sunnudagur, október 23, 2011

Fréttnæmt: Óvenjulegt námskeið

Yfirliti yfir októbermánuð er ekki fullnægt fyrr en minnst hefur verið á einstaklingsframtakið. Ég tók upp á því sjálfur að fara á heldur óvenjulegt námskeið á vegum Tækniskólans sem heitir: "Pabbanámskeið: Að binda í hárið á dætrunum". Ég sá það auglýst í blöðunum rétt fyrir helgi og var ekki lengi að hugsa mig um. Mig hefur lengi langað til að gera hárinu þeirra Signýjar og Hugrúnar almennileg skil. Þær eru nefnilega ekki með auðvelt hár viðureignar. Það er mjög liðað og af einhvers konar millisídd, eins og ég kalla það, sem erfitt að er að setja í tagl eða einfalda fléttu. Ég vildi fá góð ráð og fékk þau á þessu markvissa fjögurra tíma námskeiði sem haldið var einn laugardagseftirmiðdaginn (sjá myndir hér).

Það vildi svo til Kastljósið fór á staðinn og fjallaði lítillega um þetta námskeið. Það var sýnt í sjónvarpinu strax mánudaginn eftir (sjá hér). Signý baðaði sig í athyglinni daginn eftir og upplifði það hvernig það var að vera fræg í smástund. Hugrún var hins vegar pínu svekkt og sagði bara: "Svindl". En þetta var líka ákveðin pressa sem ég hefði helst viljaði komast hjá því nú vissu allir í leikskólanum og Grandskóla hvað ég hafði verið að bralla. Allt í einu fannst mér ég þurfa að skila þeim mjög vandlega greiddum að morgni dags, án teljandi þjálfunar. Ég hafði svo sem metnað til þess og vaknaði ábyggilega hálftíma fyrr á þriðjudeginum og miðvikudeginum en komst brátt að því að þetta var allt takmörkunum háð. Þær Signý og Hugrún voru ekkert hrifnar af því að láta fikta lengi í hárinu sínu svona snemma á morgnana sérstaklega þar sem mig vantaði enn þá alla þjálfun og var kannski full lengi að fikra mig áfram. Svo upplifði ég aðeins of mikla tímapressu svona á morgnana á meðan ég er enn að ná tökum á þessu. Ég sló því slöku við fyrstu tvær vikurnar og einbeitti mér frekar að því að æfa mig örlítið um helgar þegar meiri tími gefst til þess (og tilefnið ef til vill meira, eins og leikhús, afmæli og aðrar uppákomur). Þetta tekur allt sinn tíma.

Engin ummæli: