mánudagur, janúar 30, 2012
Daglegt líf: Snjóhús og snjóflóð
Dagarnir líða hratt. Síðasta vika var umhleypingasöm og snjóskaflarnir viku fyrir rigningunni. Það vill svo furðulega til að úti í garði stendur núna snjóhús á grasi. Þetta er meira en mánaðargamalt hús, ábyggilega elsta snjóhúsið í bænum, reist upp úr snjófarginu sem kom milli jóla og nýárs. Það lifir enn þó það megi sannarlega muna fífil sinn fegri. Með ítrustu tækni tókst mér að viðhalda húsinu þrátt fyrir sveiflur. Ég beitti einfaldri verkfræði og veðurathugunum og prófaði mig áfram með að klæða húsið dúki svo það standi af sér rigningarkaflana inni á milli. Einn daginn var til dæmis fimm stiga hiti og rigining. Þá lá dúkurinn á snjóhúsinu og hlífði því glæsilega. Ég nota orðið "glæsilega" vegna þess að snjóhúsið varð sérstaklega straumlínulagað og fallegt í útliti eftir rigninguna. Svo fór að frysta aftur. Og snjóa. Fyrir viku síðan renndu Signý og Hugrún sér á snjósleða á húsinu og buðu til sín gestum í heimatilbúnu brekkuna. Snjóhúsið var orðið glerhart eftir að hafa veðrast vikum saman og nýttist vel sem undirstaða undir nýtt snjólag. Brekkan á þaki hússins vakti meiri lukku en snjóhúsið sem slíkt og heyrðist oft í stelpunum ískra af gleði. Þetta voru ævintýralegir snjódagar í síðustu viku og sérlega eftirminnilegt að sjá allt á kafi. Þá tók ég nokkrar flottar myndir sem eiga eflaust eftir að rata á skjáborðið á tölvunni minni. Við upplifðum meira að segja snjóflóð í garðinum heima. Reyndar vorum við stödd inni þegar húsið byrjaði að nötra. Ég hélt í fyrstu að þetta væri jarðskjálfti og varð síðan hugsað til þess að þetta hlyti að vera afar þungur snjóhefill að ryðja sér braut inn Granaskjólið. En svo áttuðum við okkur: Það var skaflinn uppi á þaki sem fór niður með þessum látum. Hann féll á göngustíginn fyrir framan húsið og kaffærði meðal annars holið þar sem gengið er niður til okkar. Sem betur fer var enginn á ferli akkúrat á þessari stundu því snjórinn var þungur og þéttur í sér og myndaði eins metra háan skafla eftir húsinu endilöngu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli