fimmtudagur, janúar 03, 2008

Horft til baka: Veikindaannáll, 1. hluti

Nú er komið nýtt ár og ný tiltrú bærist inni í manni. Í þeirri von að veikindakafla fjölskyldunnar sé hér með lokið ætla ég að nota tækifærið og skrifa mig frá honum. Það má líta á þetta sem Granaskjólsannál í leiðinni þvi það sem stendur upp úr árinu hjá okkur er fæðing Hugrúnar og allt það sem kom í kjölfarið.

Hugrún fæddist síðasta dag aprílmánaðar. Það má segja að fyrir fæðingu hafi hún þegar gefið til kynna að hún stjórnaði ferðinni. Hún hélt okkur í biðstöðu ansi lengi þannig að í rúmlega mánuð vorum við öll í viðbragðsstöðu. Ég fór ekki út úr húsi öðruvísi en í gemsasambandi og helst í innan við tíu mínútna fjarlægð. Við fengum tengdó til að standa vaktina með okkur þegar allt virtist ætla að bresta á og hvöttum hana til að gista í tæplega viku (til að sinna Signýju ef við þyrftum að rjúka). En Hugrún hætti bara við. Ítrekað lét hún vita af sér en ákvað að vera um kyrrt. Biðin virtist ætla að verða endalaus. Henni leið greinilega vel þar sem hún var og nýtti sér það til hins ítrasta til að vaxa og dafna, enda fæddist hún mjög stálpuð, sterk og þyrst. Hún var fljót að vaxa upp úr minnstu fötunum af Signýju.

Við vorum mjög fegin þegar þetta var afstaðið, ekki bara vegna þess léttis sem fylgir því að fá heilbrigt barn í hendur heldur líka vegna þess að biðstaðan var orðin afar lýjandi. Eftir fæðingu tók hins vegar við kafli sem var erfiðari en okkur grunaði. Hugrún fæddist nefnilega með magakveisu. Hún var svokallað "magabarn" sem þýðir að hún fékk magaverki á tilteknum tíma sólarhringsins, en var annars í lagi. Þetta er dularfullt fyrirbæri sem læknar hafa enn ekki getað skýrt almennilega en er samt tiltölulega algengt. Það gerist því sem næst stundvíslega um níuleytið og stendur yfir í tvo til þrjá tíma, en þá hverfa verkirnir eins og dögg fyrir sólu. Með tímanum minnka hins vegar verkirnir og talað er um að meðgöngutími verkjanna sé um þrír mánuðir. Sumar heimildir sem við lásum lýstu þessu sem "martröð allra foreldra" og ég hugsa að sú lýsing sé ekki orðum aukin.

Það var því töluvert meira fyrir Hugrúnu haft en Signýju fystu mánuðina. Við hana sjálfa er að sjálfsögðu ekki að sakast: Hún bað ekki um að fæðast og leið sjálf manna mest fyrir að mæta til leiks með magaverki. Þetta raskaði hins vegar heimilishaldinu gríðarlega og olli því að við Vigdís áttum aldrei náðuga stund saman til að spjalla, horfa á sjónvarpið eða hvíla okkur fyrr en einhvern tímann eftir miðnætti. Við vorum vön því að geta slakað á eftir að Signý sofnaði en með tilkomu magakveisunnar hjá Hugrúnu var sá tími, milli níu og tólf, erfiðasti tími dagsins (og þá er maður einmitt þreyttastur). Maður gat linað þjáningar Hugrúnar eitthvað með því að halda henni í tiltekinni magastellingu og ganga um gólf, en hún emjaði í fanginu á manni nær látlaust tímunum saman, þar til verkirnir liðu undir lok (þá sofnaði hún vært á örskammri stundu).

Álagið var strax mikið og við vorum mjög fegin í maí þegar leikskólinn í Vesturborg hafði samband og lét okkur vita af lausu plássi fyrir Signýju strax í byrjun júní. Ég sá í hendi mér að geta þá að minnsta kosti nýtt daginn í eigin þágu að einhverju leyti og við gætum hvílt okkur eitthvað líka. En leikskólinn reyndist bjarnargreiði. Meira um það í næsta pósti.

Engin ummæli: