laugardagur, apríl 30, 2005

Pæling: Útreiknaður aksturskostnaður

Ok. Ég hef aðgang að bíl og rek hann með öllum þeim fasta tilkostnaði sem það kallar á. Megnið af þessu er óháð akstri. Burt séð frá ærnum fastakostnaði veltir maður því stundum fyrir sér hvort það sé þess virði að fara á bíl tiltekna leið þegar maður getur allt eins stokkið upp í strætó (mér líkar ágætlega í strætó, svona til tilbreytingar). Ef maður vegur og metur "vagninn" gagnvart "skrjóðnum" þá er gott að geta borið strætófargjaldið (fram og til baka) saman við útlagðan bensínkostnað.

Af hverju minnist ég á þetta hér? Jú, það er vegna þess að ég uppgötvaði um daginn að það er mun auðveldara að reikna þennan kostnað út en ég hélt. Þetta er spurning um að geta áttað sig á fjölda þeirra bensínlítra sem bíllinn eyðir á hvert hundrað ekinna kílómetra, sjá síðan í hendi sér þá vegalengd sem ekin er og margfalda með upphæð á hvern lítra sem fara í ekna vegalengd.

Stærðirnar sem margfaldaðar eru saman eru þessar:

x lítrar / 100 km.

fj. km. / (1)

100 kr. / lítrinn

Ef grannt er skoðað reynist útreikningurinn auðveldur þökk sé snyrtilegri upphæð hvers bensínlítra (þ.e. sléttar hundrað krónur, +/-5 kr.). Þetta þýðir að hundraðkallarnir hér að ofan eyða hvorum öðrum, eins og reyndar lítratáknið og kílómetratáknið. Þá sitjum við uppi með það sem er feitletrað hér að ofan, eða:

x (fjölda lítra sem fara í hvert hundrað kílómetra) margfaldað með fj. ekinna kílómetra og fáum út verð í krónum.

Dæmi: Ef bílllinn minn eyðir 13 lítrum á hundraðið og fer 40 km leið þá kostar aksturinn 13 x 40 eða 520 krónur. Ótrúlega auðvelt. Gleymum bara ekki því að í hverjum spotta er fólgið dulið slit sem langsóttara er að reikna út í krónum hér og nú. Það má því líta á þessa útkomu sem lágmarkskostnað. Óneitanlega væri gaman að fá þumalputtareglu fyrir því hversu mikil upphæð bætist við hlutfallslega gegnum slit.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er alltof einfaldað hjá yður, þarft að bæta við bæði föstum og breytilegum kostnaðarliðum ef þú ætlar að nálgast sannleikann í þessum efnum.
kv
Hagfræðingurinn