sunnudagur, október 23, 2011

Fréttnæmt: Óvenjulegt námskeið

Yfirliti yfir októbermánuð er ekki fullnægt fyrr en minnst hefur verið á einstaklingsframtakið. Ég tók upp á því sjálfur að fara á heldur óvenjulegt námskeið á vegum Tækniskólans sem heitir: "Pabbanámskeið: Að binda í hárið á dætrunum". Ég sá það auglýst í blöðunum rétt fyrir helgi og var ekki lengi að hugsa mig um. Mig hefur lengi langað til að gera hárinu þeirra Signýjar og Hugrúnar almennileg skil. Þær eru nefnilega ekki með auðvelt hár viðureignar. Það er mjög liðað og af einhvers konar millisídd, eins og ég kalla það, sem erfitt að er að setja í tagl eða einfalda fléttu. Ég vildi fá góð ráð og fékk þau á þessu markvissa fjögurra tíma námskeiði sem haldið var einn laugardagseftirmiðdaginn (sjá myndir hér).

Það vildi svo til Kastljósið fór á staðinn og fjallaði lítillega um þetta námskeið. Það var sýnt í sjónvarpinu strax mánudaginn eftir (sjá hér). Signý baðaði sig í athyglinni daginn eftir og upplifði það hvernig það var að vera fræg í smástund. Hugrún var hins vegar pínu svekkt og sagði bara: "Svindl". En þetta var líka ákveðin pressa sem ég hefði helst viljaði komast hjá því nú vissu allir í leikskólanum og Grandskóla hvað ég hafði verið að bralla. Allt í einu fannst mér ég þurfa að skila þeim mjög vandlega greiddum að morgni dags, án teljandi þjálfunar. Ég hafði svo sem metnað til þess og vaknaði ábyggilega hálftíma fyrr á þriðjudeginum og miðvikudeginum en komst brátt að því að þetta var allt takmörkunum háð. Þær Signý og Hugrún voru ekkert hrifnar af því að láta fikta lengi í hárinu sínu svona snemma á morgnana sérstaklega þar sem mig vantaði enn þá alla þjálfun og var kannski full lengi að fikra mig áfram. Svo upplifði ég aðeins of mikla tímapressu svona á morgnana á meðan ég er enn að ná tökum á þessu. Ég sló því slöku við fyrstu tvær vikurnar og einbeitti mér frekar að því að æfa mig örlítið um helgar þegar meiri tími gefst til þess (og tilefnið ef til vill meira, eins og leikhús, afmæli og aðrar uppákomur). Þetta tekur allt sinn tíma.

Upplifun: Töfraflautan

Október hefur verið menningarlega gjöfull mánuður það sem af er þrátt fyrir að maður hafi ekki haft fyrir því að elta stóru hátíðirnar. Það er ekki bara Borgarleikhúsið, PJ Harvey og Lion King. Um daginn bauðst mér upp úr þurru að fara á forsýningu Töfraflautunnar. Jóhanna hans Bjarts tekur þátt í uppfærslunni og gat boðið upp á miða á generalprufuna. Bjartur hnippti sem sagt í mig og ég var ekki lengi að grípa tækifærið.

Aðalsalurinn í Hörpu er mjög flottur og allt það en hljómburðurinn er magnaður! Það hríslaðist um mig gæsahúð þegar allur söngvaraskarinn lét loks vaða í lokaatriðinu. Fram að því var sýningin búin að vera fjölbreytt og misjöfn. Sum atriðin höfðuðu ekki sérstaklega til mín en önnur voru glæsileg. Papagenó fannst mér ótrúlega lifandi og skemmtilegur fuglafangari. Það er af mörgu að taka og margt sem stendur upp úr en sérstaklega fannst mér gaman að sjá þýðinguna á verkinu. Heil ópera hafði sem sagt verið þýtt á íslensku, með söngvænum stuðluðum textum. Ótrúlega vel gert.

Upplifun: Menningin í október

Október er mikill menningarmánuður á Íslandi nú í seinni tíð. Þar munar mest um Iceland Airwaves tónlistarhátíðina og RIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðina. Ekki gerði ég neinn sérstakan skurk í þessum efnum í ár. Ég lét tónlistarhátíðina alveg lönd og leið og var eiginlega feginn að þurfa ekki að eltast við hljómsveitir niðri í bæ í skammdeginu (en fattaði eftir á að ég hefði þó vel getað hugsað mér að sjá Sinaed O´Connor). Kvikmyndahátíðina lét ég líka að mestu eiga sig. Ég sá enga hefðbundna kvikmynd en skellti mér þó með Jóni Má á mynd sem gerð var eftir tónlistinni á nýjustu plötu PJ Harvey. Þetta er óvenjuleg mynd að því leyti að hún er ekki samfelld mynd né heldur heimildamynd. Myndin er einfaldlega röð af tónlistarmyndböndum sem binda plötuna enn betur saman sem þematíska heild. Með myndræna þættinum verður ádeila plötunnar á Breskt samfélag nútímans enn sterkari og áhrifameiri og gerir plötuna að magnaðri upplifun. Þeir sem vilja glöggva sig á þessu geta skoðað Youtube-svæði sem kallast Let England Shake eftir heiti plötunnar. Það er ekki margt að gerast í dag í tónlistarheiminum sem hrífur mig en þetta er ánægjuleg undantekning frá því.

Talandi um menningu þá gerði ég það samt engan veginn endasleppt að undanförnu. Ég minntist nýlega á ferð í Borgarleikhúsið þar sem ég reyndar bætti um betur og keypti leikhúskort fyrir Signýju og Hugrúnu og hef þar með skuldbundið mig til að sjá minnst fjórar sýningar með þeim á árinu. Auðvitað verður Galdrakarlinn frá Oz fyrir valinu (sem mér skilst að sér algjör snilld) og svo ætla ég alls ekki að missa af sýningunni "Gói og baunagrasið". Hún verður væntanlega í sama galsafulla anda og hin sýningin sem nú er í gangi á vegum þeirra Góa og Þrastar Leó, Eldfærin. Hún var hreint út sagt stórkostlega fyndin.

En menningin er víða. Við skelltum okkur á þrívíddarsýninguna Lion King fyrir viku síðan. Signý tautaði eitthvað á leiðinni inn í salinn að henni fyndist nú skemmtilegra í leikhúsi en í bíó og var eiginlega ekkert viss um að nenna þessu. Svo hófst sýningin og mín missti hreinlega andlitið þegar hún setti upp gleraugun. Hún teygði fram höfuðið með galopinn munn. Með reglubundnu millibili teygði hún út faðminn til að ná í laufblöð og annað lauslegt á skjánum og hafði greinilega mjög gaman af. Hugrún var mun yfirvegaðri yfir þessu og lét ekki á sjá á meðan sýningu myndarinnar stóð. Hún hefur hins vegar oft talað um þrívíddargleraugun síðan. Núna síðast í dag bað hún mig um að kveikja á sjónvarpinu eftir að hún var nýbúin að pússa skjáinn með blautum þvottapoka. Hún ætlaði nefnilega að setja upp þrívíddargleraugun :-)

mánudagur, október 17, 2011

Daglegt líf: Praktískar fréttir

Það er heilmargt búið að vera í gangi í Granaskjólinu þrátt fyrir skort á bloggfærslum. Kannski er það einmitt merki þess að við höfum nóg að gera því þá hefur maður lítinn tíma til að skrifa.

Nokkrar praktískar fréttir: Vigdís skipti um vinnustað. Hún lét flytja sig yfir á Landakotið frá gamla Borgarspítalanum þar sem hún hefur unnið frá því áður en við kynntumst. Það hefur með sér í för mikla hagræðingu því núna er vinnustaðurinn í göngufæri að heiman. Fram til þessa hefur verið mikið um skutl fram og til baka. Vigdís þurfti alltaf að mæta fyrir átta en stelpurnar í leikskólann eftir átta þannig að ég hef þurft að keyra gegnum morgunumferðina og til baka aftur í Vesturbæinn áður en ég fór sjálfur í vinnuna. Þetta mun nú breytast. Vonandi felur þetta líka í sér umtalsverðan sparnað því bensínið kostar fúlgur fjár, eins og menn vita.

Önnur praktísk frétt er sú að netsambandið á heimilinu er loksins komið í lag. Ég er eiginlega enn þá að venjast þeirri tilhugsun því það er búið að vera í lamasessi svo lengi. Sérfræðingar Vodafone hafa legið yfir þessari nettengingu okkar og ekki fundið neina lausn hingað til þrátt fyrir löng símtöl og vangaveltur - þar til ég hringdi í þá um daginn og lagði inn fyrirspurn. Var ekkert viss um að þeir myndu líta á hana yfir höfuð. Svo gerðist það bara: Bingó! Einn daginn var netsambandið orðið stöðugt og gott. Þetta var eiginlega of gott til að vera satt. Það er fyrst núna sem ég þori að tala um það hér formlega, hjátrúarfullur eins og maður er, nú þegar maður býr yfir tveggja vikna reynslu af stöðugu netsambandi.

Að lokum er rétt að minnast á það að nú fer hver að verða síðastur að gæða sér á ferskum "barnagulrótum" úr garðinum. Við höfum ekki enn komist til þess að selja þær fyrir framan Melabúðina, þrátt fyrir tilskilin "leyfi" og góðan vilja. Veðrið er bara búið að vera svo rysjótt og fráhrindandi. Í dag vorum við meira að segja með tvær góðar vinkonur Signýjar í heimsókn í því skyni að selja með okkur. Þær voru fullar tilhlökkunar, en allt kom fyrir ekki. Það var ekkert huggulegt við það að selja í þessu veðri. Vinkonurnar hjálpa okkur bara seinna. Á meðan mega aðrir enn næla sér í ferskan bita úr garðinum.

mánudagur, október 10, 2011

Daglegt líf: Leiksýningar

Nú erum við búin að sækja tvær leiksýningar með stuttu millibili, báðar tær snilld. Önnur var í bókasafninu á Seltjarnarnesi, brúðuleiksýningin Pétur og úlfurinn. Þetta var opin sýning í frekar þröngum salarkynnum safnsins. Annað hvert barn úr Vesturbænum virtist vera mætt til að njóta góðs af. Það fór misjafnlega vel um okkur sem sátum á jaðrinum en sýningin var frábær - eins og venjulega (sjá Brúðuheima). Hin sýningin sem við fórum á var i Borgarleikhúsinu. Þar voru Eldfærin flutt af Þresti Leó og Góa. Sú sýning var svo sannarlega fyrir alla fjölskylduna með skírskotunum hingað og þangað fyrir þá sem eldri eru. Sýningin var skemmtilega "hrá" þannig að krakkarnir fengu á tilfinninguna að þeir Þröstur og Gói væru bara að spinna söguna jafnóðum og kynntu í leiðinni veröld leikhússins. Við keyptum leikhúskort hjá Borgarleikhúsinu í tilefni af þessu og ætlum svo sannarlega að fylgja þessu eftir og fara fljótlega á Galdrakarlinn frá Oz.

þriðjudagur, október 04, 2011

Upplifun: Rökkurdrungi og slysahætta

Við Vigdís vorum á ferðinni áðan í bíl ásamt Signýju og Hugrúnu. Það var óvenju dimmt vegna skýjafarsins. Það var tekið að skyggja og götuljósin ekki kveikt enn þá, í takt við sparnaðaráætlun Reykjavíkurborgar. Gangandi vegfarendur voru bara eins og skuggaverur og sveimuðu þvert yfir götur hér og þar. Þetta var mjög varasamt því ekki nokkur sála var með endurskinsmerki á sér, að því er virtist. Okkur var mjög brugðið við að upplifa þetta öryggisleysi. Það var myrkur, nánast eins og niðdimm nótt, og einu ljósin sem lýstu upp göturnar voru bílljósin, flöktandi fram og til baka. Ég er þeirrar skoðunar að það ætti hiklaust að kveikja fyrr á götuljósunum þegar himinninn er hulinn skýjum, hvað sem sparnaðaráætluninni líður. Er ekki hægt að taka sérstakt tillit til þess? Engu að síður var þetta holl upplifun fyrir okkur fjögur sem horfðum á og samtal okkar Vigdísar þróaðist út í vangaveltur um endurskinsmerki, sem hún Signý hafði reyndar frumkvæði að, merkilegt nokk! Greinilega búin að vera góð fræðsla hjá henni í skólanum.

Daglegt líf: Signý gerist búðakona

Signý er mjög uppátækjasöm þessa dagana. Núna er hún búin að telja undanfarna daga niður í morgundaginn vegna þess að það er dagurinn þegar hún "selur grænmeti". Þegar hún tjáði sig fyrst um þessa hugmynd sína, fyrir nokkrum dögum, sagði hún bara: "Ég hlakka svo til eftir fjóra daga" og þegar hún var spurð út í það þá svaraði hún bara "því þá er ég að fara að selja grænmeti". Hún er svo sannfærð í sinni tilhlökkun að ég get ekki annað en fylgt henni eftir og reynt að tryggja að þetta verði ánægjuleg reynsla. Planið er að draga nokkrar gulrætur upp úr garðinum okkar (við eigum feikinóg) og selja í litlum pokum fyrir gangandi vegfarendur í Granaskjólinu. Hundrað krónur pokinn, tíu litlar og sætar gulrætur með grasi og öllu. Það verður ekki ferskara. Kannski fylgir graslaukur með í kaupbæti :-)