laugardagur, apríl 30, 2005

Pæling: Útreiknaður aksturskostnaður

Ok. Ég hef aðgang að bíl og rek hann með öllum þeim fasta tilkostnaði sem það kallar á. Megnið af þessu er óháð akstri. Burt séð frá ærnum fastakostnaði veltir maður því stundum fyrir sér hvort það sé þess virði að fara á bíl tiltekna leið þegar maður getur allt eins stokkið upp í strætó (mér líkar ágætlega í strætó, svona til tilbreytingar). Ef maður vegur og metur "vagninn" gagnvart "skrjóðnum" þá er gott að geta borið strætófargjaldið (fram og til baka) saman við útlagðan bensínkostnað.

Af hverju minnist ég á þetta hér? Jú, það er vegna þess að ég uppgötvaði um daginn að það er mun auðveldara að reikna þennan kostnað út en ég hélt. Þetta er spurning um að geta áttað sig á fjölda þeirra bensínlítra sem bíllinn eyðir á hvert hundrað ekinna kílómetra, sjá síðan í hendi sér þá vegalengd sem ekin er og margfalda með upphæð á hvern lítra sem fara í ekna vegalengd.

Stærðirnar sem margfaldaðar eru saman eru þessar:

x lítrar / 100 km.

fj. km. / (1)

100 kr. / lítrinn

Ef grannt er skoðað reynist útreikningurinn auðveldur þökk sé snyrtilegri upphæð hvers bensínlítra (þ.e. sléttar hundrað krónur, +/-5 kr.). Þetta þýðir að hundraðkallarnir hér að ofan eyða hvorum öðrum, eins og reyndar lítratáknið og kílómetratáknið. Þá sitjum við uppi með það sem er feitletrað hér að ofan, eða:

x (fjölda lítra sem fara í hvert hundrað kílómetra) margfaldað með fj. ekinna kílómetra og fáum út verð í krónum.

Dæmi: Ef bílllinn minn eyðir 13 lítrum á hundraðið og fer 40 km leið þá kostar aksturinn 13 x 40 eða 520 krónur. Ótrúlega auðvelt. Gleymum bara ekki því að í hverjum spotta er fólgið dulið slit sem langsóttara er að reikna út í krónum hér og nú. Það má því líta á þessa útkomu sem lágmarkskostnað. Óneitanlega væri gaman að fá þumalputtareglu fyrir því hversu mikil upphæð bætist við hlutfallslega gegnum slit.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Matur: Hvítlauksrækjur

Fyrst ég minntist á hvítlaukslausan pastarétt í síðustu færslu get ég ekki stillt mig um að skella fram lauslegri beinagrind að hvítlauksorgíu sem Vigdís blandaði ofan í okkur um daginn. Ekki þekki ég smáatriðin en þetta er víst ósköp einfalt. Munnurinn á eftir að loga í hvítlauk, og það er gott :-)

2 heilir hvítlaukar (ekki rif, heldur heilir hausar)
1 stór dós af "Classic Italian" tómatblöndu frá Hunt´s (eða 2 venjulegar dósir)
1 peli rjómi
1 búnt af ferskri steinselju
500 gr. rækjur

Þetta mallar allt í fremur stuttan tíma. Rækjurnar koma bara í lokin svo þær verði ekki seigar. Muna bara að láta þær þiðna með góðum fyrirvara.

Já, og hrísgrjón. Ekki gleyma þeim. Eðal kássa með ristuðu brauði.

Mmmm.... hvítlaukur! :P

Matur: Pasta með tvöfaldri sósu

Hér kemur pastaréttur sem kom okkur Vigdísi á óvart fyrir það að vera bæði hvítlaukslaus og blanda saman ostasósu og tómatlagaðri sósu.

1. Fyrst er pastað soðið (ca. 300 g.). Ath. uppskriftin tiltók 500 g. en okkur fannst það of mikið þegar allt kom til alls.

2. Hitið rjóma (2 dl.) í potti, bætið 2 eggjarauðum út í ásamt rifnum osti (50 g.). Hrærið vel þar til osturinn bráðnar. Ekki láta sjóða.

3. Blandið sósunni saman við soðið pastað.

4. Sneiðið 1 blaðlauk, 2-3 sellerístilka og rífið 1 stóra gulrót.

5. Mýkið grænmetið í potti með matarolíu. Hellið úr 1 dós af tómötum ásamt 1 dl. kjötkrafti (eða öðrum krafti).

6. Kryddið með 1 tsk. af óreganó og 1 tsk. af timjan. Salt og pipar eftir smekk. Sjóðið í um 10 mínútur.

7. Sneiðið sveppi (200 g.) og bætið út í. Sjóðið í nokkrar mínútur í viðbót.

8. Blandið að endingu rauðu grænmetissósunni saman við ostapastað.

Auðvitað gott með hvítlauksbrauði, ferskum agúrkubitum eða kotasælu og svoleiðis.


(Upprunalega uppskrift má finna í uppskrifamöppunni frá Vöku-Helgafelli "Nýir eftirlætisréttir" í pastaréttaflokki undir heitinu "Pastaskál með eggjarjóma")

Fréttnæmt: Ýmis uppbrot hversdagsins

Ekki er margt títt í þetta skiptið. Við Vigdís höfum þó kryddað hversdagsamstrið með uppákomum af ýmsu tagi. Á laugardaginn var fórum við á kórtónleika í Langholtskirkju þar sem Skagfirska söngsveitin kyrjaði með einsöngvurum. Það voru að mörgu leyti vel heppnaðir tónleikar, en misjafnir. Fljótlega á eftir fórum við í myndarlegt innflutningspartí í Álfheimum þar sem Jón Már og Margrét eru til húsa. Þar var saman kominn skemmtilega samansettur hópur fólks sem þekktist lítið sem ekkert fyrir. Þegar svona lagað hristist saman ganga partíin vel upp. Þannig var helgin, en í gær skelltum við okkur á Rauða ljónið að blanda geði við Liverpool og Chelsea aðdáendur. Baráttuleikur án marka. Spurning hvort við nennum að elta liðin á ljónið eftir viku. Þetta er ekki ýkja aðlaðandi staður.

laugardagur, apríl 23, 2005

Pæling: Yfirhugtök og undirhugtök í orðadæmum

Alla daga glími ég í vinnunni við það að útskýra tiltölulega einfalda hluti eða reyni að koma nemendum á bragðið með námsefnið með því að gera það meira aðlaðandi. Í stærðfræðinni sá ég meðal annars hversu fráhrindandi orðadæmin eru: Ef þú átt tvo tómata og einhver gefur þér einn tómat í viðbót, hvað áttu þá marga tómata? Væri ekki skemmtilegra að notast við líflegra og fjölbreytilegra mál? Hægt væri að kenna krökkunum á yfirhugtök og undirhugtök í leiðinni með eftirfarandi hætti: Ef þú átt þrjá bræður og tvær systur, hvað áttu þá mörg systkini? Eða tökum lífríkið sem dæmi: Þú sérð fjórar lóur úti í garði og þrjá skógarþresti. Hvað eru margir fuglar samtals í garðinum? Þetta er miklu eðlilegra. Við lendum nefnilega sjaldnast í því að telja eitthvert einangrað fyrirbæri og fáum svo skyndilega í hendur ný eintök af því (nema við séum beinlínis að stunda kaup og sölu á einhverju, eða að lána, skila og svo framvegis). Langoftast þegar við stöndum okkur sjálf að því að telja hluti umhverfis okkur er um að ræða einhvers konar flokkunarferli. Hugtakamyndun og talning eru yfirleitt samhangandi aðgerðir því við erum að reyna að henda reiður á umhverfinu með því að telja og flokka sundur eða saman. Stundum erum við með mörg eintök af sama fyrirbæri en við setjum það í mismunandi bása með því að lýsa þeim nánar: Ég á tvo heila bíla og þrjá bilaða, hvað á ég marga bíla alls. Einnig mætti taka tímahugtak fyrir með svipuðum hætti: Við erum búin að vera þrjá daga í þorpinu, fjóra daga á göngu og einn dag í borginn. Hvað er langt síðan við lögðum af stað? Þetta eru ekki sams konar bílar eða dagar þegar grannt er skoðað.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Upplifun: Kvöldstund í Kópavoginum

Ég heyrði í Einari vini mínum um daginn og hafði þá ekki heyrt í honum í tæpt ár. Í ljósi þriggja mánaða reglunnar (sem ég skrifaði um í síðustu færslu) hefði ég vel getað séð fyrir mér einhverjar sviptingar á þeim tíma sem liðinn var en þó ekki eins miklar og raun bar vitni. Á þessu hálfa ári tókst þeim Sólveigu að fæða barn án þess að ég hefði haft hugmynd um að það væri á leiðinni og á sama tíma veiktist móðir Einars alvarlega og lést langt fyrir aldur fram. Það var kominn tími til að heimsækja hann með vöggugjöf og minningarorð í farteskinu ásamt hvítum blómum sem tákn um birtu og von. Það kom mér merkilega á óvart þessa kvöldstund í Kópavoginum hvað lítið hafði samt breyst. Við héldum áfram að spjalla um hversdagslega hluti og nörtuðum í ljúffengt góðgæti inn á milli (Einar dró fram marineraðan svartfugl úr ísskápnum og snöggsteikti tvær bringur til að smakka). Áformaðar byggingaframkvæmdir á Álftanesinu voru reyndar grandskoðaðar ásamt teikningum að nýju húsi sem þau ætla sér að byggja á næstunni. Ég naut þess að fara í smá ferðalag um framtíðaríbúðina þeirra í huganum, enda með mikinn áhuga á arkítektúr. Að lokum kvöddumst við á nokkuð táknrænan hátt með því að ég skutlaðist niður á bensínstöð fyrir hann eftir Morgunblaðinu (þar voru minngargreinar um móður hans) á meðan Einar var bundinn íbúðinni yfir Sædísi litlu sofandi.

Pæling: Hvað er eiginlega að frétta?

Hversu lengi getur maður verið sambandslaus við vini sína og kunningja án þess að þurfa að hafa verulega fyrir því að átta sig á lífi þeirra þegar maður kemur til baka? Á yngri árum var þetta ekkert mál. Það gerðist fátt svo markvert í lífi unglings að ekki væri hægt að taka upp þráðinn eins og frá var horfið. Ég er hins vegar að átta mig á því sífellt betur þessa dagana að hálft ár er langur tími á þeim árum sem fólk er að koma undir sig fótunum, ferðast eða stofna fjölskyldu. Allt í kring eru börn að fæðast, fólk að flytjast búferlum, atvinnuástandið sviptingasamt og ættingjar að veikjast alvarlega. Það að láta reka á reiðanum á ekki lengur við því á einu ári getur landslagið gjörbreyst. Hvað ætli sé eðlilegasti lágmarkspúlsinn til að hafa samband án þess að það sé uppáþrengjandi (við þurfum öll okkar þögn líka)? Það fer eftir aðstæðum og eðli vináttunnar en þrír mánuðir ættu að duga til að halda þræðinum óslitnum. Þetta er ekki svo galin þumalputtaregla ef samtalið á að hefjast á hinum uggvænlegu orðum "hvað er eiginlega að frétta?"

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Daglegt líf: Vinnutörn og Nasa.

Eins og ég lofaði fóru fyrstu tvær vikurnar hér heima í að vinna aukavaktir á sambýlinu. Lítill tími hefur gefist til frístunda. Bloggið hefur setið alveg á hakanum. Við Vigdís skelltum okkur reyndar á athyglisverða tónleika á Nasa fyrir tæpri viku síðan. Þá kynntu Trabant nýja plötu með miklum fögnuði og látum. Að öðru leyti höfum við bara reynt að slaka á milli vinnutarna. Í næsta mánuði verðum við líklega komin á réttan kjöl á ný.

föstudagur, apríl 08, 2005

Upplifun: Megas LX

Konunglegt brúðkaup á morgun. Jarðarför í Vatikaninu í dag. Megas sextugur í gær. Þrír sögulegir dagar í röð og aðeins einn þeirra sem varðar mig nokkuð. Afmælistónleikar Megasar í Austurbæ voru haldnir í gær og þar var saman kominn ótrúlega fjölskrúðugur hópur listamanna. Nöfnin Súkkat, Valgeir Guðjónsson, Funkstrasse, Barnakór Biskupstungna, Hjálmar, KK, Jón Ólafsson og Trabant gáfu til kynna þá veislu sem var í vændum var ásamt hefðbundnari röddum Ragnheiðar Gröndal, Ellenar Kristjáns, Pálma Gunnars, Geirfuglanna og Heru. Allt var í bland og það var við hæfi - bundið inn í einn flottan afmælispakka af Möggu Stínu sem söng upphafs og lokalag á einfaldan en látlausan hátt - Fílahirðirinn frá Súrin og Fátækleg kveðjuorð (til) Megasar sem var vant við látinn í Köben.

Tónlist Megasar spannar óhemju vítt svið og manni fannst allir þessi flytjendur finna sinn eigin tón. Aðeins einn flytjenda af um tuttugu flutti Megas á hefðbundinn hátt, en hinir teygðu tónlistina á alla hugsanlega kanta frá blús, til reggítónlistar með viðkomu í barnslegum talsöng, magnaðri kassagítarárás og klassískum söng við barnakórsbakraddir. Funkstrasse tóku til að mynda Paradísarfuglinn á mjög hægu og drungalegu tempói með rödd úr iðrum jarðar. Það snarvirkaði eins og annað. Trabant fluttu svo magnaða rafhljómkviðu um hin Björtu borgarljós að maður fékk í magann. Lag eftir lag var maður gáttaður á færni tónlistarmannanna sem þarna komu fram en ekki síður styrktist aðdáunin á lífsverki Megasar. Ég á ekki orð yfir það hvað tónleikarnir voru vel heppnaðir og lögin vel valin. Ekkert fatlafól eða Esjan sjúklega. Engar Reykjavíkurnætur né nokkuð verið að spá í neinn. Bara djúpstæðir Megasarafkimar fluttir af þvílíkum bravúr. Ég fór stoltur og er enn yfir að hafa orðið vitni að þessum viðburði.

sunnudagur, apríl 03, 2005

Lestur: Eleven Minutes e. Coehlo

Ég minntist á það á leiðinni út að mig vantaði bara bók til að glugga í á sundlaugarbakkanum. Þessi bók skilaði sér fljótlega. Ég grúskaði í lítilli verslun sem selur dagblöð frá ýmsum löndum (International press) og sá þar höfund sem ég kannaðist við, Paolo Coelho. Hann skrifaði "the Alchemist" sem fór sigurför um heiminn fyrir um fimmtán árum. Ég keypti hana á sínum tíma á spænsku af því höfundurinn er portúgalskur (þýðingin ætti því að standa nærri upprunanum) en ég hef einhvern veginn ekki haft mig í það að lesa hana (kannski ofmetið spænskukunnáttuna). En núna blasti við nýjasta bókin hans, Eleven Minutes og ensk þýðing engin hindrun í þetta skiptið. Þetta er ótrúleg bók. Hún fjallar um kynlíf frá öllum hugsanlegum hliðum með mjög hispurslausum frásögnum. Fyrir það eitt er bókin stórmerkileg og fróðleg. Undir niðri er hins vegar verið að glíma við hamingjuleitina á óhefðbundinn hátt, ástina, sársaukann (líkamspíslir), firringu (vændi), girnd, og kúnstina að njóta þess einfalda með því að efla skilningarvitin. Þessi bók kom mér svo oft á óvart að mér leið eins og á ævintýralegu ferðalagi í hvert sinn sem ég opnaði bókina.

Upplifun: Flamengó

Um viku áður en við Vigdís fórum til Kanarí skelltum við okkur á Nasa og fylgdumst með undarlegum gjörningi. Þar var saman kominn fjögurra manna listagrúppa frá Barcelóna sem flutti svokallað elektróflamengó. Þetta var hálfgerð blanda af raftónlist og flamengótónlist sem átti sér stað á leiksviði, með leikmunum, borði og stólum, rétt eins og leikþáttur. Þeir sem ekki voru að flytja tónlist eða dansa þá stundina dunduðu sér við að drekka rauðvín eða slappa af í sófanum eins og þeir væru heima hjá sér uppi á sviði. Þarna var kynngimagnaður dansari sem spann í kringum hefðbundinn flamengódans, hás söngkona sem hvæsti á milli þess sem hún reykti sígarettur með leikrænum tilburðum og rafdútlarar að fikta í græjum á bak við. Ekta svona arty-farty útgáfa af flamengó. Með þetta í huganum brosti ég í sýningarsal hótelsins okkar á Kanarí nákvæmlega viku seinna. Þá horfðum við á túristasýningu af tiltölulega hefðbundnum flamengó. Tónlistin var af bandi en dansararnir voru færir og flottir. Samt svolítið óekta. Ég hugsaði með mér hvað þetta voru ólíkar útgáfur af sama fyrirbærinu. Ég átti ekki von á að finna milliveginn neins staðar á Kanarí, alvöru flamengó með ástríðu og tilfinningahita, því túrisminn tröllríður þar öllu sem kalla mætti upprunalegt. Ég rakst þó í lítilli verslun á myndarlega endurútgáfu af gömlum klassískum flamengóplötum með Paco de Lucía og Camarón de la Isla. Þar fann ég milliveginn eins og hann gerist bestur.

laugardagur, apríl 02, 2005

Ferðasaga: Staðir sem við heimsóttum

Við höfðum það sem sé voða gott í sólinni og pössuðum upp á að slaka vel á og borða góðan mat. Ljúfa lífið. Til að brjóta þetta upp fórum við hins vegar inn á milli í ferðalög um eyjuna. Eftirminnilegust var skipulögð rútuferð um eyjuna sem ferðaskrifstofan kallar "Fegurð Gran Canaria". Farið var til margra snoturra smáþorpa, meðal annars til fallega þorpsins með skuggalega nafnið, Teror. Þar voru sérstaklega skoðaðar útskornar svalir sem þykja eitt helsta einkenni á byggingarstíl eyjanna. Við Vigdís létum það hins vegar hjá líða og héldum okkur á litlum lókal pöbb og skoðuðum mannlífið. Rólyndis bær. Frá Teror fórum við svo til bæjarins Firgas sem hafði að geyma líklega fallegustu götumynd sem ég hef séð. Þar seytlar manngerður lækur niður hallandi göngugötu. Ótrúlega smekklegt að mínu mati. Í þessari sömu ferð var staldrað við fyrir ofan geysimagnaðan sprengigíg sem minnti mann rækilega á skyldleika Kanarí við Ísland.

Þetta var myndarlegasta ferðin okkar um eyjuna en við skoðuðum líka nærliggjandi hafnarbæ sem minnti óneitanlega á bryggjuhverfin sem eru reist víða á Íslandi um þessar mundir. Bærinn heitir Mogán og var hannaður fyrir örfáum áratugum af mikilli smekkvísi. Þetta er mjög vinsæll ferðamannastaður. Helsta skylda ferðamanna á Kanarí er hins vegar að rölta yfir sandhólana á Maspalomas. Þetta er nokkurra ferkílómetra útgáfa af Sahara sem vekur undrun þeirra sem hana sjá, rétt eins og kanarísk útgáfa af Central Park, heillandi sandauðn mitt í borgarlandslaginu.

Hún leynir því talsvert á sér eyjan. Hún er afar hálend miðað við stærð og býður upp á afar fjölbreytt landslag og lífríki. Vegna einangrunarinnar er flóran alveg einstök. Margar plantanna finnast hvergi annars staðar. Hérna er frábær síða fyrir þá sem vilja kynna sér það.

Ferðasaga: Hótelið og veitingarhúsin

Hótelið
Við gistum á hótelinu Beverly Park. Þetta er þriggja stjörnu hótel með litlum og nettum herbergjum, sjónvarpi og baði en engum kæli (það þótti okkur ókostur). Við hrifumst af garðinum í kringum hótelið og dvöldum mikið þar við að dýrka sólina með þægilegan nið úr gosbrunni í eyrunum. Garðurinn var virkilega vel hannaður (sjá loftmynd). Hann teygði sig eftir endilöngu hótelinu og bauð upp á afvikna staði þar sem hægt var að hvílast en einnig upp á meira skvaldur kringum sundlaugina (þar var alltaf líf í tuskunum). Við héldum okkur meira hlémegin. Þarna á milli var nettur bar með ýmiss konar léttum veitingum, þar á meðal patatas fritas (franskar kartöflur) og þjóðarrétt Kanaríbúa, svokallaðar krumpaðar kartöflur eða papas arrugadas (eins konar saltsoðnar smákartöflur með hýði, bornar fram með sterkri Mojo-sósu). Meira um þær seinna.

Hótelið var frábærlega staðsett á jaðri ensku strandarinnar, rétt frá lítilli snoturri strandlengju og vík sem fáir aðrir en nærliggjandi hótelgestir virtust vita um. Sjálft hótelið var að mestu leyti ágætt og það var sérlega öruggt í alla staði. Öryggisverðir gættu þess að óboðnir gestir kæmust ekki inn í garðinn og boðið var að sjálfsögðu upp á pottþétt öryggishólf fyrir helstu verðmæti. Það var því auðvelt að slaka vel á. Ókosturinn við þetta hótel var hins vegar maturinn sem var skelfilega vondur. Allt kjöt og fiskur var þurrt (eins og það hefði verið hitað í skyndi beint úr frystinum) og allt annað sem þurfti að hita eða sjóða (grænmeti og pasta) var vatnsósa og ólystugt. Flest allt var þetta bragðlaust, einhæft og óspennandi. Kvöldverðarhlaðborðið var því miður innifalið í gistingu svo maður freistaðist til þess að borða þar í tvö til þrjú skipti. Við fórum hins vegar óspart aðra daga niður í bæ að borða.

Veitingahúsin
Á ensku ströndinni er fjöldinn allur af frábærum veitingahúsum, flest þeirra mjög ódýr (tví- til þrírétta máltíð fyrir tvo ásamt drykkjum kostar um 3 til 5 þúsund kall). Fyrir þá sem þekkja til eyjanna þá leist okkur best á veitingahúsin La Toja (spænskur staður, frekar dýr), Taipei (austurlenskur), Jade Garden (austurlenskur, frekar ódýr, stundum kallaður "appelsínuöndin" vegna þess hvað sá réttur er vinsæll), Las Brasas (skandinavískur steikarstaður þar sem líka fá má dýrindis fisk, frekar dýr) og að lokum Barbados. Barbados er í sérlegu uppáhaldi hjá mér frá því ég heimsótti eyjarnar fyrir um þremur árum. Í mínum huga er hann hinn fullkomni veitingastaður þar sem unun er að fylgjast með samvinnu þjónanna. Maturinn ódýr og lygilega góður. Þarna borðuðum við daginn sem við komum, en þá átti ég einmitt afmæli, og daginn áður en við fórum heim. Þessi staður rammaði inn ferðalagið í mínum huga en þess á milli vorum við dugleg að prófa nýja staði og urðum sárasjaldan fyrir vonbrigðum.

Fréttnæmt: Heimkoma frá Kanarí

Nú er langt um liðið frá síðustu færslu. Tveggja vikna sólardvöl á Kanarí er náttúrulega skýringin. Það var erfitt að finna tölvuaðstöðu og enn erfiðara að réttlæta langa setu fyrir framan tölvuskerm á meðan sólin skein úti fyrir. Við vorum nefnilega mjög heppin með veðrið. Það var búið að vera kalt vikurnar og mánuðina á undan og þegar við fórum frá Kanarí stefndi í ofsahita á næstunni. Hittum akkúrat á þann tíma þegar veðurguðirnir voru að byrja að rétta úr kútnum. En nú erum við komin heim eftir mikið lúxuslíf og talsverða eyðslu (fylgir það ekki alltaf svona ferðum?). Það verður eflaust erfitt að kúpla sig út úr veitingahúsagírnum og innkaupagleðinni. Ætli það gerist ekki bara með því að vinna fullt af aukavinnu á næstu vikum og þar með slá bæði sparnaðar- og söfnunarflugurnar í einu höggi? Ferðasagan kemur í dag og á morgun í nokkrum skömmtum áður en raunverulegt daglegt líf hefst hér heima. Þetta verður allt flokkað undir eftisþáttum eins og ég hef vanið mig á að gera hingað til.