ágúst. Hann þurfti að hugsa sig um því þetta er aldrei gert að óþörfu. Til þess þarf að uppfylla tvö af þremur skilyrðum:

a) Kirtlarnir trufla næringarinntöku
b) Valda kæfisvefni
c) raska hegðun í daglegu lífi

Við getum hæglega skrifað undir a) og c) og stundum truflar hálsinn hana í svefni líka. Röskunin er orðin umtalsverð og krakkarnir eru jafnvel farnir að sniðganga hana í frístundaheimilinu þegar henni líður hvað verst (og tekur grátköst). Við óttumst að frekari þráhyggja og fælni kunni að myndast út frá þessari vanlíðan ef ekki verður gripi inn í fljótlega. Hún þarf að vera spræk og tilbúin í skólann næsta vetur.

miðvikudagur, júní 27, 2012

Leikrænir rokktónleikar

Það er skammt stórtónkeika á milli. Ég er nýbúinn að mæra Costello og verð að eyða nokkrum orðum í Ian Anderson og félaga í Jethro Tull. Þeir flutt hið kynngimagnaða meistaraverk "Thick as a Brick" í heild sinni rétt fyrir helgi og bættu svo um betur eftir hlé og flutt nýsamið framhaldsverk, sem fáir í salnum höfðu heyrt. Það reyndi á en var vel þess virði. Thick as a Brick er svokallað tónverkarokk, sem einkennist af löngum kaflaskiptum lagasmíðum sem margar hverjar jafnast á við sinfóníur að lengd. Við Villi fórum á tónleikana saman og vorum staddir ofarlega í Hörpunni og nutum ekki góðs af augnsambandi við flytjendur, en hljómburður var flottur samt sem áður. Söngvari sveitarinnar er orðinn nokkuð roskinn og raddlaus og það hefði verið beinlínis pínlegt að hlusta á hann kreista upp úr sér nótur í áttina að því sem hann söng á árum áður en sem betur fer notaðist hann við sérlegan aðstoðarmann úr leikarastéttinni, ungan Breta (um þrítugt) sem gerir út á það að leikflytja hin ýmsu rokktónverk (hefur til dæmis tekið þátt í uppfærslu Quadrophenia eftir the Who). Hann var mjög ljóðrænn og öruggur í flutningi og var ótrúlega flottur í hreyfingum, eins og nýstiginn upp úr Shakespeare leikriti, með svipmikla nærveru og náði að líkja eftir Anderson sjálfum bæði í sviðsframkomu og raddblæ. Saman voru þeir furðu góðir og í bland við alls kyns innskot í tónverkið, margmiðlunartækni og ýmsa uppsetta en skemmtilega lummulega brandara (eins og þegar "gemsinn" hans Ian Anderson hringdi þegar síst skyldi, rétt á undan einum helsta hápunkti verksins, og öll hljómsveitin þagnaði á meðan hann afsakaði sig gagnvart viðmælandanum) náði sveitin og hópurinn allur uppi á sviði að matreiða verkið eftirminnilega og koma á óvart með ýmsum hætti. Flottir tónleikar og gaman að fá í hendur framhaldsverkið með ítarlegri bók, sem við Villi keyptum að þeim loknum. Maður á eftir að grúska svolítið í því frameftir árinu, geri ég ráð fyrir.

mánudagur, júní 11, 2012

Tónleikar: Stórkostlegur Costello

Ég hef ekki skrifað mikið undanfarna daga en nú get ég ekki orða minna bundist. Ég var á svo mögunuðum tónleikum með Elvis Costello. Ég vissi að hann gæti verið magnaður einn síns liðs en þorði ekki vonast eftir svona ótrúlegri frammistöðu. Hann spilað svo sannarlega fyrir allan peninginn. Hann tók áhorfendur út í djúpu laugina og skautaði fram hjá þekktustu lögunum fimlega. Eftir eins og hálfs tíma spilamennsku var hann bara búinn að spila um tvö til þrjú þekkt lög og aðeins nokkur lög til viðbótar sem ég kannaðist við (og kann ég samt yfir tuttugu plötur utan að). En í uppklappi fór að bera meira á þekktari lögum. Hann var líklega klappaður upp fjórum sinnum og spilaði að minnsta kosti í tuttugu mínútur í hvert skipti. Þetta voru allt í allt tæplega þriggja tíma tónleikar - án hlés! Og kallinn að verða sextugur! Hann byrjaði að svitna strax í öðru lagi, í jakkafötum og með hatt, en sló ekki slöku við eitt andartak, endurvann gömul lög á mjög skapandi hátt, náði ótrúlega miklu út úr einum gítar og fór þess á milli út um víðan völl, skipti um ham aftur og aftur og blandaði saman stílum og stefnum. Stórkostlegur listamaður! Aðdáun mín á honum heldur bara áfram að vaxa. Ég er gáttaður.

mánudagur, maí 28, 2012

Daglegt líf: Blíðviðrið

Ótrúleg veðurblíðan sem hefur leikið okkur síðan fyrir sumardaginn fyrsta. Síðan þá hafa bara komið skýjaðir dagar í tvígang, tvo daga í röð í bæði skiptin. Og það er bara betra því smá rigning er nauðsynlegt mótvægi við sólina, svo maður þurfi ekki að standa í ströngu við að vökva garðinn. Úti er búið að vera nánast heiðskýrt upp á hvern einasta daga, vikum saman, en það tekur hins vegar loftið tíma að hitna. Það er enn pínu svalt úti - frískandi en fallegt. Geggjað gluggaveður og bara fínt peysuveður, prýðilegt til að hreyfa sig í og ganga á fjöll og þar fram eftir götunum. En þeir kvarta margir enn yfir veðrinu þrátt fyrir allt. Til dæmis um daginn þá fór ég í sund með pabba. Við flutum um Breiðholtslaugina eins og rekaviður og horfðum í baksundi upp á skýjatjásurnar sem teygðu sig inn á bláa himnabreiðuna. Ekkert ógnaði blíðviðrinu og hvergi gat ég hugsað mér betri stað en láta mig marra í hálfu kafi í sundlauginni og lesa út úr skýjunum. Svo röltum við í heita pottinn undir það síðasta og það fyrsta sem ég heyrði var að sjálfsögðu: "Það mætti nú vera hærri lofthitinn!"

fimmtudagur, maí 17, 2012

Upplifun: Að leyfa gestunum að ráða

Afmælið í gær var mjög skemmtilegt en það var ekki síður minnisstætt fyrir hvað ég þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum. Var reyndar búinn að hafa fyrir því að taka mjög rækilega til, baka fína súkkulaðiköku og undirbúa leiki. En það þurfti ekkert að hafa fyrir stelpunum. Þær vissu alveg hvað þær vildu gera og dunduðu sér með allt dótið þeirra Signýjar og Hugrúnar, á milli mála, þangað til öllum datt í hug að fara út að leika undir lokin. Svona skilst mér að þetta sé oft í stelpuafmælum á þessum aldri (ólíkt hasarnum í strákaafmælunum). Á einum tímapunkti datt mér í hug að grípa inn í og góma athygli þeirra með frábærri sögu sem ég átti, frægri erlendri barnabók sem ég treysti mér til að snara í tilefni af afmælinu (Caps for Sale). Ég var nýbúínn að prufukeyra hana með Signýju og Hugrúnu í vikunni og var viss um að hún myndi slá í gegn, sem hún eflaust hefði gert ef ég hefði fengið að lesa hana. Ég sá alveg fyrir mér að allar stelpurnar myndu sitja í andakt í mjúku rúmi Signýjar og Hugrúnar (sem lágu saman eins og tvíbreitt rúm) og þær voru um það bil að koma sér notalega fyrir þegar tvær þeirra sátu eftir á gólfinu. Þær voru eitthvað uppteknar við barbíhús og slóruðu við að koma sér fyrir. Ég hugsaði mig um og ákvað bara að gefa þeim svigrúm til að hlusta "af gólfinu". En þá gerðist svolítið sem mér fannst merkilegt; um leið og ég sleppti orðinu spruttu allar hinar stelpurnar, sem höfðu verið svo tillitssamar að koma sér fyrir, niður á gólf aftur og byrjuðu líka að dunda sér. Ég byrjaði samt að lesa, vongóður um að bókin næði athyglinni fljótt, en tók eftir því að engin þeirra leit svo mikið sem upp til að sjá þessar frábærlega skemmtilegu myndir sem ég hélt til sýnis. Þá áttaði ég mig allt í einu að þær höfðu aðrar væntingar en ég um hvað skemmtilegast væri að gera í afmælinu. Þegar ég lokaði bókinni ákvað ég að láta af stjórninni í smástund og leyfa þeim að halda "sitt afmæli" í friði.

miðvikudagur, maí 16, 2012

Vel heppnað barnaafmæli

Ég ákvað að halda upp á barnaafmæli Hugrúnar í gær. Þetta er "hitt" afmælið sem svo oft fylgir fjölskylduafmælinu (þar sem foreldrar okkar Vigdísar og systkini og aðrir aðstandendur fylla hólf og gólf í okkar knöppu en huggulegu húsakynnum). Til að gefa vinkonum Hugrúnar svigrúm til að leika sér varð að bjóða þeim sér. Það var í gær.

Hugrún fékk að bjóða sjö vinkonum sínum og fimm þeirra komust. Það var alveg nógu líflegt. Þetta eru afar ljúfar stelpur sem kunna að dunda sér svo það var mjög auðvelt að halda utan um afmælið. Vigdís var því miður upptekin annars staðar svo ég hóaði í Beggu systur sem kom ásamt Guðnýju frænku. Það er nauðsynlegt að hafa að minnsta kosti eina auka manneskju til að sinna tilfallandi hlutum, eins og að sækja pitsu og svoleiðis, og grípa inni í ef einhver meiðir sig eða vill fara út að leika.

Þær reyndust betri en engin og það vakti talsverða athygli meðal þeirra foreldra sem stöldruðu við hvað Guðný var dugleg að leika sér með börnunum. Hún breytti sér í tröllskessu eins og ekkert væri og hrelldi þær duglega í bakgarðinum og leyfði þeim að hlaupa um bæði hlæjandi og öskrandi af geðshræringu. Þetta var mjög skemmtilegt. Enda var það fyrsta sem ég heyrði í dag, þegar ég kom í leikskólann að sækja Hugrúnu, að það hefði verið "gaman í afmælinu í gær".

þriðjudagur, maí 08, 2012

Mikilvægi kossa á barnaheimilum

Stundum vill það gleymast hvað það er hollt fyrir börn að sjá foreldra sína kyssast og knúsast. Það virkar eins og næring fyrir þau og vellíðanin sprettur fram í andlitunum. Þegar verr stendur á, og foreldrarnir hafa áhyggjur af einhverjum aðsteðjandi vanda, er þetta eins og mótefni fyrir börnin, svo að þau taki ekki inn á sig áhyggjur foreldranna. Ekkert skiptir þau meira máli en hlýja á heimilinu, bæði gagnvart þeim og ekki síður á milli foreldranna.

Undanfarið höfum við Vigdís verið óvenju meðvituð um þennan "sýnileika" og þegar við kyssumst er eins og hríslist ánægjan í Signýju og Hugrúnu. "Þetta er annað skiptið í dag!" hrópaði Hugrún einu sinni af einskærri ánægju. Þær taka vel eftir. Núna síðast skríkti í henni þegar við Vigdís kysstumst við matarborðið (enda var frábær matur á boðstólum og sannkölluð veitingahúsastemning í stofunni, með framandi tónum í bakgrunni). Þegar Hugrún var búin að láta út úr sér ánægjutóna sagði Signý: "Það má aldrei segja "oj" þegar einhver er að kyssast". Hún var dreymin á svipinn og bætti við: "Kossar eru fallegir".

Afmæli Hugrúnar

Hugrún varð fimm ára um daginn. Við héldum upp á það með hefðbundnum hætti: Við Vigdís útbjuggum einhverjar lágmarks veitingar á meðan annar hver gestur kippti með sér einhverju aukreitis. Reyndar lögðu allir metnað í sinn hlut og komu með alls kyns kræsingar. Í fyrsta skipti tókst mér að búa til verulega góða súkkulaðiköku (Djöflatertu upp úr Hagkaupskökubókinni). Ég gat borðað hana af bestu lyst í marga daga á eftir.

Við vorum mjög ánægð með hvað margir sáu sér fært að mæta, ýmsir sem ekki höfðu mætt áður og smellpössuðu inn i teitið :-) Svo þegar inni var orðið full mannmargt í okkar litlu íbúð ákváðu börnin og nokkrir fullorðnir að fara út í garð að leika í sólinni. Frábær fjölskylduskemmtun, að vanda.

sunnudagur, apríl 29, 2012

Eftirminnileg skírn

Á sumardaginn fyrsta vöknuðum við hress og kát. Veðrið var frábært (eins og ég kom inn á í síðustu færslu) og stelpurnar iðuðu í skinninu eftir að fá að prófa nýja leikfangið (sem ég skrifaði líka um í síðustu færslu). En ekki var minni spennan eftir skírninni sem við vorum að fara í. Jón Már og Margrét eignuðust dóttur á dögunum og við gerðum okkur leik úr því í morgunsárið að geta okkur til um nafnið. Þetta er orðið að hefð hjá okkur og furðu oft höfum við ratað á rétt nafn (sjá hér). Leikurinn í ár var með einfaldasta móti; ég spurði alla heima um nafn og skráði hjá mér það fyrsta sem þeim datt í hug. Signý sagði "Emilía" og Hugrún var henni sammála. Vigdísi datt í hug nafnið Íris Ósk. Mér datt hins vegar í hug "Sigurlaug Bára". Svolítið skemmtilegt hvað þetta voru ólíkar tillögur. Svo skellti þessu öllu saman í eftirfarandi kveðju í skírnarkortinu (ég held ég muni þetta nokkurn veginn orðrétt): Til hamingju með daginn! Við vonum að hún Emilía litla beri nafn með rentu, hvort sem hún heitir Sigurlaug Bára eða Íris Ósk... Kortinu var auðvitað laumað utan á pakkan og hann skilinn eftir á vísum stað þegar við komum inn. Skírt var í heimahúsi, enda gott að athafna sig heima hjá þeim Jóni og Margréti. Allt gekk sinn vanagang, falleg skírn og virðulegir gestir en ég verð að viðurkenna að ég man varla eftir neinum smáatriðum athafnarinnar því um mig fór undarlegur fiðringur við að heyra skírnarnafnið þegar að því kom: Sigurlaug Elfa! Hvaðan kom þetta eiginlega og hvernig gat ég verið svo nærri með ágiskunina? Er þetta hugsanaflutningur eða er undirmeðvitundin bara svona mögnuð? Þegar rætt var um nafngiftina yfir borðhaldinu (rjúkandi karrílöguð fiskisúpa) bar á góma að sú litla hefði verið skírð í höfuðið á móðurömmu sinni. Eflaust hafði ég heyrt hennar getið en var ekki meðvitaðri um það en svo að ef ég hefði verið inntur eftir því hvað hún héti þá myndi ég hafa staðið á gati. En undirmevitundin er lævís og dúkkar upp með vitneskju öðru hvoru þegar minnst varir :-) Svo er það tengingin við vatn þarna strax á eftir. Tilviljun? Kannski svipaður smekkur okkar Jóns og Margrétar? Eða kannski þekkti ég þau nógu vel til að giska á náttúrunafn því þau eru miklir unnendur útivistar. Bára er kannski ekki alveg það sama og Elfur (fljót) og eftir á að hyggja hefði ég getað gert betur því stórfljótin liðast fram hjá Klaustri þar sem Margrét er uppalin. Það er auðvelt að vera vitur eftir á ;-)

Daglegt líf: Nýtt leikfang

Sumarið fer aldeilis vel af stað. Dagarnir kringum sumardaginn fyrsta voru bjartir og fagrir (en svolítið svalir). Svo kom smá dumbungur og rigingin en það hefur nú vikið fyrir blíðviðri. Signý og Hugrún nutu þess í dag að fara í bíltúr upp í bústað til Ásdísar og Togga og þar spókuðu þær sig í rjómablíðu. Þangað fóru þær með afa sínum, Einari, og Kristínu ömmu ásamt Kristni. Við Vigdís vorum hins vegar heima að taka til og undirbúa einhvers konar veislu eða heimboð sem haldið verður í tilefni af fimm ára afmæli Hugrúnar. Hún nær þeim merka áfanga á morgun en boðið verður heim daginn eftir, fyrsta maí. Stelpurnar hafa verið duglegar að leika sér úti það sem af er vori (eða á maður kalla þetta "sumar" það sem af er?). Þær fengu skemmtilegt leikfang í sumargjöf, bíl sem kallast didicar eða "swing car" eins og hann er líka kallaður. Þetta er eins konar bíl sem knúinn er áfram af snúningsafli (ég hef ekki annað orð yfir kraftinn sem knýr hann áfram). Þær þurfa bara að snúa stýrinu ótt og títt til hliðanna og við það mjakast bíllinn áfram. Hér má sjá myndband af því hvernig hann virkar. Stórsniðugt fyrirbæri. Slagorð fyribærisins er líka skemmtilegt, en það hljómar svona: No motor, no batteries! Just add childen! :-)

laugardagur, apríl 21, 2012

Málshættirnir

Nú eru páskarnir löngu að baki. Eftir sitja málshættirnir. Tveir þeirra eru mér minnisstæðir. Annar þeirra hljómaði einhvern veginn svona: "Fiskur gleypir beitu en öngull grípur fisk". Þetta er einn af þessum óræðu málsháttum sem vísa á það hvernig tveir aðilar hafa innbyrðis áhrif, eins og "sjaldan veldur einn þá tveir deila". Í samskiptum para eða hjóna eru þessi áhrif mjög nærtæk. Semsagt: Jón rífst við Gunnu af því Gunna rífst við Jón á sama hátt og Jón laðast að Gunnu af því Gunna laðast að Jóni. Hins vegar er annar málsháttur sem gægðist úr eggi búinn að vera í huga mér reglulega undanfarna viku: "Maður ætlar engum öðrum það sem maður hefur ekki sjálfur". Hvað merkir þetta? Við ræddum málsháttinn nokkuð ítarlega í páskaboði og var fyrst starsýnt á eigingjarna merkingu málsháttarins. Við sáum í fljótu bragði hvernig gefið var í skyn að maður "gefi" helst ekki öðrum það sem maður hafi ekki sjáflur fyrir. Til dæmis er óhamingjusamur einstaklingur mjög bitur út í alla glaðværð annarra. Það má líka sjá fyrir sér einfalda gjöf og sá eigingjarni gefur bara það sem hann hefur ekki not fyrir sjálfur. En svo stendur einhverstaðar annars staðar að "sönn gjöf krefjist fórna". Sá sem er sannarlega örlátur er til í að færa öðrum það sem hann sjálfur hefur not fyrir - gefa þeim heittelskaða síðasta "Rolo molann", eins og auglýsingin sagði um árið. Sú hugsun er algjör andstæða þess sem við lásum úr úr málshættinum. Smám saman fór hins vegar önnur merking að gera sig gildandi: "Það sem maður getur ekki sjálfur (eða ræður ekki við sjálfur) ætlast maður ekki til af öðrum". Hér er um "kröfur" til annarra að ræða. Þessum málshætti er nefnilega hægt að snúa á hvolf og segja: "Það sem maður ræður við sjálfur er sjálfsagt að gera kröfur til hjá öðrum". Hver kannast ekki við að hrista hausinn yfir því þegar spurningalið í "Gettu betur" kunna ekki eitthvað sem maður sjálfur kann. Hvað hroki er það? Sá sem kann að gera við bíl finnst allir aular sem ekki kunna almennilega til verka á því sviði. Eins hneykslast íslenskufræðingur á stafsetningarvillum annarra. Er þetta ekki alltaf svona?

föstudagur, apríl 13, 2012

Þroskaferli: Skilaboð Signýjar

Signý er á fullu að æfa sig í lestri þessa dagana og Hugrún fylgist náið með. Núna er Signý farin að færa sig upp á skaftið. Hún er farin að skrifa alls kyns skemmtilegar smásögur sem hún myndskreytir eftir kúnstarinnar reglum. Stundum er vandasamt að lesa út úr þessum sögum því hún er ekki farin að setja bil á milli orða enn þá. En skemmtilegastar eru orðsendingarnar og skilaboðin sem hún skilur stundum eftir hér og þar. Um daginn fékk hún vinkonu sína í heimsókn . Hún var nýbúin að taka mjög vandlega til í herberginu og hafði áhyggjur af því að allt færi á hvolf í ný. En þá skrifaði hún bara á miða (og límdi á hurðina) "Það er verið að mála herbergið". Svo keyptum við pitsur um daginn vegna þess að við fengum óvæntan gest og höfðum ekki tíma til að sinna matseld. Þá var mín kampakát og skellti miða á útidyrahurðina: "Pitsuveisa" (með broskalli og blöðrum, auðvitað).

þriðjudagur, mars 27, 2012

Daglegt líf: Tvær kvöldstundir í boði Beggu

Við Vigdis erum svo heppin að eiga góða að og hún Begga systir hefur reynst okkur séstaklega vel þegar við þurfum að bregða okkur úr húsi saman. Fyrir rúmri viku síðan passaði hún fyrir okkur þegar haldinn var merkilegur fyrirlestur í Grandaskóla um uppeldi. Hugo sálfræðingur var með sérlega lifandi og skemmtilega umfjöllun um hvernig best sé að nálgast börnin á jákvæðan hátt og nota til þess heppilegt orðalag. Meira um það síðar. Núna um páskana hljóp Begga aftur í skarðið til að við Vigdís kæmumst austur fyrir fjall að borða á Rauða húsinu (eins og lengi hefur staðið til að gera). Þoka lá yfir heiðinni en það kom ekki að sök, maturinn var frábær og andrúmsloftið afslappað og notalegt. Við tókum eftir ýmsum antíkmunum hér og þar í salnum, sem vörpuðu skemmtilegum blæ á umhverfið, og vorum sammála um að svona væri betra að geyma gamla muni heldur en á minjasöfnum í kraðaki annarra muna. Þetta er lifandi nærumhverfi og því má segja að munirnir hafi gengið í endurnýjun lífdaga. Eins og gamli karlinn, "fertugi", sem þarna leysti út afmælisgjöf í boði konunnar :-) Kvöldin verða ekki huggulegri.

p.s. Þessi færsla var skrifuð viku seinna en hún var skráð. Fyrir því liggja tæknileg mistök sem of flókið er að fara nákvæmlega út í hér.

Upplifun: Vorkoma að innan

Um síðustu helgi ætluðum við Vigdís að skella okkur austur fyrir fjall að borða. Við áttum enn inni máltíð á Rauða húsinu í tilefni af afmæli mínu. Það fór hins vegar á annan veg en við ætluðum. Það var ekkert spennandi veður - rok og skýjað. Svo var ég eiginlega of slappur og áhugalítill einhvern veginn. Ég skildi eiginlega ekki hvernig á því stóð - ég fann bara enga "löngun". Við vorum búin að redda pössun og allt! Ég fann að ég var ekki að verða veikur en var samt svo orkulaus. Ég nennti ekki einu sinni að lesa bók um kvöldið eða horfa á sjónvarpið. Fór feginn að sofa um kvöldið.

Það hvarfla að manni alls konar hugsanir þegar heilsunni hrakar á dularfullan hátt og maður verður "slappur" en ég ákvað að velta mér ekkert upp úr því. Daginn eftir vaknaði ég hins vegar nokkuð sprækur eins og ekkert hefði í skorist - langt frá því að vera lasinn. Þá fattaði ég hvað hafði amað að mér því þessari sveiflur voru eitthvað kunnuglegar: Þetta var líklega fyrstu ofnæmisviðbrögð vorsins. Það gerist einmitt þegar náttúran sprettur fram með fyrstu hlýju dögunum og áhrifin magnast upp í roki. Þegar ég bar slappleikann undir aðra sem eiga við frjókornaofnæmi að stríða bar sögum okkar saman. Það voru fleiri slappir en ég. Vorið er sem sagt komið!

Tónlist: Nýjustu Bowie plöturnar

Ég er búinn að hlusta talsvert á Bowie síðustu daga. Þetta kemur í tímabilum. Hann hefur alltaf verið í uppáhaldi síðan .... (hugs, hugs, hugs) 1986 en ég hlusta mjög misjafnlega mikið á hann, enda bæði mikið að gera og margt annað áhugavert að hlusta á. En þegar ég dreg fram góða Bowie plötu þá líður mér eins og ég hafi boðið góðum vini í heimsókn, einhverjum sem ég þekki mjög vel, sem ég hef ferðast með gegnum tíðina, tenging við bæði sjálfan mig og fortíðina.

Rétt áður en afmælisgestirnir komu í heimsókn um daginn skellti ég Bowie á fóninn. Ég vildi gíra mig aðeins upp og stóð frammi fyrir smá uppvaski. Þá mundi ég eftir nýjustu tveim plötunum hans sem hann gaf út rétt eftir aldamótin, Heathen og Reality. Þær hafa vaxið talsvert í áliti eftir því sem frá líður. Þær eru persónulegri en allt sem hann hefur gefið út á ferlinum ef undan er skilið það sem hann samdi áður en hann sló í gegn sem Ziggy Stardust (við erum að tala um tónlist frá því fyrir 1972 - sem reyndar er fæðingarár mitt). Eftir að Bowie spratt fram í gervi Ziggys hefur hann verið stöðugt að endurmeta ímynd sína og verið gríðarlega skapandi og hrist fram úr erminni nýjar tónlistarstefnur með nokkurra ára millibili (þetta eru engar ýkjur - enda hefur hann oft verið efstur á blaði þegar teknir eru saman listar yfir áhrifamestu tónlistarmenn rokksins - ofar bæði Bítlunum og Miles Davis, og þá er mikið sagt). Síðan fór hann í gegnum öldudal á níunda áratugnum (hann gerðist vinsæll poppari með Let´s Dance og missti flugið og sjálfstraustið í leiðinni). En hann var á þeim tímapunkti fastur í þeirri áráttu að "endurskapa sig" og reyndi stöðugt að koma fram með nýja ímynd en tókst það mjög illa fram til 1995. Þá náði hann umtalsverðum listrænum hæðum á ný. Það má hins vegar telja hans akkilesarhæl að í tónlistarsköpun sinni - þrátt fyrir frumleika og djörfung - sé hann sem persóna yfirleitt frekar fjarlægur, eins og tónlist hans og framkoma sé bara eitt stórt leikrit. Hann getur virkað kaldur og jafnvel vélrænn á köflum, einkum í seinni tíð. En þegar nær dró aldamótum fór hann einhverra hluta vegna að hugsa öðruvísi og ákvað að koma bara fram eins og hann var klæddur sem "the bloke next door" (eins og mig minnir að hann hafi orðað það) og fór að semja persónulega tónlist um sjálfan sig og tilveruna eins og hún blasti við honum. Platan sem kom úr árið 1999 var reyndar ekkert sérstök (hún hét "...hours") og hún leið fyrir misheppnaða hljóðvinnslu og einhverja tilgerð (eins og hann væri ekki alveg nógu öruggur í eigin skinni enn þá). Það eiginlega fór honum ekkert sérstaklega vel að birtast á svona látlausan hátt. En svo gerðust undrin. Á næstu plötu (Heathen, 2002) fékk hann til liðs við sig útsetjara sem hafði unnið með honum á áttunda áratugnum (Tony Visconti) og það skipti sköpum. Maður gerir sér best grein fyrir því í dag hvað hann á mikið í gömlu plötunum hans Bowie því þessi blanda snarvirkaði. En það sem gerði plötuna alveg einstaka er hvað Bowie kafaði djúpt í þetta skiptið í eigin persónu, tilvistarkreppu og velti vöngum í leiðinni um heimspekilegar hugmyndir sem sækja á okkur eftir því sem við eldumst. Platan er ekki gallalaus en hún er í stórum dráttum alger gersemi. Hljómurinn er skuggalegur og dramatískur á köflum með hæfilegum léttleika á milli (og þá er Bowie að leika sér með tónlistina á mjög afslappaðan hátt án þess að reyna að landa nýrri stefnu eða breyta tónlistarsögunni). Árið eftir fylgdu þeir félagar plötunni eftir með Reality, sem var ekki eins djúp en var í staðinn heilsteyptari og öruggari. Bowie var sannarlega kominn á flug aftur og virtist hafa lítið fyrir þessu. Hann var að greinilega að ná áttum á ný og finna sig í tónlistinni á öðrum forsendum en áður. En þá gerðist hið óumflýjanlega: Hann missti heilsuna. Á tónleikum hneig hann niður og var í lífshættu um tíma vegna heilablóðfalls, minnir mig. Eftir það hefur ekkert heyrst í honum. Hann hefur ekki komið fram opinberlega síðan 2006, hvorki í viðtölum né öðrum vettvangi. Hann hefur ekki gefið frá sér eitt einasta lag. Ekkert er af honum að frétta. Þegar sögusagnir um hrakandi heilsu hans ná flugi á umræðuvefum tengdum honum og menn velta fyrir sér hvort hann eigi nokkuð afturkvæmt hefur hann ekki nýtt tækifærið til að kveða þær sögusagnir í kútinn. Enginn orðsending hefur borist frá honum. Maður ályktar ósjálfrátt að hann hafi í það minnsta skaddast eitthvað varanlega og hafi ekki getu eða sjálfstraust til að koma fram. Þeir bjartsýnustu leyfa sér hins vegar að vonast til að hann hafi bara ákveðið að setjast í helgan stein og njóta góðs af eigin ríkidæmi í faðmi fjölskyldunnar.

Ég velti þessu öllu fyrir mér eftir að ég tók Bowie plöturnar tvær fram. Þær voru nógu persónulegar og margslungnar til að standa sem afbragðs minnisvarði en í leiðinni ótrúlega viðeigandi sem lokakafli á ferli sem hófst með mjög persónulegum plötum (sem fáir þekkja). Maður setti þetta að sjálfsögðu í samhengi við eigin tímamót í leiðinni og hugsaði um það hvernig við erum öll á óumflýjanlegu ferðalagi í sömu átt, hægt og bítandi, jafnvel þeir sem skipta ört um ham og endurnýja sig í sífellu.

föstudagur, mars 23, 2012

Pæling: Afmælisupplifun

Nú eru liðnir nokkrir dagar frá því ég átti afmæli. Ég var með opið hús og hafði þetta eins einfalt og hugsast gat; bauð upp á kaffi og pönnukökur fyrir þá sem melduðu sig í heimsókn og leyfði gestum að bæta við veitingum. Mamma kom með kökur og ástarpunga. Sirry (tengdó) mætti með brauðmeti með afbragðs fyllingu (sem ég hef nú þegar skrifað vandlega hjá mér svo ég geti endurtekið leikinn sjálfur). Gjafirnar hittu allar í mark, bæði föt og afþreying. Ég eignaðist meira að segja ísvél sem á eftir að koma að góðum notum. Ég ætla mér að bjóða upp á ísveislur á næstunni.

Dagurinn endaði á því að ég kíkti í tölvupóstinn og þar var vart þverfótað fyrir Facebook tilkynningum. Ég kíki almennt aldrei á Facebook nema einhver beini sjónum mínum að því sérstaklega, eins og núna. Mér fannst það bara gaman að ljúka deginum á þessum nótum og renna gegnum kveðjur. Takk fyrir það. Ég svaraði því reyndar þar og útskýrði að þessi aldur hefði ekki stigið mér til höfuðs á neinn óþægilegan hátt. Ég var nefnilega svo útsjónarsamur að lafa frameftir kvöldið fyrir afmælið við lestur góðrar bókar og upplifði mjög áþreifanlega að nákvæmlega ekkert "gerðist" á miðnætti. Það er þægilegri upplifun en að vakna að morgni og finnast maður allt í einu vera orðinn hundgamall. Ég aftengdi "sjokkið".

laugardagur, mars 17, 2012

Pæling: Ferðalag um tuttugustu öldina

Saga tuttugustu aldarinnar hefur verið mér hugleikin að undanförnu. Það byrjaði í skólanum þar sem ég kenni. Fyrir þá sem ekki átta sig á kennsluumhverfinu þá sinni ég sérkennslu og er með fáa nemendur í stofunni í einu (kannski 2-4) og er yfirleitt að vinna með ýmiss konar grunnfærni, eins og að lesa eða reikna. Oft koma til mín nemendur sem hvorki kunna á klukku né átta sig á umhverfi sínu, muninum á vinstir og hægri eða sögulegu samhengi. Margir nemenda minna eru haldnir mikilli skólafælni eða svo miklum athyglisbresti að hefðbundin námsgögn duga skammt. Það er mjög brýnt við þessar aðstæður að hafa námsþætti mjög áþreifanlega; eitthvað sem hægt er að föndra með eða fikta í. Einnig hef ég lagt áherslu á að kennsluefnið sé sýnilegt öllum stundum sem eðlilegur hluti af umhverfi nemandans í stofunni, eins og plaköt og annað í þeim dúr. Oft útbý ég kennslugögn sérsniðin að þörfum þessara nemenda og hef til að mynda sett líkan af sólkerfinu upp á vegg. Það sem ég hef verið með hugann við að undanförnu er tímaás sem rennur saman við dyrakarm sem er áberandi í stofunni. Þar hef ég markað ártöl frá 1900 og upp úr. Við hlið dyrakarmsins má svo finna spjöld sem staðsett eru á réttum stað samkvæmt framvindu sögunnar. Á þessum spjöldum eru stutt lýsing á sögulegum atburði ásamt ártali. Þetta sjá nemendur og geta leikið sér með ef þau verða leið á námsbókunum. Ég er reyndar enn í öða önn að útbúa þetta og velja sögulega atburði á vegginn en ég sé fyrir mér að nemendur geti fengið spjöldin í hendur (þau eru bara fest með kennartyggjói) með það fyrir augum að raða atburðunum aftur rétt upp. Þetta er bæði æfing í að staðsetja háar tölur á lóðréttri talnalínu en verður á sama tíma tækifæri fyrir nemendur til að fræðast um einhvert tiltekið ártal eða atburð. Þeir nemendur sem er fróðleiksfúsir og spjallasamir eru mjög líklegir til að komast á flug í kjölfarið í tengslum við það sem er þeim helst hugleikið.

En hvað um það, ég hef verið að vinna í þessu og pæla í því hvaða atburðir standa upp úr tuttugustu öldinni. Auðvitað hef ég nýtt mér vinnu annarra hvað þetta varðar (eins og þessa síðu hér sem ég prentaði út og krotaði í) en þegar upp er staðið kem ég alltaf til með að þurfa að vega og meta hvað varðar mína nemendur og hvað ekki. Heimsviðburðir eins og kreppan 1929, heimsstyrjöldin 1914-1918 og seinna stríðið 1939-1945 komu strax upp í hugann ásamt tunglgöngunni 1969 og falli Berlínarmúrsins 1989. Hins vegar þurfti ég að glöggva mig á ýmsu öðru og komst með þessari markvissu vinnu að því að ég áttaði mig ekki nógu vel á mörgum meginatburðum aldarinnar. Þá fékk ég óvænt í hendur merkilega bók sem ber nafnið Century. Ég fékk hana að láni, sem betur fer, því sú bók er gríðarlega þykk og vegleg. Ég prísa mig beinlínis sælan að hafa getað skilað henni aftur en á meðan ég lumaði á henni (í um það bil tvær vikur) skoðaði ég hana mjög vandlega. Þetta er áhrifamikil og oft á tíðum sjokkerandi ljósmyndabók sem fer með mann í nærgöngult ferðalag um öldina sem leið. Á meðan ég fletti í gegn áttaði ég mig enn betur á því hvað ég þekkti ógnarsögu aldarinnar illa. Það kveikti í mér löngun til að fara í saumana á nokkrum af helstu þráðunum: blóðuga byltingarsögu rómönsku Ameríku, viðbjóðslegar einræðisstjórnir í Afríku og furðulega stjórnarhætti í bæði Kína og Sovétríkjunum sálugu. Og hvernig var þetta með Biafra, Kambódíu, Londonderry og deiluna milli Pakistan og Indlands sem kostaði tugi þúsunda lífið eða innrás Sovétmann í Afganistan? Hryðjuverk urðu mjög áberandi á öldinni upp úr stofnun Ísraelsríkis og breiddist út víða. Þetta þarf ég allt að skoða betur sem og forsendur Bandaríkjamanna til að stunda óhæfuverkin í Víetnam. En þetta var ekki bara eymd og hörmungar. Á öldinni sem leið hlutu mannréttindi allra loks viðurkenningu og þjóður bundust ýmsum varnarbandalögum sem virkuðu hamlandi á allan stríðsrekstur. Á jákvæðu nótunum var líka hægt að fylgja eftir örri tækniþróun á þessu tímaskeiði í sögu mannsins. Hvenær kom gramófónninn fyrst fram, fyrsta myndavélin fyrir almenning eða hljómyndin? Það er stórmerkilegt að athuga áhrif ljósritunarvélarinnar á skrifstofustörf út um allan heim, breytingu á samskiptum manna með síbreytilegri samskiptatækni og framfarir í læknavísindum. Í sama dúr má skoða "alvarlegri" tækniframfarir (sem hafa bein áhrif á valdastöðu þjóða) eins og fyrsta gervihnöttinn, fyrsta geimskotið eða fyrstu þyrluna svo að ekki sé minnst á þróun kjarnorkusprengjunnar. Allt þetta gerist í einhvers konar jafnvægi þannig að eitt leiðir undursamlega af öðru hversu kaótísk sem söguleg framvindan kann að virðast. Í flestum tilvikum er það nú þannig að einn atburður gæti ekki hafa gerst á öðrum tíma en raun bar vitni. Það er einmitt það sem menn eiga við með sögulegu samhengi hlutanna.

Fyrir þá sem hafa gaman af að grúska vil ég benda á frábæra afþreyingarsíðu sem er skrifuð af þekkingu og innsæi. Hún heitir listverse og þematískt flokkað safn af top 10 listum yfir alla hugsanlega hluti, með ítarlegri umfjöllun um hvern efnisþátt. Sagnfræðikaflinn býður meðal annars upp á þessa frábæru samantekt: 10 Worst Moments in Human History. Lesefnið er ekki fyrir viðkæma. Það segir sig líklega sjálft.

föstudagur, mars 16, 2012

Daglegtlíf: Borðað á Einari

Nú styttist í stórafmæli hjá mér. Ég skríð inn fyrir mörk fimmtugsaldursins næsta sunnudag, eins fáránlega og það hljómar. Það verður hins vegar ekkert sérstaklega haldið upp á það. Ég verð líklega bara heima og býð upp á kaffi og með´ðí ef einhver vill kíkja en ekkert stórvægilegt. Við Vigdís erum reyndar búin að halda upp á áfangann saman. Hún keypti handa okkur gjafabréf á Rauða húsið á Eyrarbakka sem við hugðumst nota um síðustu helgi. Það var búið að redda pössun og við í startholunum þegar veðrið fór snarversnandi. Það var tvísýnt um lokun yfir heiði þannig að við drógum fram plan B. Við nýttum okkur tilboð á vegum World for 2 á Einar Ben. Þar gátum við borðað þrírétta máltíð á hálfvirði, sem reyndist vera Seljurótarsúpa, lax og dökk súkkulaðikaka í eftirrétt, ásamt kaffi. Þetta var frábær máltíð, akkúrat passleg. En smjörið sem borið var fram með brauðinu stal senunni: ristað smjör! Hafiði heyrt annað eins? Með ákveðinni vandmeðfarinni aðferð er smjörið ristað léttilega og það dregur fram ótrúlega skemmtilegan keim. Þetta var álegg út af fyrir sig. Svo var staðurinn sjálfur alveg einstakur. Þetta var mín allra fyrsta heimsókn á Einar Ben og ég kem klárlega aftur. Öll aðstaða var til fyrirmyndar, andrúmsloftið tímalaust og þjónustan afslöppuð og róleg. Það er einmitt það sem við Vigdís viljum þessa dagana.

laugardagur, mars 03, 2012

Upplifun: Jarðarför

Við fórum í jarðarför í vikunni. Eiginmaður móðursystur minnar, Jón Sigurðsson, lést nýverið af slysförum. Sú saga er raunar mjög átakanleg og ekki ástæða til að fara út í það hér. Hins vegar var furðumikill friður og jafnvægi í sjálfri jarðarförinni, þrátt fyrir að sorgin væri mikil. Jón var ákaflega afslappaður maður og þægilegur í umgengni. Ég hitti hann eiginlega eingöngu í jólaboðum og öðrum veislum - kannski tvisvar eða þrisvar á ári - en passaði alltaf sérstaklega upp á að tala við hann í hvert skipti því hann gaf frá sér svo góða og jákvæða orku. Hann hafði frá mörgu að segja enda hafði hann ásamt Ínu (móðursystur minni) ferðast vítt og breitt um heiminn. En fyrst og fremst var bara notalegt að eiga samskipti við hann. Hann var svo afslappaður í eigin skinni, ef svo má segja, að maður varð alltaf pollrólegur nálægt honum. Það þurfti aldei að kreista fram umræðuefni eða setja sig í stellingar. Þannig var hans líka minnst í minningarræðunni í kirkjunni, sem séra Sigurður Jónsson las af einstakri stimamýkt. Það var með sérstakri ánægju sem ég hlustaði á Sigurð því ég þekkti hann vel frá þeim tíma þegar ég bjó á Hellu. Þá var hann prestur að Odda á Rangárvöllum. Ég þekkti hann býsna vel því ég kenndi börnunum hans. Svo þekkjast auðvitað allir í litlu bæjarfélagi, beint eða óbeint. Svo þekkti ég kórinn líka. Þegar ég heyrði einstaklega vandaðan flutninginn fannst mér ég beinlínis eiga heima í tónlistinni og fór að kanna hvaða gæðakór þetta væri: Jú, kirkjukór Áskirkju, hvað annað! Ég hef einmitt haft þann kór sérstaklega í huga að undanförnu þegar ég hef leitt hugann að þeim möguleika að fara að syngja aftur. Sá kór er með þeim betri á höfuðborgarsvæðinu, án vafa, og ég þekki nokkra þar innanborðs. Það var því margt sem stuðlaði að notalegri stund á meðan maður hugsaði til þess hvað Jón var einstakur í sinni röð. Það var líka gott og gefandi að hitta ættingjana eftir á þrátt fyrir erfiða daga.

mánudagur, febrúar 27, 2012

Uppákoma: Búningadrama

Annars byrjaði vetrarfríið eiginlega á miðvikudaginn, á öskudag. Þá fóru Signý og Hugrún að sjálfsögðu prúðbúnar og uppklæddar í skólann. Það var hins vegar ekki vandræðalaust. Signý ætlaði sér að vera draugur. Við fundum lak - ljósbleikt (henni líkaði það sérlega vel). Við dunduðum okkur við það kvöldið fyrir að klippa göt á réttum stöðum og sauma saman annars staðar. Morguninn átti bara eftir að gera hana náföla í framan með farða. Ég brá mér hins vegar á leik og gerði hana enn myndrænni og setti tanngarða með svörtu og hvítu umhverfis munninn þannig að hún yrði pínu draugaleg undir búningnum líka. Svolítið eins og beinagrind eða uppvakningur. Hún var virkilega flott og mætti þannig í skólann en því miður þá var hún feimin við að láta sjá sig svona. Eitthvað efins um sig. Vinkonur hennar birtust í nornabúningum og prinsessufötum og hrifust af henni og skelltu meira að segja upp úr við að sjá "tennurnar". En Signý var svo viðkvæm að henni fannst allir vera að hlæja að sér, en ekki með sér. Við svo búið grét hún úr sér allan farðann og ég þurfti að eyða að minnsta kosti kortéri í að hugga hana, fjarlægja "andlitið" og eyða öllum verksummerkjum. Þetta var ægilega viðkvæmt allt saman en sem betur fer virtist hún hafa notið sín í skólanum eftir þetta því hún var bara ánægð með sig þegar ég sótti hana seinna um daginn.

Hugrúnarvandi var hins vegar allt annar. Hún ætlaði að vera "Hello Kitty". Sú hugmynd var svo einföld að við eyddum engu sérstöku púðri í að undirbúa. Hún átti "Hello Kitty" peysur og grímu. Það eina sem þurfti að gera var að lita andlitið hvítt með sama farða og notaður var á Signýju. Vandinn var hins vegar sá að þetta var of borðleggjandi þannig að við ræddum ekkert nákvæmlega hvernig búningurinn átti að vera. Þegar á reyndi virtist hún svo hafa allt aðrar hugmyndir um búninginn sem hún vildi vera í. Hún vildi ekki grímuna, fyrir það fyrsta, og hún vildi láta mála Hello Kitty í andlitið. Síðan vildi hún eindregið mæta í skólan í kjól en ekki peysu. Hello Kitty hugmyndinn féll því um sjálfa sig þar með því að morgni dags höfðum við ekki tíma til að útfæra hugmyndina. Hún gaf sig ekki og var ákveðin við að vera ósátt við það sem við höfðum fram að færa. Þá datt Vigdísi snilldarráði í hug. Hvers vegna ekki að vera bara indversk prinsessa? Við eigum búningana enn þá frá því um árið og þeir hafa ekki verið mikið notaðir! Hún var sko til í það. Og þannig reddaðist dagurinn, á meðan ég fór með Signýju í skólann sinn (með allri þeirri dramatík sem því fylgdi) græjaði Vigdís Hugrúnu. Svo var hún sótt sérstaklega.

Að sjálfsögðu þurfti ég að hringja í vinnuna og melda mig tuttugu mínútum of seinan þann daginn :-)

sunnudagur, febrúar 26, 2012

Daglegt líf: Vetrarfrí

Löng helgi er að baki. Ég fór í vetrarfrí á fimmtudaginn og föstudaginn var. En það er nú einhvern veginn þannig að þegar ég kemst í frí þá er það beintengt fríi Signýjar og Hugrúnar þannig að það nýtist ekki beinlínis sem frí. Signý var í fríi þessa sömu daga og Hugrún var að auki í fríi á föstudaginn. Tíminn nýttist hins vegar ágætlega sem óhefðbundin samverustund. Við fórum í sund og rúntuðum um í strætó. Ég komst að því að leið 15 er hinn þarfasti þjónn. Sú leið fer krókaleið um Vesturbæinn, upp á Hlemm, síðan á Grensás (Skeifan og Góði hirðirinn biðu þar eftir okkur) auk þess að fara alla leið upp í Ártún. Mér sýndist hann meira að segja fara alla leið upp í Mosfellsbæ. Það var vel þess virði að eyða drjúgum tíma í strætó þó það hafi verið pínu stressandi að þurfa að nýta skiptimiðann til baka. Strætó er það dýr að maður tímir ekki að splæsa á alla fjölskylduna tvær ferðir. En sem rúntur og tilbreyting er þetta einfalt og skemmtilegt.

Hápunktur vetrarfrísins hlýtur þó að teljast leikhúsferðin á undraheima Oz. Við sáum leiksýninguna "Galdrakarlinn í Oz" og skemmtum okkur stórvel. Vigdís sá sér reyndar ekki fært að mæta en í staðinn fengum við Fannar Örn með okkur. Hann er svo traustur í að sinna og fylgjast með stelpunum að ég náði að njóta mín vel á sýningunni, sem ég held að þau þrjú hafi líka gert. Sýningin er mjög lífleg, litrík og fjörug. Það er mikið sungið og dansað og ég tók eftir fullt af lögum í leikverkinu sem voru ekki í upprunalegu bíómyndinni frá 1939. Ætli þau hafi verið samin sérstaklega fyrir þessa sýningu af íslensku hæfileikafólki? Hvað sem því líður var þýðingin á lagatextunum alveg til fyrirmyndar. Við keyptum leikskrána og hún geymdi nokkur textabrot. Við Hugrún og Signý dunduðum okkur eftir á við að syngja nokkra lagstúfa á íslensku. Ég legg áherslu á þetta vegna þess að þær eru nú orðnar vanar ensku útgáfunni af sögunni. Þær áttu myndina á DVD og þekktu hana vel. Íslenski textinn var því frískandi fyrir okkur öll.

Svo ég grípi einhvers staðar niður þá er söngur huglausa ljónsins svona á íslensku:

Sumt er ekki hægt að æfa
því ég fæddist algjör skræfa
og vinn ekki á því bug
nú ég skelf eins og hrísla
væri ljón en engin mýsla
ef ég hefði enhvern dug


eða heilalausa fuglahræðan:

Gæti spekúlerað stundum
á engja-útifundum
um frostrós sem að fraus
Gæti velt öllum vöngum
valið rétt svör frá röngum
ef ég heila hefð´í haus.

Og hvernig hljómaði svo tinmaðurinn, sem var svo tómur að innan?

Væri blíður, væri bljúgur
og einkar skáldadrjúgur
við ástarljóðakver.
Já, ég væri svo ljúfur
að mér hændust turtildúfur
ef ég hjarta hefð´í mér.


Stök snilld!

föstudagur, febrúar 24, 2012

Fréttnæmt: Áföll í byrjun árs

Undanfarnar vikur hafa verið mjög óvenjulegar að mörgu leyti. Ýmis áföll hafa dunið yfir í fjölskyldunni, bæði nær og fjær, þannig að mann hefur sett hljóðan. Þetta eru íhugulir tímar sem fá mann til að endurmeta lífið, bæði rútínu hversdagsins og lífið í stærra samhengi. Stundum er erfitt að koma orðum að því sem er viðkvæmt - en þeir sem til þekkja vita hvað ég á við.

sunnudagur, febrúar 12, 2012

Upplifun: Afmæli ömmu Vilhelmínu

Það er nú eitt og annað sem ég náði ekki að skrifa um í síðasta mánuði annað en tónleikarnir sem ég minntist á síðast. Öll stórfjölskyldan átti til að mynda mjög eftirminnilega samverustund í síðustu viku mánaðarins í tilefni af því að hundrað ár voru liðin frá því amma Vilhelmína fæddist (26. janúar). Hún fæddist á því merkilega ári 1912 sem sumir vilja meina að marki endalok tímabils sem einkenndist af einfeldni og sakleysi ("The Age of Innocence"). Fram til 1912 trúðu Vesturlönd statt og stöðugt á framfarir og að tækninýjungar og aukin þekking muni leiða til farsældar. Fyrsta flugvélin hafði nýlega hafið sig til flugs og bílar voru farnir að vera algengur farkostur. Bjartsýni einkenndi hugarfar tímabilsins. Mannkyn hafði loks kannað allar álfur heimsins og spannað heiminn þveran og endilangan með dramatískum leiðöngrum. Suðurpóllinn var loksins "sigraður" árið 1911. Bretar voru herrar heimsins og siðprýði þeirra og fágun var táknmynd um vald þeirra. Þeir töldu sig hafna yfir tilfinningalegt hömluleysi á sama hátt og þeir töldu náttúruna sér undirgefna. Þeir voru drottnarar heimsins. En einmitt þegar framförum mannanna virtust engin takmörk sett sökk Titanic. Það var árið 1912. Þetta var mikið áfall og eiginlega óskiljanlegt. Hvað sögðu þeir? "En þetta átti ekki að vera hægt!" Þetta var fyrsti stóri atburðurinn sem kallaði á gagngert endurmat á hugmyndum manna um lífið og tilveruna. Stuttu seinna skall fyrri heimsstyrjöldin á með skotgrafahernaði sínum og gerði út af við alla rómantískar hugmyndir manna um stríð. Listamenn um allan heim brugðust við af miklu vægðarleysi. Þeir höfnuðu öllum klassískum gildum og helltu sér út í algjöra tómhyggju: Atómskáld komu fram sem settu fram ljóð án ríms, tónskáld sömdu "tónlist" með engri melódíu, samansettri af nótum í furðulegu og merkingalausu tómarúmi og málarar hættu að herma eftir veruleikanum og helltu sér út í óhlutbundna list (abstrakt). Vesturlönd voru í siðferðislegri tilvistarkreppu um langt skeið upp úr 1912.

Einmitt þá var amma nýfædd.

Við héldum upp á daginn á mjög einfaldan hátt. Afkomendur ömmu (pabbi, bræður hans og börn) komu saman á grafreitnum og lögðu þar friðarkerti og blóm. Það var enn gríðarmikill snjór á þeim tíma og við þurftum að hafa mikið fyrir því að finna legsteininn undir farginu. Sem betur fer var ég með skóflu í bílnum. Svo fórum við öll saman upp í Perlu og fengum okkur þar rjúkandi súpu eða eitthvað annað girnilegt. Mætingin var gríðarlega góð og stemningin var frábær. Snjóbrynjan lá með mjög dramatískum hætti utan á glerhjúp Perlunnar og gerði umhverfið mjög framandi og tilkomumikið. Ekki skemmdi fyrir heiður næturhiminn með tignarlegt tunglið ásamt Venusi og Júpíter hangandi yfir okkur. Við þessar aðstæður var gaman að spjalla við ættingja og vini. Þetta var skemmtileg samkoma.

föstudagur, febrúar 03, 2012

Tónleikar: Valgeir sextugur

Ég hef rétt nýlokið við að laga hið "snöggsoðna yfirlit ársins 2011" sem ég gerði í byrjun janúar. Þar sagðist ég ekki hafa farið á tónleika á árinu, en það var ekki rétt. Ég fór á tónleika með Svart-hvítum draumi, rokksveitinni hans doktors Gunna. Tónleikarnir voru bara ekki nógu eftirminnilegir, satt best að segja. Svo fór ég líka á óperu, sem strangt til tekið getur flokkast undir tónleika, en ég upplifði meira sem leiksýningu. Ég bætti því við færslu um leiksýningar og í leiðinni bætti ég við færslu um áramótaþátt Hljómskálans, sem var mér eins og opinberun.

En talandi um tónleika þá gerði ég mér lítið fyrir og fór á afmælistónleika Valgeirs Guðjónssonar um daginn. Mér áskotnuðust tveir miðar á síðustu stundu og lét hann Jón Má græða á því, enda hafði hann stuttu áður gefið í skyn að hann gæti hugsað sér að skella sér ef ég ætlaði. Það hafði selst upp á skömmum tíma eftir umfjöllun um Valgeir í fjölmiðlum og við misstum upphaflega af miðum en einhvern veginn náði ég að kippa í spotta með því að hringja í rétt númar, fór í einhvers konar pott og fékk miða á lágu verði en undarlegum stað. Við sátum til hliðar við sviðið í sætunum sem skilgreind eru sem kórsæti. Þar upplifðum við okkur sem hluta af starfsmannahópnum af því við horfum frá hlið og inn á sviðið. Hljómurinn á þessum stað var ekki sérlega góður. Hann var dempaður og vantaði tilfinnanlega alla skerpu. Talmál var svolítið bælt og rokkhljómur eins og á bak við gluggatjöld. Hins vegar fengum við frábæra sýn á sviðið og þar bakatil sátu flytjendur við dekkað veisluborð á meðan þeir voru ekki í aðalhlutverki, eins og í alvöru afmælisveislu, og gæddu sér á veisluföngum. Maður sá á þeim Diddú, Agli, Jóni Ólafs (þúsundþjalasmið) hvernig þau fíluðu tónlistina eins og þau væru stödd í löngu tímabæru partíi. Diddú var eitt sælubros. Svo lyftu þau upp míkrófonunum öðru hvoru, ýmist sitjandi eða stóðu virðulega upp og kyrjuðu eftir því sem við átti, á meðan Valgeir stóð fremst á sviðinu með ýmsum meðflytjendum. Stemningin var þrusugóð. Það er óhætt að segja. Valgeir sló stöðugt á létta strengi, sérstaklega þegar babb kom í bátinn, strengur slitnaði eða eitthvað þvíumlíkt. Þá er hann í essinu sínu. En annars stóðu lögin upp úr, allar þessar gersemar sem hann hefur samið í gegnum tíðina, hryggjarstykkið úr katalóg Stuðmanna auk perla fyrir Diddú, Spilverkið og fleiri. Eftir tónleikana komst ég að því að hann samdi tónlistina fyriri "Hrekkjusvínin" eins og hún lagði sig þó raddir Spilverksins hafi hljómað allt um kring. En þvilík lagaveisla. Það sem kom mér hvað mest á óvart var innkoma Diddúar. Þegar hún söng "Stellu í orlofi" (sem ég hef aldrei haldið upp á hingaði til) gerði hún það með slíkum bravúr að ég fékk gæsahúð. Það var eins og hún væri sjálf á nostalgíutrippi og hefði lengi þráð að synga þessi lög aftur. Svo var flutningur Spilverksins hálfum tónleikum seinna (Diddú, Valgeir og Egill) alveg magnaður. Svo að ekki sé minnst á hápunkta Stuðmanna....þau endurómuðuð lengi lögin.

mánudagur, janúar 30, 2012

Daglegt líf: Snjóhús og snjóflóð

Dagarnir líða hratt. Síðasta vika var umhleypingasöm og snjóskaflarnir viku fyrir rigningunni. Það vill svo furðulega til að úti í garði stendur núna snjóhús á grasi. Þetta er meira en mánaðargamalt hús, ábyggilega elsta snjóhúsið í bænum, reist upp úr snjófarginu sem kom milli jóla og nýárs. Það lifir enn þó það megi sannarlega muna fífil sinn fegri. Með ítrustu tækni tókst mér að viðhalda húsinu þrátt fyrir sveiflur. Ég beitti einfaldri verkfræði og veðurathugunum og prófaði mig áfram með að klæða húsið dúki svo það standi af sér rigningarkaflana inni á milli. Einn daginn var til dæmis fimm stiga hiti og rigining. Þá lá dúkurinn á snjóhúsinu og hlífði því glæsilega. Ég nota orðið "glæsilega" vegna þess að snjóhúsið varð sérstaklega straumlínulagað og fallegt í útliti eftir rigninguna. Svo fór að frysta aftur. Og snjóa. Fyrir viku síðan renndu Signý og Hugrún sér á snjósleða á húsinu og buðu til sín gestum í heimatilbúnu brekkuna. Snjóhúsið var orðið glerhart eftir að hafa veðrast vikum saman og nýttist vel sem undirstaða undir nýtt snjólag. Brekkan á þaki hússins vakti meiri lukku en snjóhúsið sem slíkt og heyrðist oft í stelpunum ískra af gleði. Þetta voru ævintýralegir snjódagar í síðustu viku og sérlega eftirminnilegt að sjá allt á kafi. Þá tók ég nokkrar flottar myndir sem eiga eflaust eftir að rata á skjáborðið á tölvunni minni. Við upplifðum meira að segja snjóflóð í garðinum heima. Reyndar vorum við stödd inni þegar húsið byrjaði að nötra. Ég hélt í fyrstu að þetta væri jarðskjálfti og varð síðan hugsað til þess að þetta hlyti að vera afar þungur snjóhefill að ryðja sér braut inn Granaskjólið. En svo áttuðum við okkur: Það var skaflinn uppi á þaki sem fór niður með þessum látum. Hann féll á göngustíginn fyrir framan húsið og kaffærði meðal annars holið þar sem gengið er niður til okkar. Sem betur fer var enginn á ferli akkúrat á þessari stundu því snjórinn var þungur og þéttur í sér og myndaði eins metra háan skafla eftir húsinu endilöngu.