föstudagur, janúar 22, 2010

Pæling: Haiti-hörmungarnar

Ég hef nú breytt fyrirsögn síðustu færslu því mér brá seinna sjálfum í brún við að sjá "Hörmungardagur" á mínu eigin bloggi þegar raunverulegar hörmungar eiga sér stað úti í heimi.

Ég held að fólk geri sér almennt ekki fyrir því hvað jarðskjálftar eru hryllilegar hamfarir. Ekki bara það að fólk skuli látast í hundraðatali, þúsundatali eða tugþúsundatali og kremjast heldur ósnyrtilega. Það er eftirleikurinn sem er svo skelfilegur. Það tilheyrir reyndar svona hörmungum að farsóttir og pestir breiðast út og glundroðinn almennt skapar svigrúm fyrir glæpi. Þannig er það líka eftir flóðbylgjur og flóð. Jarðskjálftar eru hins vegar sér á parti með það hversu hægt fólk deyr og einangrað, ef það lifir af fyrstu mínúturnar yfir höfuð. Hugsum okkur það að grafast undir, hugsanlega klemmdur, og sjá ekki handa sinna skil í rými sem er takmarkað og mögulega aðþrengt. Kannski heyrir maður í röddum hinum megin. Kannski ekki. Það geta ekki allir látið vita af sér. Að því leytinu til minnir þetta kannski að vera buslandi úti á rúmsjó og geta ekki veifað nóg "hátt" til skips sem sést í fjarlægð. Það má líka líkja aðþrengdri aðstöðunni við að lenda í snjóflóði að öðru leyti en þvi að þú átt möguleika á að lifa lengur við skilyrði sem eru líkamanum hliðhollari. Hér er ekki ofkæling sem dregur mátt úr líkamanum heldur þorstinn. En sú staðreynd að maður hefur möguleika á að lifa talsvert lengi undir rústunum er í sjálfu sér skelfileg og geriri jarðskjálfta svo hryllilega. Fjöldi manna er fastur undir braki sem líklegt til að mjakast til við eftirskjálfta - og þeir eru alltaf á næsta leyti. Önnur skelfileg tilhugsun er að fórnarlambið undir brakinu getur ekki varið sig gagnvart sníkjudýrum eins og rottum sem líkleg eru til að gera sér mat úr aðstæðum. Eldur er síðan enn einn ógnvaldurinn. Sérstaklega ef húsið er úr timbri. Menn vita þá kannski af eldinum, heyra skelfingaróp af götunni, en geta sig hvergi hrært. Þeir eru bara inni í bálkesti án þess að geta hreyft legg né lið. Og hver er vonin við slíkar aðstæður? Kannski er sprautað á húsið? Þá eru hins vegar allar líkur á að þeir sem liggja undir húsinu drukkni. Að lokum er mögulegt að maður sé innikróaður en óskaddaður við heppilegar aðstæður, eins og fólkið sem fannst í grænmetisdeildinni í stórmarkað á Haítí. Á slíkum stöðum getur maður lifað lengi. Getur verið að jarðýturnar, sem á endanum hreinsa brakið, drepi fjölda manna? Hvað þarf að líða langur tími til að útiloka það?

Allt þetta er mögulegt, en einangrunin hlýtur að vera einna skelfilegust. Kviksetning í þúsundatali. Sú tilhugsun fær mann til að engjast um af vanlíðan.

Engin ummæli: