þriðjudagur, október 04, 2011
Upplifun: Rökkurdrungi og slysahætta
Við Vigdís vorum á ferðinni áðan í bíl ásamt Signýju og Hugrúnu. Það var óvenju dimmt vegna skýjafarsins. Það var tekið að skyggja og götuljósin ekki kveikt enn þá, í takt við sparnaðaráætlun Reykjavíkurborgar. Gangandi vegfarendur voru bara eins og skuggaverur og sveimuðu þvert yfir götur hér og þar. Þetta var mjög varasamt því ekki nokkur sála var með endurskinsmerki á sér, að því er virtist. Okkur var mjög brugðið við að upplifa þetta öryggisleysi. Það var myrkur, nánast eins og niðdimm nótt, og einu ljósin sem lýstu upp göturnar voru bílljósin, flöktandi fram og til baka. Ég er þeirrar skoðunar að það ætti hiklaust að kveikja fyrr á götuljósunum þegar himinninn er hulinn skýjum, hvað sem sparnaðaráætluninni líður. Er ekki hægt að taka sérstakt tillit til þess? Engu að síður var þetta holl upplifun fyrir okkur fjögur sem horfðum á og samtal okkar Vigdísar þróaðist út í vangaveltur um endurskinsmerki, sem hún Signý hafði reyndar frumkvæði að, merkilegt nokk! Greinilega búin að vera góð fræðsla hjá henni í skólanum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli