föstudagur, janúar 22, 2010

Pæling: Haiti-hörmungarnar

Ég hef nú breytt fyrirsögn síðustu færslu því mér brá seinna sjálfum í brún við að sjá "Hörmungardagur" á mínu eigin bloggi þegar raunverulegar hörmungar eiga sér stað úti í heimi.

Ég held að fólk geri sér almennt ekki fyrir því hvað jarðskjálftar eru hryllilegar hamfarir. Ekki bara það að fólk skuli látast í hundraðatali, þúsundatali eða tugþúsundatali og kremjast heldur ósnyrtilega. Það er eftirleikurinn sem er svo skelfilegur. Það tilheyrir reyndar svona hörmungum að farsóttir og pestir breiðast út og glundroðinn almennt skapar svigrúm fyrir glæpi. Þannig er það líka eftir flóðbylgjur og flóð. Jarðskjálftar eru hins vegar sér á parti með það hversu hægt fólk deyr og einangrað, ef það lifir af fyrstu mínúturnar yfir höfuð. Hugsum okkur það að grafast undir, hugsanlega klemmdur, og sjá ekki handa sinna skil í rými sem er takmarkað og mögulega aðþrengt. Kannski heyrir maður í röddum hinum megin. Kannski ekki. Það geta ekki allir látið vita af sér. Að því leytinu til minnir þetta kannski að vera buslandi úti á rúmsjó og geta ekki veifað nóg "hátt" til skips sem sést í fjarlægð. Það má líka líkja aðþrengdri aðstöðunni við að lenda í snjóflóði að öðru leyti en þvi að þú átt möguleika á að lifa lengur við skilyrði sem eru líkamanum hliðhollari. Hér er ekki ofkæling sem dregur mátt úr líkamanum heldur þorstinn. En sú staðreynd að maður hefur möguleika á að lifa talsvert lengi undir rústunum er í sjálfu sér skelfileg og geriri jarðskjálfta svo hryllilega. Fjöldi manna er fastur undir braki sem líklegt til að mjakast til við eftirskjálfta - og þeir eru alltaf á næsta leyti. Önnur skelfileg tilhugsun er að fórnarlambið undir brakinu getur ekki varið sig gagnvart sníkjudýrum eins og rottum sem líkleg eru til að gera sér mat úr aðstæðum. Eldur er síðan enn einn ógnvaldurinn. Sérstaklega ef húsið er úr timbri. Menn vita þá kannski af eldinum, heyra skelfingaróp af götunni, en geta sig hvergi hrært. Þeir eru bara inni í bálkesti án þess að geta hreyft legg né lið. Og hver er vonin við slíkar aðstæður? Kannski er sprautað á húsið? Þá eru hins vegar allar líkur á að þeir sem liggja undir húsinu drukkni. Að lokum er mögulegt að maður sé innikróaður en óskaddaður við heppilegar aðstæður, eins og fólkið sem fannst í grænmetisdeildinni í stórmarkað á Haítí. Á slíkum stöðum getur maður lifað lengi. Getur verið að jarðýturnar, sem á endanum hreinsa brakið, drepi fjölda manna? Hvað þarf að líða langur tími til að útiloka það?

Allt þetta er mögulegt, en einangrunin hlýtur að vera einna skelfilegust. Kviksetning í þúsundatali. Sú tilhugsun fær mann til að engjast um af vanlíðan.

föstudagur, janúar 15, 2010

Daglegt líf: Hrakfalladagur

Í marga daga eftir að ég sló um mig með kryddbrauðinu í vinnunni beið upprunalega hráefnahrúgan eftir mér heima í lokuðu ílátinu (sjá síðustu færslu). Ég beið með að bleyta upp í blöndunni með mjólk þar til í gær en þá tók við undarlegur hörmungadagur. Ég hitaði ofninn en láðist að líta undir neðstu bökunarplötuna. Þar undir var eldfast mót með plastloki. Það er aðeins ætlað til notkunar eftir og vitaskuld bráðnaði það eins og smjör löngu áður en brauðið náði að lyfta sér. Lyktin af plastinu yfirgnæfði alla brauðlykt. Það var eiginlega skelfilegt að taka utan um plastið með pottaleppunum sem klepruðust við slepjuna á meðan ég hentist með illa lyktandi ílátið út á verönd.





Brauðið var ónýtt (enginn vill borða brauð sem sveipað hefur verið daunillum eiturgufum). Stuttu seinna fór Signý í bað. Hugrún var eitthvað í lausaleik á meðan og ákvað í einhverju fikti að stingar fingrum í hurðarfalsinn. Enginn lokaði á hana en hún náði hins vegar ekki að losa. Hún varð fyrst og fremst hrædd, sem er vel. Hún passar sig þá kannski næst. Það var bara eins gott að við vorum réttu megin við dyrnar því annars hefði getað farið ansi illa. Svo fór hún stuttu seinna, með tár á hvarmi, í bað. Þá var Signý eitthvað að dunda sér og náði, aldrei þessu vant, að steypa standlampa á gólfið og skemma lampaskerminn (og eyðileggja peruna í leiðinni). Hún tók því illa og var auðvitað hrædd um að vera skömmuð. En var hugguð.

Þær eru ekkert vanar að skemma hluti eða meiða sig svo ég var svolítið hugsi yfir þessu öllu saman eftir á. Stundum er bara eins og það liggi eitthvað í loftinu.

Pæling: Uppskrift sem jarðlög

Fyrir rúmri viku síðan fór ég í heimsókn til Bjarts og Jóhönnu og fékk að bragða á dýrindis kryddbrauði, beint úr ofninum. Bjartur sagðist hafa borið uppskriftina að brauðinu saman við ýmsar aðrar sem hann fann á netinu og fundist þessi einföldust og þægilegust. Ég tók hann á orðinu, enda er Bjartur með vandvirkari og markvissari náungum. Uppskriftin hljómaði hins vegar nánast ósannfærandi einföld:

Henda saman þurrefnum: 3 dl af hveiti, 3 dl af sykri og 3 dl af haframjöli ásamt bragðaukum (2 tsk kanill og hálf tsk. negull) og lyftiefni (1 tsk matarsódi). Þegar þessu hefur verið hrært vandlega saman (bara gróflega með sleif) skal "blautefnið" bætast við: Mjólk. Eins og með fyrstu þrjú hráefnin er um að ræða 3 dl. Svo er þessu hent í smurt form og inn í ofn þar til manni finnst brauðið vera tilbúið.

Nokkrum dögum síðar hugðist ég fylgja uppskriftinni eftir. Það var seint um kvöld. Hugmyndin var að setja þurrefnin saman í lokað ílát og mæta með það í vinnuna í annarri hendi og mjólkurpott í hinni. Þegar ég blandaði þessum þurrefnum saman gerðist hins vegar svolítið eftirminnilegt: Ég hreifst af lagskiptingu uppskriftarinnar! Hveitið, haframjölið og sykurinn mynduðu glæsileg "jarðlög" með örlitlu "öskulagi" efst (kryddin og matasódinn). Ég hugsaði með mér hvað það væri sniðugt að setja uppskriftir á þetta sjónræna form. Sjá hér:





Að minnsta kosti átti ég auðvelt með að muna uppskriftina svona sjónrænt. Á það reyndi daginn eftir vegna þess að þá ákvað ég að taka ílátið ekki með mér í vinnuna. Ég ofmat álagið þann daginn og fannst ég ekki geta sinnt þessu. Á staðnum reyndist ég hins vegar hafa góðan tíma eftir allt saman og fór að gramsa í eldhússkápum, með uppskriftina svona kristaltæra í kollinum. Já, það var rétt sem þau Bjartur og Jóhanna sögðu: Einn af helstu kostum uppskriftarinnar er sá að hráefnin eru til nánast í hverju eldhúsi. Bbrauðið fékk að ilma á ný.

Þetta minnir mig á það að ég þyrfti að lífga upp á uppskriftasíðuna. Nú er tími til kominn.

föstudagur, janúar 08, 2010

Pæling: Nýtt og ferskt ár

Nýtt ár er gengið í garð og það ekki af lakari gerðinni. Árgerð 2010, hvorki meira né minna! Nú þegar hefur margt bjátað á og samfélagið komið í uppnám á ný. Forsetinn mætti hins vegar fullur sjálfstrausts í viðtal á BBC og kvað þáttarstjórnandann í kútinn. Þjóðin fylltist sjálfstrausti á ný. Ég mætti sjálfur til leiks á nýju ári fullur sjálfstrausts og er með skarpari áætlanir en áður. Hef jafnframt trú á því að frumkrafturinn sem býr í þjóðinni, þessari frumherjaþjóð (eins og við köllum okkur stundum), eigi eftir að vakna af góðærisdoðanum. Hún er reyndar fyrir löngu komin á fætur. Margs konar áhugaverð starfsemi hefur verið að grassera síðustu misserin og frumkvæði einstaklingsins hefur notið sín betur en nokkurn tímann fyrr. Það eru spennandi tímar framundan.

Um sama leyti og forsetinn neitaði að staðfesta lögin umdeildu frétti ég af andláti söngkonunnar Lhasa de Sela, sem við Vigdís sáum á tónleikum á síðasta ári. Hún lést af krabbameini eftir langvinn veikindi. Það hafði ég ekki hugmynd um svo fráfall hennar kom eins og reiðarslag. Tónleikar hennar á Íslandi voru víst hennar síðustu. Við Vigdís tókum okkur til og hlustuðum á hana strax um kvöldið henni til heiðurs (hennar frægasta lag er kannski: Con Toda Palabra). Eitt það sorglegasta við hennar fráfall er að hún var með áætlun um að gefa út plötu með lögum eftir Victor Jara og Violeta Parra. Það hefði verið magnað að heyra því seiðmögnuð tónlist Lhösu (afsakið beyginguna) var undir miklum áhrifum frá þeim goðsagnakenndu söngvurum.

Kvöldið eftir tókum við Emilíönu Torrini fyrir. Tilefnið var að sjálfsögðu betra: Hún er með þrenna tónleika í febrúar. Við rétt gátum reddað okkur fínum miðum framarlega á síðustu tónleikana, tveimur stökum, því allir samliggjandi miðar annars staðar en á jaðrinum eru uppseldir. En þetta verður bara gaman. Ætli við mætum bara eins og tvær ókunnugar manneskjur og gjóum svo augum hvort til annars, kynnumst smám saman og förum svo saman heim að tónleikum loknum :-)

Eftir að hafa hlustað ótæpilega á allmargar plötur Emilíönu datt mér í huga að svissa yfir á eitthvað allt annað og datt inn á hljómsveitina Jeff Who? Ekki veit ég hvort mikið er varið í það sem þeir gáfu út í fyrra en fyrstu plötuna þeirra hef ég lengi haldið upp á. Hún kom út 2006 og var kokhraust eftir því. Það rann upp fyrir mér hvað þessi tónlist var ótrúlega lýsandi fyrir tíðarandann sem þá var í gangi. Góðærið var í algleymingi. Hlustið bara á sælukennt sjálfstraustið og ómengaða sigurvímuna í þessu lagi, sem enginn kæmist upp með að semja í dag: Barfly .