miðvikudagur, desember 21, 2011

Skólinn: Jólaleikrit

Eins og fram kom síðast er mikið búið að vera í gangi. Fyrsta meiriháttar umstangið var í kringum jólaleikritið í Grandaskóla. Þá redduðum við Vigdís okkur pása frá vinnu til að komast og mættum með allar tiltækar myndavélar. Þetta kom ákaflega vel út hjá fyrsta bekk. Allir krakkarnir fengu hlutverk og til þess að svo yrði varð að tvískipta hópnum (stór árgangur) þannig að leikritið var leikið í tveimur hollum. Mikil vinna fyrir kennarana sem eiga hrós skilið fyrir skipulagið. Það var athyglisvert að nemendur fluttu allan texta og skiptu honum á milli sín, blaðalaust. Signý var í englahjörðinni ásamt nokkrum vinkonum sínum og flutti: "Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem Hann hefur velþóknun á" (ég vona að ég hafi haft þetta rétt eftir :-). Signý var nýbúin að fara í klippingu og var með liðaða englalokka. Hún tók sig mjög vel út. Við kipptum Hugrúnu meira að segja með okkur úr leikskólanum þannig að þetta var fjölskylduskemmtun með piparkökum og kakói á eftir.

Þær Hugrún voru býsna uppteknar af helgileiknum um tíma og léku sér heima með leikritið á sinn hátt. Þær renndu í gegnum leikritið með brúðunum sínum. Það er ágætt að geta prufukeyrt hlutverk sín með þessum hætti. Signý á það til að gera þetta líka með hlutverk sitt í daglega lífinu, eins og í skólanum. Þá fer hún í hlutverk kennslukonu og breytir Hugrúnu í nemanda. Maður sér þá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í skólanum (eins gott að þar sé allt með felldu :-).

Svo sungu þær jólalög í kringum uppfærslurnar sínar: Bjart er yfir Betlehem sérstaklega. Ég tók eftir því að Signý fór rangt með eitt orð í textanum "... var hún áður vitringum VINA-ljósið skæra". Ætli hún hafi verið að hugsa um VINA-súluna í Viðey? Nú er ég að vitna í Friðargönguna sem farin var á vegum leikskólans í október í fyrra í tengslum við tendrun Friðarsúlunnar. Þá kom Signý heim með skilti sem á stóð "Allir vinir". Einhvern veginn tókst henni að tengja Friðarsúluna við skilaboðin á skiltinu sínu. Friðarsúlan heitir sem sagt VINA-súlan á okkar heimili og nú virðist sem vinaljósið skíni líka frá Betlehemstjörnunni. Þetta er eiginlega ekki hægt að leiðrétta. Snýst ekki annars allur friðarboðskapur um að allir eigi að vera vinir?

Engin ummæli: