miðvikudagur, janúar 30, 2008

Upplifun: Stressaður bifvélavirki 3

Nýlega sagði ég frá samskiptum mínum við bifvélavirkja sem breyttist í handrukkara. Ég sleit frásögninni þegar náunginn var nýsestur við hliðina á mér þar sem hann ætlaði að tryggja sér að ég útvegaði peningana. Framhaldið var reyndar ekki eins ískyggilegt og á horfðist á þeirri stundu, en þó ekki án vandræðagangs.

Ég var sem sagt með allt niður um mig (sjá tvær nýlegar bloggfærslur) og gat því ekki andmælt yfirganginum þegar hann hlammaði sér hitt framsætið. Hann vildi tryggja sér að ég slóraði ekkert frekar. Það var þess vegna með semingi sem ég tók fram að ég þyrfti fyrst að koma við heima hjá mér (en ekki í banka). Ég var fyrst núna með auðkennislykilinn í höndunum og hann notaði ég gegnum tölvuna til að færa pening af safnreikningi og yfir á debetkortið. Hann tók þessu með ró og spekt, enda ekki kunnugur tæknilegum bankaviðskiptum eða millifærslum - enda svört viðskipti yfirleitt afgreitt í seðlum.

Á planinu heima bauð ég honum að fylgja mér inn. Hann spurði hvort ég yrði ekki snöggur og ákvað svo að vera um kyrrt eftir að ég talaði um að þetta yrði aðeins örfáar mínútur. Inn fór ég og Vigdís tók á móti mér. Hún var nýbúin að svæfa Signýju (með Hugrúnu grátandi í rúminu í næsta herbergi) og sá mig koma askvaðandi í átt að tölvunni. Þegar ég byrjaði að millifæra minnti hún mig á þá óþyrmilegu tilhugsun að líklega væri takmörk fyrir því hvað ég gæti tekið mikla upphæð út á kortið á einum degi. Hún stakk í leiðinni upp á því að ég fengi meðferðis debetkortið hennar, sem ég gæti líka sett pening á. Þetta var snilld hjá henni. Tvö kort myndu auka líkurnar á að ég gæti borgað alla upphæðina um kvöldið, - í öllu falli tvöfalt hærri upphæð en ella. Ég var í þann mund að hrósa Vigdísi, og stóð með henni nærri anddyrinu, þegar skuggaleg vera birtist í dyragættinni. Ég hafði ekki minnst á það við Vigdísi að kallinn væri úti í bíl þannig að henni brá töluvert. Hurðin var hálfopin og hann smokraði sér bara inn í anddyrið til að ganga úr skugga um hvort ég væri ekki örugglega þarna enn. Sagðist hins vegar bara orðinn leiður á að bíða í bílnum. Ég held að um fimm mínútur hafi liðið frá því ég yfirgaf bílinn (þrátt fyrir tvöfalda millifærslu), þannig að ég var hissa á óþreyjunni. Fyrst hann var þarna ákvað ég hins vegar að nýta tækifærið og minnast á það að ég hefði nýtt tímann til að færa pening á bæði mitt kort og hennar, ef ske kynni að það væri einhver úttektartakmörkun á kortinu. Þar með vissi hann með mér að framhaldið yrði ekki endilega slétt og fellt (og ég fann að hann mátti eiginlega ekki við því).

Þá fórum við af stað til að redda peningunum. Bara mæta á staðinn og ná í peningana. Loksins! Ekkert mál. Við ókum sem leið lá vestur að Eiðistorgi þar sem Glitnir er til húsa. Það var hins vegar dauft um að litast þar. Ekkert líf. Áður fyrr var streymi af fólki inn og út glerhýsið sem geymir bankann og barinn og allt það, bæði á daginn og seint um kvöld. Núna var hins vegar allt lokað. Ég tékkaði á rennihurðinni, á litlu hliðarhurðinni og hvort það væri mögulega rauf fyrir kortið til að hleypa mér inn en allt kom fyrir ekki. Þarna stóð ég eins og litla stúlkan með eldspýturnar, - nema ég hélt á korti. Ég horfði vonsvikinn, og eflaust með tómt augnaráð, til baka í átt að bílnum þar sem kallinn beið. Maður mátti nú ekki við svona bakslögum í ofanálag. Jafnvel svona einföld hversdagsleg aðgerð gekk ekki upp. Ástæðan fyrir luktum dyrunum rann reyndar upp fyrir mér: Rauða ljónið er ekki lengur starfandi og það veldur því að svæðið er eftir lokun Hagkaupa eins og draugaskip um miðja nótt. Þá var um að gera að koma til baka með plan B (eða var það C, D, E....?). Í flýtinum var ég farinn að hugsa langt yfir skammt. Kallinn virtist sýna þessu skilning, sem betur fer, og saman datt okkur í hug að koma við á Hagatorgi.

Við Háskólabíó reyndust vera tveir bankar (óvæntur bónus á ögurstundu): annar við Hótel Sögu og hinn við bíóið. Ég byrjaði á Hótelinu. Kortið rann í gegn ég fékk að velja milli ýmissa upphæða. Sú hæsta var 20. þúsund. Einnig var mögulegt að slá inn upphæð að eigin vali. Það gerði ég að sjálfsögðu, enda nýbúinn að dæla slummu inn á kortið, og var með 85 þúsund króna skuld á bakinu (bókstaflega). Ég fékk hins vegar villuboð um að þetta væri yfir leyfilegum mörkum dagsins. Ég leyfði mér að halda sem snöggvast að það væri vegna þess að hraðbankinn væri tómur eftir daginn. Ég sló inn lægri og lægri upphæð með sömu villuboðum. Á endanum samþykkti ég aumar 20 þúsund krónur. Þær skiluðu sér. Gat hins vegar ekki gert það aftur. Ég beitti þá hinu kortinu með sama árangri. Nú var ég kominn með 40 þúsund plús nokkra þúsund kalla sem við Vigdís höfðum skrapað saman heima. Þá hvarflaði að mér að draga fram Kreditkortið mitt sem ég hafði ekki notað í þessum tilgangi síðan ég var síðast á ferðalagi erlendis. Lykilorðinu var ég hins vegar búinn að steingleyma. Prófaði eitthvað - líklega gamalt og úrelt lykilorð - og bölvaði sjálfum mér í hljóði í smástund fyrir að halda ekki utan um þessar upplýsingar. Kreditkortið hefði getað reddað mér þarna! Ég kom vonsvikinn til baka og sagði frá villuboðunum og að það væri þess virði að tékka á næsta banka. Þar var allt hins vegar í sama lás.

Klukkan var um það bil tíu og við sátum þarna með hálfa upphæðina í seðlum. Það var ljóst að ég myndi ekki geta reddað fleiri seðlum fyrr en daginn eftir og bauðst til þess að vera mættur með peningana strax eftir vinnu næsta dag - eða að ég myndi millifæra restina á reikninginn hans. Hann hugsaði sig vandlega um, greinilega smeykur við vafann og sagði við mig hreint út: Ég veit ekki hvort ég get treyst þér.

Þetta stakk. Ég er vanur að vera talinn frekar traustur náungi. Í þessu tilfelli hafði hraðinn í viðskiptunum sett strik í reikninginn. Ég hafði ekki áttað mig á mikilvægi þess að hafa greiðsluna á staðnum og í seðlum. Það var greinilega ekki nóg að vera fær um að redda því daginn eftir. Millifærsla er líka litin hornauga - hún er ekki eins áþreifanleg, hún er tortryggilegri og jafnframt rekjanleg í bókhaldinu (sem er ekki vinsælt ef maður vill leyna viðskiptunum). Ég hafði líka alltaf gert ráð fyrir því að kallinn treysti mér og tæki það gott og gilt að ég mætti með peninginn daginn eftir þar sem hann hefur átt viðskipti við mig áður, þekkir mig ágætlega, þekkir pabba vel (sem hafði skipt við hann á undan mér), hann veit hvar ég vinn, hver símínn minn er og núna, frá og með þessum degi, veit nákvæmlega hvar ég bý! Það kom mér því eiginlega svolítið á óvart að hann skyldi vantreysta mér svona. Hann hlyti að hafa brennt sig illi í viðskiptum við einhvern á undan mér. Að minnsta kosti reyndi ég að sjá vantraustsyfirlýsinguna í því ljósi. Hann var smeykur við að vera prettaður. Svo naut hann trausts vinnufélagans, sem hann vildi gera upp við strax.

Lendingin var þá þessi: Ég afhenti honum 40 þúsund kallinn og fór heim með hann á bakinu og millifærði á ný - í þetta skiptið yfir á reikninginn hans. Hann stóð þar með mér inni í stofu og gaumgæfði allar færslur. Hann virtist fyrst sannfærast um að allt væri með felldu þegar hann sá að upphæðin á söfnunarreikningnum okkar Vigdísar væri vel rúmlega það sem til þurfti. Við vorum borgunarmenn fyrir viðgerðinni eftir allt saman! Þetta er náttúrulega ansi nærgöngult. Ég var alveg viss um að gamli kallinn væri engin tölvugúrú, annars hefði ég þurft að bægja honum frá mér meðan ég vann verkið. Eftir á minntist hann á að þetta hafi verið athyglisverð athugun hjá honum, því hann hefði ekki komist í kynni við heimabankakerfið áður. Hann talaði eitthvað um að tölvufötlun væri ægileg hjá fólki á hans aldri og virtist yfirgefa heimilið með tiltrú á að peningurinn hafi farið á réttan stað. Ég skutlaði honum svo til baka þangað sem verkstæðið var til húsa (þar sem hann átti eftir að borga vinnufélaganum). Núna var klukkan um það bil hálf ellefu. Þetta rétt slapp - þannig séð - en ég var orðinn örþreyttur á taugum eftir atburðarásina. Bæði spenntur, þreyttur og pirraður yfir því að hafa leiðst út í þessa endaleysu. Ég ákvað á þeirri stundu að læra af þessu og jafnvel skrifa mig frá þessari upplifun svo að ég mynd nú greypa þetta vel í minni. Svona vitleysu á ekki að sópa undir teppi og gleyma því mig langar ekki að endurtaka þetta.

þriðjudagur, janúar 29, 2008

Þroskaferli: Dagbók Gulla?

Ég heyrði Signýju segja "dagbók Gulla" um daginn þegar ég var að baða hana. Mér hlaut að hafa misheyrst því þetta stóðst engan veginn, enda veit hún ekki hvað dagbók er og þekkir engan Gulla heldur. Ég hlustaði betur eftir því sem hún sagði: "Dabógulla" það fór ekki á milli mála. Hún sagði þetta nokkrum sinnum skýrt og horfði á mig spyrjandi eins og ég ætti að vita hvað þetta væri. Ég hugsaði þá til baka og mundi eftir því að um helgina blés sjampóbrúsinn myndarlegri sápukúlu í baðið til hennar. Eftir það hef ég ekki mátt baða hana án þess að framkalla góðan skammt af sápukúlum, henni til óblandinnar ánægju. Í sumar fór hún nefnilega á mis við sápukúluleiki, vegna veikindanna. Við höfðum meira að segja keypt sápukúlustauk (sem var notaður bara einu sinni).

Framburður Signýjar á orðinu "sápukúla" er nokkuð lýsandi fyrir málstöðu hennar. S-ið lýtur í lægra haldi fyrir D-i. Hún biður mig til dæmis um "dala" þegar hún vill "Svala" og segir enn "Diddí" fyrir Hugrúnu (þ.e. "systir"). Einnig hefur F-ið reynst nokkuð erfitt og aftur notast hún við D-ið óspart í staðinn. Fíll verður díll og fugl verður dutl. Ég ætla að gefa þessu sérstakan gaum næstu daga og skrá niður framburð Signýjar á algengustu orðum. Ég segi því óhikað: Meira um þetta seinna.

laugardagur, janúar 26, 2008

Daglegt líf: Heilsa og mataræði Signýjar

Signý var svolítið tæp til heilsunnar núna í vikunni. Á laugardaginn var fékk hún 38 stiga hita, en náði sér fljótt daginn eftir. Við sendum hana í leikskólann en endurmátum ástandið aftur um kvöldið, því þá var hún farin að hósta talsvert (og enn meira um nóttina). Það er stutt síðan hún var með lungnabólgu öðru megin, svo við höfðum vaðið fyrir neðan okkur og héldum henni heima næstu tvo dagana. Á miðvikudaginn fórum við til læknis sem skoðaði hana í bak og fyrir. Hann úrskurðaði hana stálslegna. Hóstinn var bara í hálsinum, sem sagt ekki lungnabólga. Signý fór í leikskólann daginn eftir og hefur verið óvenju hress og þrálátur hóstinn horfið eftir læknisheimsóknina eins og dögg fyrir sólu. Matalystin hefur þar að auki verið sérlega góð. Ég tók eftir því að hún er orðin mun frísklegri núna eftir veikindahrinuna undanfarið. Andlitið er holdmeira og það geislar meira af henni. Ég vona að þetta sé ekki bara ímyndun.

Signý hefur dálæti á ýmsum mat. Núna undanfarið hefur melóna verið í miklu uppáhaldi (og ekki skemmir fyrir hvað það er auðvelt að bera orðið fram). Við reynum að hafa melónu tiltæka flesta daga (þessa appelsínugulu sem er svo meðfærileg). Hún er alltaf sólgin í vínber - svo mjög að ef hún hafnar þeim er það nokkuð áreiðanlegur mælikvarði á veikindi. Rúsínur og seríós hitta alltaf í mark, auðvitað. Svo drekkur hún talsverða mjólk og finnst lífræn jógúrt mjög góð (með jarðarberjabragði eða mangó). Allir þurrkaðir ávextir yfir höfuð virka vel, sérstaklega sem "gulrót" ef hún þarf að borða eitthvað annað (þá læt ég litla þurrkaða bita í skeiðina með). Ferskir ávextir eru líka vinsælir, sérstaklega ef þeir eru ekki of súrir (perur, bananar og gul epli). Öll ber eru étin upp til agna - oftast jarðarber eða bláber. Signý er mjög hrifin af hrísgrjónum, en hafnar yfirleitt kartöflum (eitthvað kannast maður nú við kartöfluandúðina sjálfur. Lengi vel gat maður sjálfur ekki hugsað sér að borða kartöflur, nema sem meðlæti). Annars er hægt að koma aftan að Signýju ef maður býður henni upp á ofnbakaðar kartöflur, eða franskar. Það er hún sólgin í. Svo borðar hún helst ekki kál og er yfir höfuð svolítið skeptísk á grænt safalítið grænmeti. Agúrkur eru hins vegar í góðu lagi. Tómatar og gulrætur líka. "Gúrka" og "gulrót" eru reyndar með fyrstu orðunum sem hún lærði (gúkka og gurró). Það er dagamunur á því hvort Signý er hrifin af fiski. Kjöt borðar hún með góðri lyst en fær það samt mun sjaldnar en fisk (enda er aldrei kjöt á boðstólum þegar ég elda sjálfur). Svo má ekki gleyma kexinu. Ritz-kex og önnu sambærileg ostakex eru prýðilegur ábætir upp á hvern dag. Stundum getur maður alveg gleymt sér og látið Signýju svolgra mjólk og maula kex allan liðlangan daginn (sem bitnar talsvert á matalystinni). Þá er gott að líta á listann hér að ofan og auka fjölbreytnina á ný.

Þroskaferli: Markvissar stöður

Nú er Hugrún farin að hífa sig upp á allt. Hún sýnir mikinn styrk í höndum og er farin að smeygja hnjánum undir sig og standa þannig. Ef hún nær að teygja sig enn lengra upp nær hún að standa með því að halda sér í. Stundum riðar hún til en virðist þó vera að ná góðum tökum á jafnvæginu. í gær var ég með hendurnar allt í kring um hana, en hún stóð samt sjálf. Nú má ekki hafa augun af henni.

laugardagur, janúar 19, 2008

Þroskaferli: Tennur og öflug ömmuleikfimi

Hugrún er ótrúleg. Stuttu upp úr áramótum fór hún að smokra sér út úr festingunni í ömmustólnum og hífa sig úr honum. Það er löngu orðið stórvarasamt að hafa hana þar til lengdar án eftirlits. Núna síðustu dagana hefur hún hins vegar tekið upp á öllu tilþrifameiri leikfimi - hún hífir sig upp af gólfinu og ofan í ömmustólinn aftur. Miðað við hvað hún notar fæturna lítið í þessum tilfæringum (hún kemst upp á hnén) er þetta líklega sambærilegt við það að við myndum smokra okkur upp á bílþak. Hún er ansi sterk í höndunum. Þegar maður hefur hana í fanginu á hún það til að grípa í hálsmálið og hífa sig ofar. Bolirnir teygjast allir til og frá í höndunum á henni.

Svo eru milljón tennur á leiðinni. Ég held ég hafi ekki minnst á það á sínum tíma en í október komu fyrstu tvær tennurnar og annað sett birtist í nóvember. Núna er gómurinn allur á iði og gaman að sjá brosið breytast dag frá degi.

Upplifun: Stressaður bifvélavirki 2

Nú heldur frásögnin af bifvélavirkjanum sem breyttist í handrukkara áfram (sjá næst síðasta póst). Hann var sem sagt kominn fimm mínútur yfir og beið fyrir utan hjá mér, nennti svo ekki að bíða eftir mér þegar hann sá að ég þurfti að græja Signýju í nokkrar mínútur. Þá átti ég að finna hann í bílskúrnum í grenndinni. Óþægileg spenna kringum þetta. Ég kom Signýju fyrir inni í bíl og skóf af bílnum. Þá rann upp fyrir mér að ég hafði lokað bílhurðinni. Ég passa mig alltaf á að gera það ekki því takkinn á það til að síga niður og sjálflæsa bílnum. Ég álasaði sjálfum mér í andartak fyrir að hafa gleymt mér, en var feginn að bílinn var enn ólæstur (vildi ekki hugsa þá hugsun til enda að vera staddur þarna, strandaglópur, hvorki með gemsann né húslykla og með Signýju inni í bílnum). Ég var feginn um stund og ók svo af stað með Signýju (leyfð henni að drekka úr pela í bílnum af því það var enginn tími í næði heima). Mér tókst að fara fram hjá húsinu og fór svo aftur fram hjá í hina áttina áður en ég sá kallinn teygja álkuna á stéttinni þarna á milli. Það vantaði húsnúmer í röðina þannig að það ruglaði mig. Þýddi samt ekkert að útskýra það fyrir honum.

Hann beið svo fyrir utan bílskúrinn með mér eftir að félaginn kæmi úr vinnu. Samtalið svolítið stirt á milli okkar. Spennan virtist snúast um það hjá honum að standa sig gangvart vinnufélaganum. Ég reyndi að sjá það í því ljósi, að minnsta kosti, og taldi mér trú um að hafa ekki tafið þá eftir allt. Svo kom félaginn eftir skamma stund og ég afhenti kallinum lyklasettið. Ég rétt mundi eftir því á síðustu stundu að fjarlægja heimilislyklana áður en ég dró snjósleðann út og gekk heim með Signýju. Við höfðum komið okkur saman um að hafa samband í síðasta lagi tíu, ef ske kynni að verkið drægist til morguns svo ég gæti gert varúðarráðstafanir með far daginn eftir. Ég minntist líka á það hvernig borguninni skyldi háttað og stakk upp á millifærslu. Hann vildi hins vegar fá þetta í seðlum. Ég kinkaði kolli og gekk svo heim með Signýju í góðu veðri. Stutt á milli.

Nú var ég kominn heim, í höfn, og þeir farnir að vinna. Ég var laus allra mála í bili og Signý bara útitekin og frísk eftir sleðaferðina. Þá fór ég að huga að peningunum sem ég átti eftir að redda, kveikti á tölvunni svo ég gæti nú millifært af söfnunarreikningnum yfir á debetkortið. Þá rann upp fyrir mér ansi óþægileg tilhugsun: Bévítans auðkennislykillinn var ennþá á bíllyklakippunni! Klukkan var orðin fjögur og engin leið að millifæra peninginn eftir öðrum leiðum. Ég hringdi strax. Fannst þetta sérlega vandræðalegt enda fannst mér orðið óþægilegt að tala við kallinn. Mér varð líka hugsað til þess að nú væru þeir byrjaðir að vinna og ekki gaman að draga þá frá miðju verki, - kannski undan bílnum. Ég lét símann hringja nokkra stund og lagði svo á. Ég taldi vissara að hann hringdi þegar honum hentaði best eftir að hann sér númerið.

Hálfftima síðar kom Vigdís. Hún sá að ég var ekki alveg rólegur svo ég sagði henni allar sólarsöguna. Hún reyndi að róa mig með því að ég gæti alltaf látið hann fá peningana snemma daginn eftir og að ég hefði að minnsta kosti boðist til að millifæra. Fyrirvarinn var þar að auki naumur. Hún kom hins vegar auga á nýja og ansi óþægilega snurðu á þræðinum: Það er ekki víst að ég geti tekið nema mjög takmarkaða upphæð út á debetkortið í einu! ÚPS!! Hvort það miðaðist við 20, 40 eða 80 þúsund vissi hún ekki. Ég kíkti á netið og sá engar upplýsingar um þetta.

Núna var ég orðinn mjög uggandi yfir því að geta ekki reddað peningunum. Kallinn hafði ekki hringt til baka. Ég ákvað að fara út að skokka, með gemsann á mér. Ég skokkaði fram hjá húsinu og hringdi aftur þar sem ég stóð fyrir utan. Enn svaraði kallinn ekki. Ég eiginlega kunni ekki við að hamra á bílskúrshurðina, enda hafði hann gefið í skyn að þeir myndu vilja vera sem minnst truflaðir enda asnalegt að birtast þarna og biðja um auðkennislykilinn. Svo skokkaði ég minn hring og vonaðist bara til að hann myndi sjá númerið í símanum og hringja fljótlega.

Þegar ég kom heim fór ég að sinna heimilisverkum, búa til mat, baða Signýju og svoleiðis. Þetta tók allt sinn tíma og mér tókst að gleyma mér um stund. Þá hringdi kallinn, upp úr níu. Ég tala við hann kumpánlega fyrst í stað og spyr hvernig gangi, feginn að heyra loksins í honum, þá segir hann: "Við sjáum fyrir endann á þessu". Það fannst mér óþægilegt að heyra. Ég hefði viljað geta skotist eftir peningunum áður en þeir taka saman. Þá hiksta ég á þessari ömurlegu sögu með peningana sem enn voru ekki tilbúnir út af auðkennislyklinum. Ég er eins og fábjáni í símanum. Hann er af gamla skólanum og veit varla hvað ég er að tala um en sér þó stykkið sem hangir á kippunni og biður mig um að koma þá strax.

Þegar hér er komið sögu er Signý að fara upp í rúm og Hugrún enn vakandi. Við erum vön i kjölfar veikindanna að leggjast með henni svo hún sofni hratt og vel. Núna þurfti ég að rjúka út í skyndingu og skilja Vigdísi eftir í frekar óþægilegri stöðu. Hún þarf að vanrækja Hugrúnu á meðan Signý sofnar, - ef hún sofnar, því Hugrún grætur kröftuglega þegar henni er ekki sinnt á kvöldin. En það var ekki um annað að ræða. Ég þurfti að fara og skilja heimilið eftir í hálfgerðu uppnámi. Kallinn hefur náttúrulega enga tilfinningu fyrir því hvað það er óþægilegt að rjúka af heimilinu með svona stuttum fyrirvara, enda tóku menn ekki þátt í uppeldinu í gamla daga.

Núna fannst mér ég vera með bókstaflega allt niður um mig. Mennirnir eru búnir að skila sinni vinnu hratt og vel og ég mæti þeim tómhentur, seint um kvöld, með eintómar afsakanir, hver annarri frumlegri.

Hann var greinileg ósáttur þegar ég kom á svæðið. Bíllinn var kominn út og tilbúinn til notkunar og ég - rétt að fá auðkennislykilinn í hendur. Hann lét í ljós að hann væri ósáttur við að ég skyldi ekki hafa staðið við minn hluta samkomulagsins - hann væri eins og bjáni gangvart vinnufélaganum. Hann var þungur á svip og vissi greinilega ekki hvar hann hafði mig. Ég reyndi að bera fyrir mig að hafa ekki getað komist lengra út af lyklinum (hljómar enn jafn bjánalega), og að ég hafi hringt og hringt. Hann kannaðist við hringingu en náði henni ekki. Fyrirsjáanlega sagðist hann ekki geta séð á símanum sínum hver hringir (algengt fyrir eldri kynslóðir símnotenda). Þarna vorum við patt svo við ræddum þetta ekki frekar. Hann settist hins vegar upp í bílinn farþegarmegin og sagði við mig að við skyldum þá bara redda peningunum.

(meira seinna)





(meira seinna í dag)

Sjónvarpið: Einu sinni var

Við sátum fyrir framan morgunsjónvarpið rétt áðan og skyndilega var næsti liður á dagskrá: "Einu sinni var". Ég átti vídeóspólu tiltæka og gómaði þáttinn. Þetta er geggjað. Ég var einmitt á leiðinni með fyrirspurn til Ríkissjónvarpsins um þennan þátt, því mér fannst fyrir löngu kominn tími á endursýningu. Ég man hvað þetta var framsækin þáttaröð í gamla daga. Það sátu allir límdir fyrir framan sjónvarpið í kringum 1980 (þættirnir voru upphaflega gerðir 1978 í Frakklandi) og fylgdust með framvindu mannkynsins í gegnum Fróða og félaga. Rödd Guðna Kolbeins hljómar enn í kollinum. Það er synd að hann skuli ekki vera notaður á ný í endursýningunni, en mér heyrist nýju raddirnar hins vegar mjög smekklegar. Þær vöndust að minnsta kosti hratt.

Þessir þættir eru svo gamlir að maður átti ekki einu sinni vídeótæki og átti ekki kost á að sjá þættina aftur og aftur. Samt man maður eftir þeim nokkuð glögglega. Núna horfir maður á þetta með Hugrúnu og Signýju. Þær eru heppnar. Þetta er úrvalsefni sem þær hafa aðgang að, í heimsklassa, rétt eins og Snillingarnir sem ég hef áður minnst á. Kennslufræðileg snilld.

Hér á Wikipedia má finna góða umfjöllun um seríuna og á annarri síðu á Wikipedia kemur fram að höfundar þáttanna hafa gefið út fjölmargar sambærilegar þáttaraðir sem ekki hafa verið sýndir hér á landi (nema "Sú kemur tíð" og þáttaröðina um líkamann).

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Upplifun: Stressaður bifvélavirki

Ég lét gera við kúplinguna á bílnum í gær. Það fór vel, viðgerðin sjálf það er að segja, en ég upplifði mig sem glæpamann miðað við atburðarásina sem fór fram.

Ég hringdi í náunga á sunnudaginn sem þekkir Suzuki bíla út og inn. Hann er líka góðkunningi pabba og hefur oft gert við bílinn fyrir hann (pabbi á sem sagt bílinn þó hann sé dags daglega mín megin). Ég hafði sjálfur ágæta reynslu af manninum sjálfur. Hann veit greinilega sínu viti. Þegar ég náði í hann leist honum ágætlega á málið en bað mig um að hringja í aðra staði fyrst og láta þá gera mér tilboð, tala síðan við sig eftir á. Á mánudaginn í hádeginu hringdi ég aftur og sagði að vinnan ein og sér kostaði 60-70 þúsund (og þá á eftir að kaupa kúplingu sem kostar a.m.k. 20 þúsund). Þetta yrði upp undir 100 þúsund kall (þeir smyrja alltaf einhverju ofan á). Hann sagðist geta verið eitthvað ódýrari en það en ætlaði að tékka á félaga sínum (þetta er tveggja manna verk) og athuga hvort hann fyndi ekki góða kúplingu (það er gæðamunur og sú sem hann var með í huga kostaði 35 þúsund og er mýkri en sú sem hinir hefðu látið í bílinn). Þetta var því enn í lausu lofti og við töluðum okkur saman um að ef af þessu yrði myndi viðgerðin a.m.k. ganga fyrir sig í vikunni, að kvöldi til eftir vinnu. Ég ætlaði að hafa samband í hádeginu daginn eftir til að skoða stöðuna þá.

Allt í góðu enn þá.

Síðan er ég heima um kvöldið í ró og næði þegar hann hringir óvænt og rétt svo segir til nafns, en bætir svo við: "85 þúsund kall allt verkið, annað kvöld, klukkan fjögur! Hvernig líst þér á það?" Mér var hálf hverft við því aðdragandinn var svo stuttur og hann snubbóttur í tali. Mér varð aðallega hugsað til þess hvort ég væri eitthvað bundinn eða hvort ég þyrfti á bílnum að halda. Peningana átti ég í banka, og margfalt það. Ég var ekkert bundinn svo ég sagði með semingi að þetta gengi ágætlega upp. Hann útlistaði þá hvar þetta væri til húsa (sem var í nágrenni við mig, í göngufæri, gat ekki verið heppilegra rétt eftir vinnu) - og svo var samtalinu lokið nokkuð snögglega.

Daginn eftir var ég frekar illa sofinn, þurfti að leggja mig í hádeginu (í stað þess að ná í pening, enda var ég með millifærslu í huga allan tímann) og var bundinn vinnu þar til ég rétt náði að sækja Signýju fyrir fjögur. Var kominn heim fimm mínútur í. Þá gríp ég í tómt. Vigdís ekki heima, sem er óvenjulegt. Hún hafði fengið far í Kringluna með Hugrúnu og var þar í góðu yfirlæti. Ég hafði ekki lagt áherslu á það við hana að vera heima um þetta leytið svo ég þurfti að klæða Signýju aftur í útifötin. Úti kyngdi niður snjónum svo það tók sinn tíma að klæða hana vel (og hún byrjuð að suða um mjólk, sem hún fær yfirleitt við heimkomu). Þá hringdi síminn. Klukkan var fimm mínútur yfir og náunginn var í símanum: "Ertu ekki að koma?" sagði hann með þjósti. Ég tuldraði eitthvað á móti um að ég hefði óvænt tafist út af.... (ég held ég hafi ekki náð að minnast á Signýju)... þá fannst mér hann segja "Ég er fyrir utan" og áður en ég næ að spyrja hann út í það hvar, nákvæmlega, þá er samtalinu slitið. Aftur náði náunginn að fipa mig verulega. Signýju leið ekki með þessa óvissu, að fara aftur út strax, vera hálfklædd í útigallann dágóðan tíma, gólfið blautt (og hált) og hún þyrst. Ég velti því fyrir mér andartak hvað maðurinn hefði nákvæmlega sagt á meðan ég smeygði Signýju í stígvélin. Þá ákvað ég að kíkja út og sé að hann bíður þar óþolinmóður í bílnum sínum.

Þá átta ég mig á því að ég er búinn að ráða til mín menn í vinnu! Reyndar fannst mér þessi óþolinmæði undarleg, en samt, þá fá þeir ekki borgað á tímann (hangs), heldur verkið og það er ókurteisi af mér að vera ekki mættur á umsömdum tíma.

Ég fálma höndunum vandræðalega og reyni að útskýra að það hefði bara komið upp þessi óvænta staða og að ég get verið kominn af stað eftir 2-3 mínútur (leiðinlegt að útskýra sig svona). Hann ákveður þá að aka af stað og bíða eftir mér hinum megin. Hann var eitthvað stressaður.

Ég fór fljótlega á eftir honum, með Signýju í bílnum og snjóþotu (þannig myndum við fara heim aftur). Mér hafði ekki gefist tími til að taka til í bílnum (leiðinlegt). Ég rétt náði að losa mig við það stærsta, eins og bílstól Hugrúnar og kerru sem alltaf er höfði í skottinu. Kerran fór bara á bólakaf í næsta skafl. Nú var ég orðinn stressaður.

Þetta var ekki góð byrjun, og átti bara eftir að versna.

Meira seinna.

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Upplifun: Með handrukkara í vinnu?

Hér ætla ég að skrifa um það hvernig hægt er að breyta bifvélavirkja í handrukkara á einni kvöldstund.

á morgun, eða hinn....

laugardagur, janúar 12, 2008

Horft til baka: Veikindaannáll, 2. hluti

Síðata sumar var alveg einstakt. Blíðviðri upp á hvern dag og jafnvel hitabylgja, viku eftir viku, án afláts. Við í Granaskjólinu gerðum hins vegar lítið af því að spóka okkur utandyra. Við urðum varla vör við hitabylgjuna, nema gegnum sjónvarpsfréttirnar, fyrst og fremst, og svo þegar fólk sprangaði niður í kjallara á stuttbuxunum, berandi með sér fjarlæga angan af sólarvörn. Veikindi héldu okkur nær algjörega innandyra frá og með fyrsta júni.

Hvers vegna verka veikindi svo þungt á litla fjölskyldu? Jú, samsetningin "brjóstabarn+landkönnuður" er ekki á eins manns færi, svo að vel sé. Hugrún var gríðarlega heimtufrek á brjóstið, drakk lengi í einu og ef hún sofnaði þá var það aðeins í hálftíma í einu. Þetta var undarlegt mynstur. Vigdis var einfaldlega bundin henni (Signý var mun "brjóstléttari"). Þegar barn sýgur svona óskaplega mikið þá getur maður ímyndað sér að það sé óþægilegt að vera mikið utandyra. Það er ekki eins og hún drekki í kortér og sofi næstu tvo tímana, eins og tíðkast hjá mörgum börnum.

Á sama tíma og Hugrún virkaði sem akkeri þurfti að elta Signýju. Hún var nýbúin að fá sjálfstraust í fæturna og vildi ólm kanna landssvæðið utandyra. En því miður komumst við ekki oft út, vegna veikinda. Stundum var hún þó innandyra eftir veikindi, hitalaus, enda þarf að framfylgja samviskusamlega tveggja daga útgöngubanni fyrir börn á þessum aldri eftir veikindi. Hvort sem hún var frísk eða veik þurfti hún mikla mikla athygli, annað hvort aðhlynningu eða eftirtekt, og þess vegna fór best á því að við værum saman með þeim öllum stundum.

SJálfur komst ég rétt út í stutt skokk öðru hvoru þegar gesti bar að garði, en það vill svo til að einmitt þegar veðrið er sem best er fólk síður en svo iðnast við að fara í heimsóknir. Svo þegar pestirnar dundu yfir fældi það jafnframt allmarga frá. Kjallarinn dimmi virkaði á okkur eins og grafhýsi á meðan sólin gyllti veggina að utanverðu. Með tímanum nenntum við ekki einu sinni að tékka á góða veðrinu, því það var hvort eð er annars staðar.

En til að fara í gegnum ferlið (sem má lesa nánar um hér: júní, júlí og ágúst) þá byrjuðu ósköpin strax og Signý átti að byrja í leikskólanum. Hún sem aldrei hafði verið veik í eitt og hálft ár (nema rétt yfir nótt eftir sprautur og svoleiðis) veiktist daginn fyrir sinn fyrsta leikskóladag. Furðulegt að hún skuli veikjast svona fyrirfram! Hún jafnaði sig hins vegar næstu tvo daga (sem var helgi) og kom aftur inn á mánudegi. Það gekk vel en hún veiktist hins vegar aftur um kvöldið og fékk heilmikla ælupest - missti talsverðan vökva og hafði enga matarlyst í tvo daga. Það var erfitt, en hún náði sér fyrir föstudaginn (og ég veiktist yfir helgina í staðinn). Næsta vika var hins vegar heil - þ.e. veikindalaus, þar næsta ekki (smá veikindi). Þá fórum við upp í bústað í heila viku og Signý tók sér frí frá leikskólanum. Þar veiktist hún líka, fékk barkabólgu og missti alveg röddina. Þessu fylgdi mikill hiti.

Þetta var í raun ægileg dvöl því ég varð verulega slappur af fjrókornaofnæmi framan af (þurrkur út af hitabylgjunni miklu) og fann líka hrikalega til í bakinu eftir að hafa rogast um með Hugrúnu kvöld eftir kvöld, mánuðum saman (vegna magakveisunnar, sem hún ætlaði seint ætla að losna við). Því olli líklega einhæft átak í mjóbakinu (verkurinn fór gegnum annan lærvöðvann og alla leið niður). Verkurinn snarlagaðist við það að ég stundaði þúfnagöngu, sem betur fer, því ég var farinn að óttast uppskurð. Við áttum því ekki sjö dagana sæla (bókstaflega, enda vikudvöl). Signý fór varla lengra en út á verönd þá vikuna, eftir að hafa spókað sig utandyra fyrsta daginn. Þegar þeirri dvöl lauk náði Signý sér, en Hugrún fór að veikjast. Hún fékk barkabólgu eins og Signý og var veik vikuna eftir að við komum aftur heim. Signý sótti hins vegar leikskólann á meðan og allt virtist ganga vel hjá henni. Við sáum fram á að þetta væri loks að baki. Á föstudeginum veiktist hún hins vegar aftur og við héldum henni inni yfir helgi. Á mánudeginum fór hún aftur í skólann, kláraði daginn, en fékk hita aftur um kvöldið. Hún var orðin nokkuð góð aftur á miðvikudeginum, en í þetta skiptið vorum við orðin svo hvekkt að við ákváðum að halda henni heima fram að helgi svo hún næði að jafna sig alveg. Það var sterkur leikur. Hún kom öflug til baka og náði í vikunni á eftir að halda út alla dagana í leikskólanum án veikinda. Mér reiknaðist til að þetta væri önnur heila vikan hennar í leikskólanum frá því hún byrjaði (tímabil 1. júní - 20.júlí).

Þegar hér er komið sögu er júlímánuður rétt rúmlega hálfnaður og við Vigdís nýttum þessa dýrmætu viku vel sem Signý var frísk. Hún var í leikskólanum fyrri part dags og var með okkur utandyra seinni partinn. Við settum allt á fullt í gera allt sem við náðum aldrei að gera í sumar (eins og lautarferðir og Húsdýragarðinn). Þvílíkur munaður! Það má segja að þetta hafi verið eina vikan þar sem við nutum sumarsins almennilega. En það mátti ekki seinna vera því þessa vikuna (á fimmtudeginum) fór að draga ský fyrir sólu og dropar féllu úr lofti. Áfram var reyndar þokkalegasta veður en sjálfri hitabylgunni var lokið.

Þrír dagar í garðinum er samt betra en ekki neitt. Ég hugsaði líka með mér að það væri aukaatriði. Nú væri maður loksins fær um að sinna einhverju öðru ein heimilinu þegar Signý er orðin frísk og getur verið í leikskólanum. Ég hafði nefnilega í upphafi sumars séð í hendi mér að ég myndi fara í tvo til þrjá tima upp í vinnu og nýta mér skrifstofuaðstöðuna þar, skrifa eitthvað fyrir Vísindavefinn eða sinna öðrum áleitnum áhugamálum (eins og að uppfæra heimasíðuna mína). Vinna skapandi og endurnærandi vinnu þar, koma svo heim og sinna heimlinu af krafti upp úr hádegi. Það var alltaf planið, þar til veikindin röskuðu áætluninni. Núna virtist Signý orðin öflug og ég ætti því að minnsta kosti að geta nýtt 3 vikur eða svo áður en skólinn hæfist á ný. Þá komu duttlungar sumarsins aftur aftan að mér eina ferðina enn!: Leikskólinn fór i sumarfrí. Lengd frísins er mismunandi eftir nemendum, en Signý var "úrskurðuð" í tveggja vikna frí! Við vissum af þessu alveg, en vorum búin að steingleyma því í öllum veikindunum.

Jæja. Hún var þó frísk og við gátum því eytt þessum tveimur vikum að miklu leyti utandyra. Ég komst á snoðir um leikvöll i göngufæri þar sem maður gat notið góðs af gæslu og Signý gat leikið sér við önnur börn. Það var ágætur tími og veðrið þokkalegt. Þegar Signý fór aftur í leikskólann var aðeins vika eftir af sumarfrínu mínu. Mér fannst ekki taka því að fara upp í skóla að sýsla þar. Sumarið var búið. Þegar maður leit um öxl kom í ljós að leikskólin gerði okkur meiri grikk en greiða. Hefði Signý ekki "notið góðs" af því að koma svona snemma inn hefðum við að minnsta kosti geta eytt sumrinu utandyra. Og það ætluðum við svo sannarlega að gera með haustinu. Metnaðarfull áform um útivist voru til staðar, en haustið átti hins vegar eftir að fara á allt annan veg.

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Daglegt líf: Þrír strandaglópar

Ég verð eiginlega að tjá mig um það sem gerðist í dag og leyfi "veikindaannálnum" að sitja á hakanum enn um sinn (enda ekki óeðlilegt að lífið haldi áfram, með hversdagsviðburðum, þó til standi að líta vandlega um öxl).

Ég gerði skurk í gömlum trassaskap og hreinsaði til í samviskunni. Fyrst fór ég á bókasafnið og fékk starfsmann til að líta í geymslur. Þannig var að í október tók ég nokkrar bækur í safninu á Kópavogi og skilað um mánuði seinna, á Seltjarnarnesi. Þeir tóku við bókunum, enda millifærslur bóka á milli safna alkunna. Ég hef skilað þangað bókum sem áttu heima í bókasöfnum Reykjavíkurborgar en vissi ekki að samvinnan nær ekki alla leið í Kópavoginn. Starfsmaðurinn tók samt í fljótfærni við bókunum. Hvergi var skráð í kerfinu að ég hefði skilað bókunum, og skuldin safnaðist upp. Svo kom jólavertíðin og maður nennti ekki að spá í svona hluti, enda skrifaði ég mistökin á safnasamvinnuna (og ætlaði mér aldrei að borga skuldina).

Núna í gær fór ég markvisst í Aðalsafnið í Tryggvagötu í þeirri trú að bækurnar hefðu mögulega farið upp í hillu hjá þeim (og ekki verið skráðar í kerfið). Þegar ég grennslaðist eftir þeim reyndust þær vera strandaglópar inn í geymslu!? Það er eins og enginn hafi "nennt" að taka ábyrgð á þeim, hvort sem það fæli í sér að skila þeim til baka á Nesið, hafa samband við mig (sem var enn skráður fyrir bókunum) eða bara skila þeim á eigin ábyrgð í Kópavoginn. Afgreiðslukonan var samt liðleg og hringdi fyrir mig suður og útskýrði hvernig allt hefði atvikast og fékk skuldina fjarlægða með diplómatískri stimamýkt. Þangað fór ég síðan í dag með bækurnar - og vesenið þar með að baki. Það sem er ergilegt við þetta, eftir á að hyggja, er að ég skyldi þurfa að hafa frumkvæði að þessu öllu og klippa á "hnútinn" sjálfur með "handafli". Ég þurfti að koma í eigin persónu og "leysa þær úr gíslingu". Mér leið eins og embættismanni að leysa út afvegaleidda þegna í erlendri prísund.

Ég afgreiddi annað mál í dag (sem felur ekki í sér áhugaverða sögu í sjálfu sér) en ég fór með bíllinn í smurningu. Í leiðinni uppgötvaði starfsmaðurinn að kúplingin væri ónýt. Það er léttir því lengi hafði ég áhyggjur af því að gírkassinn væri að gefa sig. Munurinn á þessu tvennu er mikill. Kúplingin gæti kostað 50 þúsund en hitt nokkur hundruð (þúsund). Leiðinleg gírskiptin mun því heyra sögunni til í næsta mánuði. Það er annar léttir dagsins, og ekki minni en sá fyrri.

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Daglegt líf: Kvöldbrölt Hugrúnar

Annar hluti "veikindaannáls" lætur örlítið bíða eftir sér. Hugrún hefur verið að éta upp allar kvöldstundir hjá okkur að undanförnu þannig að ráðrúm til að skrifa hefur ekki verið til staðar (Núna er ég til dæmis í vinnunni og get því látið slag standa með þetta stutta innskot).

Við veltum því fyrir okkur hvað gæti verið að. Hugrún vill einfaldlega ekki sofna á kvöldin (en er mjög morgunsvæf hins vegar). Jafnvel þó hún lognist út af um tíuleytið, rétt eftir að Signý sofnar, þá vaknar hún eins og klukka eftir hálftíma og virðist hafa orku næstu þrjá til fjóra tímana í að orga. Það er borin von fyrir okkur að reyna að sofna fyrir miðnætti, og treystum ekki á djúpan nætursvefn fyrr en upp úr tvö, hálf þrjú. Reyndar er Hugrún síður en svo andfélagsleg, ef ég má nota það orð, því ef maður tekur hana upp og leyfir henni að vera með okkur frammi þá unir hún sér vel (tekur jafnvel kraftmiklar leikfimisæfingar á gólfinu af kæti). En þess á milli sýnir hún raunverulega vanlíðan, jafnvel í stofunni, og er nær óhuggandi.

Þetta er svolítið flókið. Núna þegar Signý virðist orðin heil heilsu (og sefur fastar en áður) getum við farið að einbeita okkur að Hugrúnu. Margar lausnir koma til greina. Sefur hún of mikið á daginn? (þá er ráð að vekja hana fyrr og láta hana sofa styttra í einu á daginn) Vantar hana meiri örvun til að vera róleg ein í rúminu? (Við höfum þegar keypt áhugavert tuskudót sem dugar aðeins hálfa leið) Er hún með eftirköst af magakveisunni frá því í sumar? (Þetta er á sama tíma sólarhrings, en mér skilst að það sé óhugsandi) Er hún bara búin að komast upp á lagið með að vaka á þessum tíma og fá sínu fram, vegna ástandsins undanfarið (þá þarf að vera staðfastur á móti og breyta öllu skipulaginu svo hún haldi Signýju ekki vakandi með gráti). Getur verið að hún sé enn veik, t.d. með leifar af blöðrubólgunni, og finnur til þegar hún pissar? (Þá þarf bara að hlúa að henni og passa að henni verði ekki kalt. Þetta er í athugun hjá heimilislækninum þessa dagana) Eða er hún kannski ekki nógu södd þegar hún fer að sofa? (Hingað til hefur hún verið með streptókokkasýkingu í hálsi og haft litla lyst. Kannski getum við bætt á hana fyllingu fyrir svefninn úr þessu).

Eins og sjá má eru spursmálin mörg og spennandi að sjá hvaða úrræði reynist best. Það sem er ljóst er hins vegar það að við Vigdís þurfum að fá meiri festu í rútínuna og tíma út af fyrir okkur áður en við förum að sofa því þetta er afar lýjandi til lengdar, bæði andlega og líkamlega. Reyndar venst það furðufljótt að sofa slitróttum 4-5 tíma svefni á nóttu, en það er önnur saga.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Horft til baka: Veikindaannáll, 1. hluti

Nú er komið nýtt ár og ný tiltrú bærist inni í manni. Í þeirri von að veikindakafla fjölskyldunnar sé hér með lokið ætla ég að nota tækifærið og skrifa mig frá honum. Það má líta á þetta sem Granaskjólsannál í leiðinni þvi það sem stendur upp úr árinu hjá okkur er fæðing Hugrúnar og allt það sem kom í kjölfarið.

Hugrún fæddist síðasta dag aprílmánaðar. Það má segja að fyrir fæðingu hafi hún þegar gefið til kynna að hún stjórnaði ferðinni. Hún hélt okkur í biðstöðu ansi lengi þannig að í rúmlega mánuð vorum við öll í viðbragðsstöðu. Ég fór ekki út úr húsi öðruvísi en í gemsasambandi og helst í innan við tíu mínútna fjarlægð. Við fengum tengdó til að standa vaktina með okkur þegar allt virtist ætla að bresta á og hvöttum hana til að gista í tæplega viku (til að sinna Signýju ef við þyrftum að rjúka). En Hugrún hætti bara við. Ítrekað lét hún vita af sér en ákvað að vera um kyrrt. Biðin virtist ætla að verða endalaus. Henni leið greinilega vel þar sem hún var og nýtti sér það til hins ítrasta til að vaxa og dafna, enda fæddist hún mjög stálpuð, sterk og þyrst. Hún var fljót að vaxa upp úr minnstu fötunum af Signýju.

Við vorum mjög fegin þegar þetta var afstaðið, ekki bara vegna þess léttis sem fylgir því að fá heilbrigt barn í hendur heldur líka vegna þess að biðstaðan var orðin afar lýjandi. Eftir fæðingu tók hins vegar við kafli sem var erfiðari en okkur grunaði. Hugrún fæddist nefnilega með magakveisu. Hún var svokallað "magabarn" sem þýðir að hún fékk magaverki á tilteknum tíma sólarhringsins, en var annars í lagi. Þetta er dularfullt fyrirbæri sem læknar hafa enn ekki getað skýrt almennilega en er samt tiltölulega algengt. Það gerist því sem næst stundvíslega um níuleytið og stendur yfir í tvo til þrjá tíma, en þá hverfa verkirnir eins og dögg fyrir sólu. Með tímanum minnka hins vegar verkirnir og talað er um að meðgöngutími verkjanna sé um þrír mánuðir. Sumar heimildir sem við lásum lýstu þessu sem "martröð allra foreldra" og ég hugsa að sú lýsing sé ekki orðum aukin.

Það var því töluvert meira fyrir Hugrúnu haft en Signýju fystu mánuðina. Við hana sjálfa er að sjálfsögðu ekki að sakast: Hún bað ekki um að fæðast og leið sjálf manna mest fyrir að mæta til leiks með magaverki. Þetta raskaði hins vegar heimilishaldinu gríðarlega og olli því að við Vigdís áttum aldrei náðuga stund saman til að spjalla, horfa á sjónvarpið eða hvíla okkur fyrr en einhvern tímann eftir miðnætti. Við vorum vön því að geta slakað á eftir að Signý sofnaði en með tilkomu magakveisunnar hjá Hugrúnu var sá tími, milli níu og tólf, erfiðasti tími dagsins (og þá er maður einmitt þreyttastur). Maður gat linað þjáningar Hugrúnar eitthvað með því að halda henni í tiltekinni magastellingu og ganga um gólf, en hún emjaði í fanginu á manni nær látlaust tímunum saman, þar til verkirnir liðu undir lok (þá sofnaði hún vært á örskammri stundu).

Álagið var strax mikið og við vorum mjög fegin í maí þegar leikskólinn í Vesturborg hafði samband og lét okkur vita af lausu plássi fyrir Signýju strax í byrjun júní. Ég sá í hendi mér að geta þá að minnsta kosti nýtt daginn í eigin þágu að einhverju leyti og við gætum hvílt okkur eitthvað líka. En leikskólinn reyndist bjarnargreiði. Meira um það í næsta pósti.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Þroskaferli: Klapp (og áramótakveðja)

Við vorum að fagna glæsilegum sprengingum fyrr í kvöld og hvöttum Signýju til að klappa með, til að undirstrika að þetta væri ekkert til að óttast, þrátt fyrir lætin. Hún tók þessu vel og talaði mikið um "rakettur og bang". Virtist heilluð. Til að Hugrún yrði ekki útundan sýndum við henni í leiðinni lauslega hvernig á að klappa. Hún hafði að sama skapi gaman af því.

Þetta var fyrr í kvöld, fyrir skaup, og við Vigdís og stelpurnar vorum hjá mömmu og pabba í mat. Fórum heim fyrir tíu og horfðum á skaupið hér heima. Síðan byrjuðu lætin á ný. Signý var full áhuga og leitaði að besta útsýninu að innan. Fyrir framan Hugrúnu klappaði hún af hrifningu á ný. Hugrún kannaðist eitthvað við þetta núna og prófaði að klappa með. Fyrst var það varfærnislegt eins og til að sjá hvort lófarnir pössuðu saman. Eftir nokkrar mínútur var hún farin að klappa af öryggi og kampakát.

Tímasetningin er skemmtileg. Ekki bara áramót heldur er hún upp á dag átta mánaða (2/3 árs). Flott hjá henni. Við óskum ykkur sem sagt öllum gleðilegs nýs árs með lófaklappi í ár, öll sem eitt. Vonandi verður 2008 gjöfult ár fyrir sem flesta.