laugardagur, desember 31, 2011

Daglegt líf: Snjóhúsagerð

Hvenær fellur feikilegt fannfergi og hvenær er bara eðlileg snjókoma? Það er kannski ágætur mælikvarði á fannfergi að þegar það tekur styttri tíma að búa til snjóhús en að moka bílinn út úr stæðinu, þá hefur óeðlilega mikið fallið á einni nóttu. Í fyrradag vöknuðum við, eins og allir aðrir, við allt annað landslag en daginn á undan. Það var ópraktískt að fara út úr húsi nema rétt út á lóð. Stelpurnar fengu frí frá leikskóla og frístundaheimili, ekki vegna þess að ég kæmist ekki út úr stæðinu heldur voru aðrir bílaeigendur fastir í götunni rétt fyrir aftan stæðið. Við ákváðum bara að halda okkur heima, enda við Vigdís bæði í fríi, og helguðum daginn snjóhúsagerð. Vigdís mallaði heitt súkkulaði og bara fram sætindi á meðan og beið eftir því að við hin kæmum inn úr snjónum. Það verður ekki mikið jólalegra. Reyndar kláruðum við ekki snjóhúsið heldur bjuggum við bara til fjall/hól í miðjum garðinum og eigum enn eftir að grafa okkur inn. Það bíður betri tíma. Við vorum hins vegar dugleg að þétta hólinn með því að renna okkur á honum á sleða. Meira að segja ég sveiflaði mér upp á hann á eins og á brimbretti og mjakaðist niður hinum megin. Núna er hins vegar von á slyddu yfir áramótin og síðan frystir aftur. Það hentar okkur vel. Þá verður hóllinn orðin glerharður á nýju ári og húsið öruggt. Þá getum við loksins flutt inn.

Engin ummæli: