fimmtudagur, maí 05, 2005
Fréttnæmt: Sól, Sonic Youth og Oprah.
Sól og sumar. Við Vigdís skelltum okkur á Ylströndina og nutum þar veitinga á verönd. Ég fletti Mogganum og las þar pistil Svanhildar Hólm þar sem hún lýsti því hvernig Oprah togaði með leiðandi spurningum upp úr henni þau svör sem hún vildi fá í þáttinn sinn, klippti svo allt úr samhengi og sýndi aðeins lítið brot af viðtalinu. Svei, henni. Hún er greinilega fyrst og fremst andlit á mála hjá markaðsmaskínu risavaxinnar sjónvarpsstöðvar og hver svo sem hennar vilji sjálfrar er þarf hún að leggja sig fram við að fá fram eftirminnilegar yfirlýsingar í fyrirsagnastíl. Sjálfur sannleikurinn er aukaatriði. Hún hríðféll í áliti hjá mér. Þá fletti ég á næstu síðu og fann tilkynningu um að Sonic Youth sé á leið til landsins! Þetta er mesti hvalreki í tónlistarlífi hérlendis síðan Pixies kom í fyrra. Ein af alvöru frumherjum rokksins, og þeir eru enn að gefa úr frábærar plötum. Það er ástæða til að staldra hér aðeins við og velta því fyrir sér hvað tónleikahaldarar eru að gera. Megnið af því sem rekur á fjörur okkar er óttalega jukk, eftirlíkingar eða úr sér gengin ellimenni að spila í eigin "cover"-bandi. Þetta er kannski tilefni til frekari vangaveltna. Uppgjör mitt við tónleikahald landans birtist á heimasíðunni á næstu dögum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli