Nýlega sagði ég frá samskiptum mínum við bifvélavirkja sem breyttist í handrukkara. Ég sleit frásögninni þegar náunginn var nýsestur við hliðina á mér þar sem hann ætlaði að tryggja sér að ég útvegaði peningana. Framhaldið var reyndar ekki eins ískyggilegt og á horfðist á þeirri stundu, en þó ekki án vandræðagangs.
Ég var sem sagt með allt niður um mig (sjá tvær nýlegar bloggfærslur) og gat því ekki andmælt yfirganginum þegar hann hlammaði sér hitt framsætið. Hann vildi tryggja sér að ég slóraði ekkert frekar. Það var þess vegna með semingi sem ég tók fram að ég þyrfti fyrst að koma við heima hjá mér (en ekki í banka). Ég var fyrst núna með auðkennislykilinn í höndunum og hann notaði ég gegnum tölvuna til að færa pening af safnreikningi og yfir á debetkortið. Hann tók þessu með ró og spekt, enda ekki kunnugur tæknilegum bankaviðskiptum eða millifærslum - enda svört viðskipti yfirleitt afgreitt í seðlum.
Á planinu heima bauð ég honum að fylgja mér inn. Hann spurði hvort ég yrði ekki snöggur og ákvað svo að vera um kyrrt eftir að ég talaði um að þetta yrði aðeins örfáar mínútur. Inn fór ég og Vigdís tók á móti mér. Hún var nýbúin að svæfa Signýju (með Hugrúnu grátandi í rúminu í næsta herbergi) og sá mig koma askvaðandi í átt að tölvunni. Þegar ég byrjaði að millifæra minnti hún mig á þá óþyrmilegu tilhugsun að líklega væri takmörk fyrir því hvað ég gæti tekið mikla upphæð út á kortið á einum degi. Hún stakk í leiðinni upp á því að ég fengi meðferðis debetkortið hennar, sem ég gæti líka sett pening á. Þetta var snilld hjá henni. Tvö kort myndu auka líkurnar á að ég gæti borgað alla upphæðina um kvöldið, - í öllu falli tvöfalt hærri upphæð en ella. Ég var í þann mund að hrósa Vigdísi, og stóð með henni nærri anddyrinu, þegar skuggaleg vera birtist í dyragættinni. Ég hafði ekki minnst á það við Vigdísi að kallinn væri úti í bíl þannig að henni brá töluvert. Hurðin var hálfopin og hann smokraði sér bara inn í anddyrið til að ganga úr skugga um hvort ég væri ekki örugglega þarna enn. Sagðist hins vegar bara orðinn leiður á að bíða í bílnum. Ég held að um fimm mínútur hafi liðið frá því ég yfirgaf bílinn (þrátt fyrir tvöfalda millifærslu), þannig að ég var hissa á óþreyjunni. Fyrst hann var þarna ákvað ég hins vegar að nýta tækifærið og minnast á það að ég hefði nýtt tímann til að færa pening á bæði mitt kort og hennar, ef ske kynni að það væri einhver úttektartakmörkun á kortinu. Þar með vissi hann með mér að framhaldið yrði ekki endilega slétt og fellt (og ég fann að hann mátti eiginlega ekki við því).
Þá fórum við af stað til að redda peningunum. Bara mæta á staðinn og ná í peningana. Loksins! Ekkert mál. Við ókum sem leið lá vestur að Eiðistorgi þar sem Glitnir er til húsa. Það var hins vegar dauft um að litast þar. Ekkert líf. Áður fyrr var streymi af fólki inn og út glerhýsið sem geymir bankann og barinn og allt það, bæði á daginn og seint um kvöld. Núna var hins vegar allt lokað. Ég tékkaði á rennihurðinni, á litlu hliðarhurðinni og hvort það væri mögulega rauf fyrir kortið til að hleypa mér inn en allt kom fyrir ekki. Þarna stóð ég eins og litla stúlkan með eldspýturnar, - nema ég hélt á korti. Ég horfði vonsvikinn, og eflaust með tómt augnaráð, til baka í átt að bílnum þar sem kallinn beið. Maður mátti nú ekki við svona bakslögum í ofanálag. Jafnvel svona einföld hversdagsleg aðgerð gekk ekki upp. Ástæðan fyrir luktum dyrunum rann reyndar upp fyrir mér: Rauða ljónið er ekki lengur starfandi og það veldur því að svæðið er eftir lokun Hagkaupa eins og draugaskip um miðja nótt. Þá var um að gera að koma til baka með plan B (eða var það C, D, E....?). Í flýtinum var ég farinn að hugsa langt yfir skammt. Kallinn virtist sýna þessu skilning, sem betur fer, og saman datt okkur í hug að koma við á Hagatorgi.
Við Háskólabíó reyndust vera tveir bankar (óvæntur bónus á ögurstundu): annar við Hótel Sögu og hinn við bíóið. Ég byrjaði á Hótelinu. Kortið rann í gegn ég fékk að velja milli ýmissa upphæða. Sú hæsta var 20. þúsund. Einnig var mögulegt að slá inn upphæð að eigin vali. Það gerði ég að sjálfsögðu, enda nýbúinn að dæla slummu inn á kortið, og var með 85 þúsund króna skuld á bakinu (bókstaflega). Ég fékk hins vegar villuboð um að þetta væri yfir leyfilegum mörkum dagsins. Ég leyfði mér að halda sem snöggvast að það væri vegna þess að hraðbankinn væri tómur eftir daginn. Ég sló inn lægri og lægri upphæð með sömu villuboðum. Á endanum samþykkti ég aumar 20 þúsund krónur. Þær skiluðu sér. Gat hins vegar ekki gert það aftur. Ég beitti þá hinu kortinu með sama árangri. Nú var ég kominn með 40 þúsund plús nokkra þúsund kalla sem við Vigdís höfðum skrapað saman heima. Þá hvarflaði að mér að draga fram Kreditkortið mitt sem ég hafði ekki notað í þessum tilgangi síðan ég var síðast á ferðalagi erlendis. Lykilorðinu var ég hins vegar búinn að steingleyma. Prófaði eitthvað - líklega gamalt og úrelt lykilorð - og bölvaði sjálfum mér í hljóði í smástund fyrir að halda ekki utan um þessar upplýsingar. Kreditkortið hefði getað reddað mér þarna! Ég kom vonsvikinn til baka og sagði frá villuboðunum og að það væri þess virði að tékka á næsta banka. Þar var allt hins vegar í sama lás.
Klukkan var um það bil tíu og við sátum þarna með hálfa upphæðina í seðlum. Það var ljóst að ég myndi ekki geta reddað fleiri seðlum fyrr en daginn eftir og bauðst til þess að vera mættur með peningana strax eftir vinnu næsta dag - eða að ég myndi millifæra restina á reikninginn hans. Hann hugsaði sig vandlega um, greinilega smeykur við vafann og sagði við mig hreint út: Ég veit ekki hvort ég get treyst þér.
Þetta stakk. Ég er vanur að vera talinn frekar traustur náungi. Í þessu tilfelli hafði hraðinn í viðskiptunum sett strik í reikninginn. Ég hafði ekki áttað mig á mikilvægi þess að hafa greiðsluna á staðnum og í seðlum. Það var greinilega ekki nóg að vera fær um að redda því daginn eftir. Millifærsla er líka litin hornauga - hún er ekki eins áþreifanleg, hún er tortryggilegri og jafnframt rekjanleg í bókhaldinu (sem er ekki vinsælt ef maður vill leyna viðskiptunum). Ég hafði líka alltaf gert ráð fyrir því að kallinn treysti mér og tæki það gott og gilt að ég mætti með peninginn daginn eftir þar sem hann hefur átt viðskipti við mig áður, þekkir mig ágætlega, þekkir pabba vel (sem hafði skipt við hann á undan mér), hann veit hvar ég vinn, hver símínn minn er og núna, frá og með þessum degi, veit nákvæmlega hvar ég bý! Það kom mér því eiginlega svolítið á óvart að hann skyldi vantreysta mér svona. Hann hlyti að hafa brennt sig illi í viðskiptum við einhvern á undan mér. Að minnsta kosti reyndi ég að sjá vantraustsyfirlýsinguna í því ljósi. Hann var smeykur við að vera prettaður. Svo naut hann trausts vinnufélagans, sem hann vildi gera upp við strax.
Lendingin var þá þessi: Ég afhenti honum 40 þúsund kallinn og fór heim með hann á bakinu og millifærði á ný - í þetta skiptið yfir á reikninginn hans. Hann stóð þar með mér inni í stofu og gaumgæfði allar færslur. Hann virtist fyrst sannfærast um að allt væri með felldu þegar hann sá að upphæðin á söfnunarreikningnum okkar Vigdísar væri vel rúmlega það sem til þurfti. Við vorum borgunarmenn fyrir viðgerðinni eftir allt saman! Þetta er náttúrulega ansi nærgöngult. Ég var alveg viss um að gamli kallinn væri engin tölvugúrú, annars hefði ég þurft að bægja honum frá mér meðan ég vann verkið. Eftir á minntist hann á að þetta hafi verið athyglisverð athugun hjá honum, því hann hefði ekki komist í kynni við heimabankakerfið áður. Hann talaði eitthvað um að tölvufötlun væri ægileg hjá fólki á hans aldri og virtist yfirgefa heimilið með tiltrú á að peningurinn hafi farið á réttan stað. Ég skutlaði honum svo til baka þangað sem verkstæðið var til húsa (þar sem hann átti eftir að borga vinnufélaganum). Núna var klukkan um það bil hálf ellefu. Þetta rétt slapp - þannig séð - en ég var orðinn örþreyttur á taugum eftir atburðarásina. Bæði spenntur, þreyttur og pirraður yfir því að hafa leiðst út í þessa endaleysu. Ég ákvað á þeirri stundu að læra af þessu og jafnvel skrifa mig frá þessari upplifun svo að ég mynd nú greypa þetta vel í minni. Svona vitleysu á ekki að sópa undir teppi og gleyma því mig langar ekki að endurtaka þetta.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ef þú lendir í svipuðu aftur er gott að vita að það er hægt að taka út hærri upphæð í hraðbanka sem tilheyrir viðskiptabanka manns heldur en í hraðbönkum annarra banka.Hjá Kaupþingi eru það 30 þúsund sem hægt er að taka út úr þeirra hraðbönkum með Kaupþingskorti. Geri ráð fyrir að það sé svipað hjá hinum bönkunum.Kveðja úr Firðinum, Jóhanna Ósk
Skrifa ummæli