laugardagur, janúar 19, 2008

Sjónvarpið: Einu sinni var

Við sátum fyrir framan morgunsjónvarpið rétt áðan og skyndilega var næsti liður á dagskrá: "Einu sinni var". Ég átti vídeóspólu tiltæka og gómaði þáttinn. Þetta er geggjað. Ég var einmitt á leiðinni með fyrirspurn til Ríkissjónvarpsins um þennan þátt, því mér fannst fyrir löngu kominn tími á endursýningu. Ég man hvað þetta var framsækin þáttaröð í gamla daga. Það sátu allir límdir fyrir framan sjónvarpið í kringum 1980 (þættirnir voru upphaflega gerðir 1978 í Frakklandi) og fylgdust með framvindu mannkynsins í gegnum Fróða og félaga. Rödd Guðna Kolbeins hljómar enn í kollinum. Það er synd að hann skuli ekki vera notaður á ný í endursýningunni, en mér heyrist nýju raddirnar hins vegar mjög smekklegar. Þær vöndust að minnsta kosti hratt.

Þessir þættir eru svo gamlir að maður átti ekki einu sinni vídeótæki og átti ekki kost á að sjá þættina aftur og aftur. Samt man maður eftir þeim nokkuð glögglega. Núna horfir maður á þetta með Hugrúnu og Signýju. Þær eru heppnar. Þetta er úrvalsefni sem þær hafa aðgang að, í heimsklassa, rétt eins og Snillingarnir sem ég hef áður minnst á. Kennslufræðileg snilld.

Hér á Wikipedia má finna góða umfjöllun um seríuna og á annarri síðu á Wikipedia kemur fram að höfundar þáttanna hafa gefið út fjölmargar sambærilegar þáttaraðir sem ekki hafa verið sýndir hér á landi (nema "Sú kemur tíð" og þáttaröðina um líkamann).

Engin ummæli: