laugardagur, apríl 02, 2005

Ferðasaga: Staðir sem við heimsóttum

Við höfðum það sem sé voða gott í sólinni og pössuðum upp á að slaka vel á og borða góðan mat. Ljúfa lífið. Til að brjóta þetta upp fórum við hins vegar inn á milli í ferðalög um eyjuna. Eftirminnilegust var skipulögð rútuferð um eyjuna sem ferðaskrifstofan kallar "Fegurð Gran Canaria". Farið var til margra snoturra smáþorpa, meðal annars til fallega þorpsins með skuggalega nafnið, Teror. Þar voru sérstaklega skoðaðar útskornar svalir sem þykja eitt helsta einkenni á byggingarstíl eyjanna. Við Vigdís létum það hins vegar hjá líða og héldum okkur á litlum lókal pöbb og skoðuðum mannlífið. Rólyndis bær. Frá Teror fórum við svo til bæjarins Firgas sem hafði að geyma líklega fallegustu götumynd sem ég hef séð. Þar seytlar manngerður lækur niður hallandi göngugötu. Ótrúlega smekklegt að mínu mati. Í þessari sömu ferð var staldrað við fyrir ofan geysimagnaðan sprengigíg sem minnti mann rækilega á skyldleika Kanarí við Ísland.

Þetta var myndarlegasta ferðin okkar um eyjuna en við skoðuðum líka nærliggjandi hafnarbæ sem minnti óneitanlega á bryggjuhverfin sem eru reist víða á Íslandi um þessar mundir. Bærinn heitir Mogán og var hannaður fyrir örfáum áratugum af mikilli smekkvísi. Þetta er mjög vinsæll ferðamannastaður. Helsta skylda ferðamanna á Kanarí er hins vegar að rölta yfir sandhólana á Maspalomas. Þetta er nokkurra ferkílómetra útgáfa af Sahara sem vekur undrun þeirra sem hana sjá, rétt eins og kanarísk útgáfa af Central Park, heillandi sandauðn mitt í borgarlandslaginu.

Hún leynir því talsvert á sér eyjan. Hún er afar hálend miðað við stærð og býður upp á afar fjölbreytt landslag og lífríki. Vegna einangrunarinnar er flóran alveg einstök. Margar plantanna finnast hvergi annars staðar. Hérna er frábær síða fyrir þá sem vilja kynna sér það.

Engin ummæli: