miðvikudagur, október 27, 2010

Daglegt líf: Bangsar, spil og leikföng

Í morgun fóru Signý og Hugrún með bangsa í leikskólann í tilefni af hinum alþjóðlega bangsadegi (aldrei hafði ég heyrt minnst á hann áður). Signý fór með Albert bangsa (sem er mjög klassískur í útliti) en Hugrún tók með sér lemúrinn sinn (augnstórt tuskudýr, tæknilega séð ekki "bangsi" því hann er af apakyni, sem lengi vel gekk undir heitinu "ugla" þar til ég benti á að hann var með langt röndótt skott). Þeim fannst mjög gaman að fá að taka uppáhaldsbangsana sína með og Signý vildi endilega að ég kæmi því á framfæri við fóstrurnar að hún vildi fá að taka hann með sér alltaf.

Það vill svo sérkennilega til að dagurinn var einhvern veginn undirlagður þessu þema bernskunnar; bangsar, spilir og leikföng. Ég var einmitt í dag með fyrirlestur í vinnunni um spil og hvernig þau nýtast í kennslu. Í kjölfarið var ég með sýningu á námsgögnum í spilaformi ásamt vinnufélaga mínum, smíðakennaranum Bjarna, sem hefur með sinni færni náð að gera óljósar hugmyndir áþreifanlegri. Þetta eru sem sagt kennslugögn sem við höfum í samvinnu búið til á undanförnum árum. Í stuttu máli sagt gekk kynningin ákaflega vel og voru flestir á því að þetta væri mikil innspýting í kennslufyrirkomulagið þar á bæ.

Tímasetningin á þessari spilakynningu var tilviljun og kannski ekki svo merkileg sem slík. Hins vegar fór ég eftir vinnu hugsunarlaust á bókasafnið á Seltjarnarnesi (var bara á leiðinni út í búð) og tók tvær vídeóspólur fyrir Signýju og Hugrúnu (spólurnar getum við haft fram yfir helgi). Önnur þeirra var Toy Story ("Leikfangasaga"). Lengi hefur staðið til að sýna þeim þessa frægu teiknimynd en ég hef alltaf frestað því. En ég lét loksins verða af því í dag. Það var ekki fyrr en eftir á að ég áttaði mig á því að þetta bar akkúrat upp á bangsadaginn og fannst það vel við hæfi.

Engin ummæli: