fimmtudagur, apríl 21, 2005

Pæling: Hvað er eiginlega að frétta?

Hversu lengi getur maður verið sambandslaus við vini sína og kunningja án þess að þurfa að hafa verulega fyrir því að átta sig á lífi þeirra þegar maður kemur til baka? Á yngri árum var þetta ekkert mál. Það gerðist fátt svo markvert í lífi unglings að ekki væri hægt að taka upp þráðinn eins og frá var horfið. Ég er hins vegar að átta mig á því sífellt betur þessa dagana að hálft ár er langur tími á þeim árum sem fólk er að koma undir sig fótunum, ferðast eða stofna fjölskyldu. Allt í kring eru börn að fæðast, fólk að flytjast búferlum, atvinnuástandið sviptingasamt og ættingjar að veikjast alvarlega. Það að láta reka á reiðanum á ekki lengur við því á einu ári getur landslagið gjörbreyst. Hvað ætli sé eðlilegasti lágmarkspúlsinn til að hafa samband án þess að það sé uppáþrengjandi (við þurfum öll okkar þögn líka)? Það fer eftir aðstæðum og eðli vináttunnar en þrír mánuðir ættu að duga til að halda þræðinum óslitnum. Þetta er ekki svo galin þumalputtaregla ef samtalið á að hefjast á hinum uggvænlegu orðum "hvað er eiginlega að frétta?"

Engin ummæli: