Hér kemur pastaréttur sem kom okkur Vigdísi á óvart fyrir það að vera bæði hvítlaukslaus og blanda saman ostasósu og tómatlagaðri sósu.
1. Fyrst er pastað soðið (ca. 300 g.). Ath. uppskriftin tiltók 500 g. en okkur fannst það of mikið þegar allt kom til alls.
2. Hitið rjóma (2 dl.) í potti, bætið 2 eggjarauðum út í ásamt rifnum osti (50 g.). Hrærið vel þar til osturinn bráðnar. Ekki láta sjóða.
3. Blandið sósunni saman við soðið pastað.
4. Sneiðið 1 blaðlauk, 2-3 sellerístilka og rífið 1 stóra gulrót.
5. Mýkið grænmetið í potti með matarolíu. Hellið úr 1 dós af tómötum ásamt 1 dl. kjötkrafti (eða öðrum krafti).
6. Kryddið með 1 tsk. af óreganó og 1 tsk. af timjan. Salt og pipar eftir smekk. Sjóðið í um 10 mínútur.
7. Sneiðið sveppi (200 g.) og bætið út í. Sjóðið í nokkrar mínútur í viðbót.
8. Blandið að endingu rauðu grænmetissósunni saman við ostapastað.
Auðvitað gott með hvítlauksbrauði, ferskum agúrkubitum eða kotasælu og svoleiðis.
(Upprunalega uppskrift má finna í uppskrifamöppunni frá Vöku-Helgafelli "Nýir eftirlætisréttir" í pastaréttaflokki undir heitinu "Pastaskál með eggjarjóma")
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli