Nýtt ár er gengið í garð og það ekki af lakari gerðinni. Árgerð 2010, hvorki meira né minna! Nú þegar hefur margt bjátað á og samfélagið komið í uppnám á ný. Forsetinn mætti hins vegar fullur sjálfstrausts í viðtal á BBC og kvað þáttarstjórnandann í kútinn. Þjóðin fylltist sjálfstrausti á ný. Ég mætti sjálfur til leiks á nýju ári fullur sjálfstrausts og er með skarpari áætlanir en áður. Hef jafnframt trú á því að frumkrafturinn sem býr í þjóðinni, þessari frumherjaþjóð (eins og við köllum okkur stundum), eigi eftir að vakna af góðærisdoðanum. Hún er reyndar fyrir löngu komin á fætur. Margs konar áhugaverð starfsemi hefur verið að grassera síðustu misserin og frumkvæði einstaklingsins hefur notið sín betur en nokkurn tímann fyrr. Það eru spennandi tímar framundan.
Um sama leyti og forsetinn neitaði að staðfesta lögin umdeildu frétti ég af andláti söngkonunnar Lhasa de Sela, sem við Vigdís sáum á tónleikum á síðasta ári. Hún lést af krabbameini eftir langvinn veikindi. Það hafði ég ekki hugmynd um svo fráfall hennar kom eins og reiðarslag. Tónleikar hennar á Íslandi voru víst hennar síðustu. Við Vigdís tókum okkur til og hlustuðum á hana strax um kvöldið henni til heiðurs (hennar frægasta lag er kannski: Con Toda Palabra). Eitt það sorglegasta við hennar fráfall er að hún var með áætlun um að gefa út plötu með lögum eftir Victor Jara og Violeta Parra. Það hefði verið magnað að heyra því seiðmögnuð tónlist Lhösu (afsakið beyginguna) var undir miklum áhrifum frá þeim goðsagnakenndu söngvurum.
Kvöldið eftir tókum við Emilíönu Torrini fyrir. Tilefnið var að sjálfsögðu betra: Hún er með þrenna tónleika í febrúar. Við rétt gátum reddað okkur fínum miðum framarlega á síðustu tónleikana, tveimur stökum, því allir samliggjandi miðar annars staðar en á jaðrinum eru uppseldir. En þetta verður bara gaman. Ætli við mætum bara eins og tvær ókunnugar manneskjur og gjóum svo augum hvort til annars, kynnumst smám saman og förum svo saman heim að tónleikum loknum :-)
Eftir að hafa hlustað ótæpilega á allmargar plötur Emilíönu datt mér í huga að svissa yfir á eitthvað allt annað og datt inn á hljómsveitina Jeff Who? Ekki veit ég hvort mikið er varið í það sem þeir gáfu út í fyrra en fyrstu plötuna þeirra hef ég lengi haldið upp á. Hún kom út 2006 og var kokhraust eftir því. Það rann upp fyrir mér hvað þessi tónlist var ótrúlega lýsandi fyrir tíðarandann sem þá var í gangi. Góðærið var í algleymingi. Hlustið bara á sælukennt sjálfstraustið og ómengaða sigurvímuna í þessu lagi, sem enginn kæmist upp með að semja í dag: Barfly .
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli