laugardagur, apríl 02, 2005

Ferðasaga: Hótelið og veitingarhúsin

Hótelið
Við gistum á hótelinu Beverly Park. Þetta er þriggja stjörnu hótel með litlum og nettum herbergjum, sjónvarpi og baði en engum kæli (það þótti okkur ókostur). Við hrifumst af garðinum í kringum hótelið og dvöldum mikið þar við að dýrka sólina með þægilegan nið úr gosbrunni í eyrunum. Garðurinn var virkilega vel hannaður (sjá loftmynd). Hann teygði sig eftir endilöngu hótelinu og bauð upp á afvikna staði þar sem hægt var að hvílast en einnig upp á meira skvaldur kringum sundlaugina (þar var alltaf líf í tuskunum). Við héldum okkur meira hlémegin. Þarna á milli var nettur bar með ýmiss konar léttum veitingum, þar á meðal patatas fritas (franskar kartöflur) og þjóðarrétt Kanaríbúa, svokallaðar krumpaðar kartöflur eða papas arrugadas (eins konar saltsoðnar smákartöflur með hýði, bornar fram með sterkri Mojo-sósu). Meira um þær seinna.

Hótelið var frábærlega staðsett á jaðri ensku strandarinnar, rétt frá lítilli snoturri strandlengju og vík sem fáir aðrir en nærliggjandi hótelgestir virtust vita um. Sjálft hótelið var að mestu leyti ágætt og það var sérlega öruggt í alla staði. Öryggisverðir gættu þess að óboðnir gestir kæmust ekki inn í garðinn og boðið var að sjálfsögðu upp á pottþétt öryggishólf fyrir helstu verðmæti. Það var því auðvelt að slaka vel á. Ókosturinn við þetta hótel var hins vegar maturinn sem var skelfilega vondur. Allt kjöt og fiskur var þurrt (eins og það hefði verið hitað í skyndi beint úr frystinum) og allt annað sem þurfti að hita eða sjóða (grænmeti og pasta) var vatnsósa og ólystugt. Flest allt var þetta bragðlaust, einhæft og óspennandi. Kvöldverðarhlaðborðið var því miður innifalið í gistingu svo maður freistaðist til þess að borða þar í tvö til þrjú skipti. Við fórum hins vegar óspart aðra daga niður í bæ að borða.

Veitingahúsin
Á ensku ströndinni er fjöldinn allur af frábærum veitingahúsum, flest þeirra mjög ódýr (tví- til þrírétta máltíð fyrir tvo ásamt drykkjum kostar um 3 til 5 þúsund kall). Fyrir þá sem þekkja til eyjanna þá leist okkur best á veitingahúsin La Toja (spænskur staður, frekar dýr), Taipei (austurlenskur), Jade Garden (austurlenskur, frekar ódýr, stundum kallaður "appelsínuöndin" vegna þess hvað sá réttur er vinsæll), Las Brasas (skandinavískur steikarstaður þar sem líka fá má dýrindis fisk, frekar dýr) og að lokum Barbados. Barbados er í sérlegu uppáhaldi hjá mér frá því ég heimsótti eyjarnar fyrir um þremur árum. Í mínum huga er hann hinn fullkomni veitingastaður þar sem unun er að fylgjast með samvinnu þjónanna. Maturinn ódýr og lygilega góður. Þarna borðuðum við daginn sem við komum, en þá átti ég einmitt afmæli, og daginn áður en við fórum heim. Þessi staður rammaði inn ferðalagið í mínum huga en þess á milli vorum við dugleg að prófa nýja staði og urðum sárasjaldan fyrir vonbrigðum.

Engin ummæli: