miðvikudagur, janúar 04, 2012

Pæling: Rukkað um áramótaheit

Á nýju ári er rétt að líta aðeins um öxl. 2011 var ár hinna aumu efnda. Hjá mér að minnsta kosti. Ég setti fram nokkurs konar áramótaheit fyrir um ári síðan. Annars vegar stefndi ég að því að ganga á fjöll af miklum móð (sjá hér). Við Jón Már ætluðum okkur að ganga saman á tólf fjöll á árinu en því er skemmst frá að segja að ekki var gengið á eitt einasta fjall allt árið! Ekki var áætlunin óraunhæf. Þetta átti að vera svo auðvelt. Kannski var það valdur að kæruleysi og olli því að við fórum aldrei almennilega af stað. Hins vegar var ég með ágætt varaplan, allt annars eðlis, sem hægt er að kalla áramótaheit tvö. Það var að renna markvisst í gegnum röð af kvikmyndum sem ég hef alltaf trassað að horfa á (frægum myndum, það er að segja, sem ég átti enn eftir að sjá). Meira að segja þetta klikkaði algjörlega. Hversu vonlaus getur maður verið!? Bæði útivistar- og innipúkaheitið klikkuðu. Það var nákvæmlega eins með myndirnar eins og fjöllin; ég sá ekki eina einustu af þeim sem ég hafði strikað undir! Það sem gerir þetta kannski enn fyndnara er það að ég gerði mér þó lítið fyrir og keypti þrjár af myndunum (Memento, Donnie Darko og Dumb & Dumber). Ég á þær núna en er ekki búinn að sjá þær. Þetta er svona eins og að taka upp úr sjónvarpinu í staðinn fyrir að horfa eða ljósrita grein í stað þess að lesa. Endalaust hálfkák, svo ég rakki mig nú aðeins niður í tilefni af nýju ári.

Hins vegar var maður ekki iðjulaus. Mikið var gengið, bæði Öskjuhlíðina og Heiðmörkina, auk þess að við Jón vorum duglegir að hittast og horfa á fræðslumyndir saman. Það kom svo að segja í staðinn fyrir kvikmyndaþemað, eftir á að hyggja, og var að mörgu leyti betra.

Engin ummæli: