fimmtudagur, október 14, 2010

Daglegt líf: Friðarganga

Okkur varð starsýnt á forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Þar mátti sjá "Friðargöngu" leikskólabarna þrammandi niður Skólavörðustíginn. Fremst í flokki fóru krakkar úr Vesturborg. Reyndar sést Signý ekki en þær Hugrún þekktu nokkra af vinum sínum. Hugrún vaknaði á undan Signýju og var fljót að nafngreina andlitin og sýndi svo Signýju sem pírði gegnum svefndrukkin augun. Þeim þótti þetta merkilegt, að sjálfsögðu. Ekki voru síðri viðbrögðin í leikskólanum sjálfum og nokkrir krakkar valhoppuðu af kæti.

Þau fór sem sagt í gær í þessa Friðargöngu og til marks um það kom Signý heim með föndrað skilti sem á stóð "Allir vinir". Sumir höfðu skrifað "Við viljum frið" og eitthvað í þeim dúrnum. Þegar við Signý komum yfir á deildina hennar Hugrúnar, með skiltið, vildi sú litla umsvifalaust eignast svona skilti líka. Hún varð mjög ósátt um stund. Ég veit ekki hvort Signý var að reyna að hugga systur sína þegar hún sagði við hana: "Stundum fæ ég frið frá þér".

Þetta má skilja á ýmsa vegu :-)

Engin ummæli: