mánudagur, janúar 30, 2012

Daglegt líf: Snjóhús og snjóflóð

Dagarnir líða hratt. Síðasta vika var umhleypingasöm og snjóskaflarnir viku fyrir rigningunni. Það vill svo furðulega til að úti í garði stendur núna snjóhús á grasi. Þetta er meira en mánaðargamalt hús, ábyggilega elsta snjóhúsið í bænum, reist upp úr snjófarginu sem kom milli jóla og nýárs. Það lifir enn þó það megi sannarlega muna fífil sinn fegri. Með ítrustu tækni tókst mér að viðhalda húsinu þrátt fyrir sveiflur. Ég beitti einfaldri verkfræði og veðurathugunum og prófaði mig áfram með að klæða húsið dúki svo það standi af sér rigningarkaflana inni á milli. Einn daginn var til dæmis fimm stiga hiti og rigining. Þá lá dúkurinn á snjóhúsinu og hlífði því glæsilega. Ég nota orðið "glæsilega" vegna þess að snjóhúsið varð sérstaklega straumlínulagað og fallegt í útliti eftir rigninguna. Svo fór að frysta aftur. Og snjóa. Fyrir viku síðan renndu Signý og Hugrún sér á snjósleða á húsinu og buðu til sín gestum í heimatilbúnu brekkuna. Snjóhúsið var orðið glerhart eftir að hafa veðrast vikum saman og nýttist vel sem undirstaða undir nýtt snjólag. Brekkan á þaki hússins vakti meiri lukku en snjóhúsið sem slíkt og heyrðist oft í stelpunum ískra af gleði. Þetta voru ævintýralegir snjódagar í síðustu viku og sérlega eftirminnilegt að sjá allt á kafi. Þá tók ég nokkrar flottar myndir sem eiga eflaust eftir að rata á skjáborðið á tölvunni minni. Við upplifðum meira að segja snjóflóð í garðinum heima. Reyndar vorum við stödd inni þegar húsið byrjaði að nötra. Ég hélt í fyrstu að þetta væri jarðskjálfti og varð síðan hugsað til þess að þetta hlyti að vera afar þungur snjóhefill að ryðja sér braut inn Granaskjólið. En svo áttuðum við okkur: Það var skaflinn uppi á þaki sem fór niður með þessum látum. Hann féll á göngustíginn fyrir framan húsið og kaffærði meðal annars holið þar sem gengið er niður til okkar. Sem betur fer var enginn á ferli akkúrat á þessari stundu því snjórinn var þungur og þéttur í sér og myndaði eins metra háan skafla eftir húsinu endilöngu.

laugardagur, janúar 21, 2012

Pælingar: Tvo gagnleg orðskrípi/nýyrði

Ég er búinn að vera í einhverjum undirmeðvituðum tungumálapælingum að undanförnu. Núna í vikunni vaknaði ég til dæmis með skringilegt orð í kollinum. Það er sagnorðið að "sjittna". Meira að segja á meðan ég svaf fannst mér orðið í meira lagi undarlegt en jafnframt stórstkemmtilegt og vaknaði með bros á vör. Orðið vísar í tvö önnur sagnorð: að hitna og svitna. Það á við um þá undarlegu líðan sem yfirtekur líkamann þegar maður skyndilega uppgötvar einhverja alvarlega yfirsjón og frýs og getur ekki annað en misst út úr sér útlensku: Sjitt. Til dæmis þegar maður er kominn af stað í vinnuna og man allt í einu að það gleymdist að slökkva á kaffikönnunni eða eldavélinni. Þá sjittnar maður svo um munar. Einnig þegar maður lendir í lífsháska og gerir sér grein fyrir að þetta gæti verið endapunkturinn. Þá er ekkert hægt að gera annað en "sjittna" og vona svo það besta.

Annað orð datt mér óvænt í hug um daginn. Þá rabbaði ég við náunga sem kvartaði undan því að vera eitthvað orkulaus. Ég vísaði þá til veðurlagsins að undanförnu, sem hafði verið þoka og dumbungur, og stappaði í hann stálinu með því að segja að þessa dagana væru allir meira eða minna "mollaðir". Þetta er ekki tónfræðihugtakið "moll" (sbr. dúr og moll) þó það vísi reyndar í depurð og orkuleysi líka. Nei, þetta er borið fram með hörðu LL-hljóði. Það er mollan úti sem dregur stundum úr manni orku og veldur þessu sleni eða sinnuleysi og hindrar í leiðinni alla framkvæmdagleði. Þegar maður gerir sér grein fyrir því að veðrið hafi bein áhrif á líðanina er mun auðveldara að sætta sig við að vera "mollaður". Þá er betra að setja sig bara í aðrar stellingar og sinna minna krefjandi verkefnum.

Fréttnæmt: Friðarstund í hríðarbyl

Veðrið er búið að vera sviptingasamt að undanförnu. Umhleypingar og hríðir skiptast á. Um daginn var stórhríð og ófært víða um land. Þá fór ég í jarðarför í Áskirkju. Þar var Þórunn Guðmundsdóttir jörðuð. Hún er ekki blóðskyld mér en þó mjög nátengd fjölskyldunni á sérstakan máta. Hún var móðir eiginkonu tvíburabróður mömmu, fyrir þá sem átta sig á þeirri tengingu. Mamma og Rabbi eru sem sagt tvíburar og hafa alltaf verið náin og því mikil tengsl minnar fjölskyldu við fjölskyldu hans. Þegar amma og afi móðurmegin létust (þegar ég var smá polli) upplifði maður líklega fyrir vikið enn sterkari tengsl við Þórunni "gömlu" og manninn hennar, hann Óskar (sem reyndar lést fyrir um tuttugu árum). Nú eru þau væntanlega sameinuð á ný eftir mjög farsæla og langa ævi. Við eigum öll mjög góðar minningar tengdum þeim hjónum og nokkrar þeirra rötuðu í minningargrein sem mamma setti saman á dögunum í spjalli við okkur hin.

föstudagur, janúar 13, 2012

Pæling: Hvernig koss?

Fyrst ég er farinn að vitna í Signýju þá er við hæfi að hafa eftir henni skemmtilega athugsemd um kossa. Hún var eitthvað hugsi um daginn. Hugrún hafði þá haldið því fram að það ætti bara að kyssa fólk á kinnina en ekki á munninn. Þetta hafði hún frá mömmu sinni, sem hafði verið að leiðbeina Hugrúnu með þetta (Hugrún átti það til að kyssa á munninn). En þetta olli Signýju heilabrotum og hún spurði mig bara út í hvað væri réttast að gera. Ég hugsaði mig vandlega um og ákvað að fara ekki út í nákvæman mun á siðvenjum þjóða hvað þetta varðar og ég lét líka eiga sig að minnast á það hvað þetta væri nú breytilegt eftir því hvar og hvernig fólk er alið upp. Ég sagði henni bara að yfirleitt sé það þannig að fólk kyssist á kinnina. En þegar maður kyssir manninn sinn eða konuna sína þá má alveg kyssa á munninn. Þá fattaði hún muninn og sagði til baka: "Já, þá má kyssa á munninn þegar maður er ástafanginn!" :-)

Hugsun: Hvað er matur?

Signý lét út úr sér skemmtilegar athugasemd í morgun. Þá var ég á leið í vinnuna, búin að skutla Vigdísi og sá fram á að hafa tíma til að skjótast aðeins heim og ná í nesti sem ég gleymdi. Þá sagði sú litla: "Þú þarf ekkert nesti, pabbi!". Ég spurði auðvitað hvað hún meinti með því, þá svaraði hún: "Þú opnar bara ísskápinn!" (sem er í eldhúsinu í skólanum, eins og það sé alltaf sjálfkrafa matur þar inni) og bætti svo við, minnug þess sem við gerum oft í eldhúsinu í skólanum rétt fyrir jólin: "Þú bakar bara piparkökuhús!"

miðvikudagur, janúar 11, 2012

Fréttnæmt: Snöggsoðið yfirlit yfir 2011

Áður en ég segi skilið við árið 2011 þá skelli ég fram léttum yfirlitslista yfir "uppáhöldin". Með þessu vil ég í leiðinni undirstrika að þó ég hafi ekki gengið á fjöll eins og til stóð eða séð jafn mörg meistaraverk kvikmyndasögunnar og ég ætlaði þá gerðist nú samt ýmislegt á árinu.

Ferðalag ársins: Skólaferðalag til Boston og í kjölfarið ferð til Maine í einkaerindum, að hitta gamlan og góðan vin sem þar býr, Robert Klose.
Áhugamál ársins: Stjörnuskoðun (sem átti hug minn allan í október og nóvember). Ég fór oft út með bók í hönd eftir að allir aðrir voru sofnaðir og starfði á himininn. Mjög róandi og spennandi í senn. Einnig fékk ég þráhyggju fyrir barnabókum. Ég notaði undirbúningstímann fyrir Bostonferðina til að viða að mér fróðleik og upplýsngum um barnabækur og keypti óheyrilega margar þar úti (tvo fulla bakpoka). Sumar þessara bóka langar mig að þýða.
Náttúruupplifun ársins: Að sjá fylgihnetti Júpíters með venjulegum handkíki. Ekki varð upplifunin minna hrífandi við það að vita að Galíleo Galilei (sem uppgötvaði þessi fylgitungli fyrir 400 árum) notaðist við kíki af svipuðum styrk.
Efnilegasta áhugamál ársins: Skautar. Signý hreifst af þeirri hreyfingu í desember og við sem fjölskylda gætum vel hugsað okkur að fylgja því eftir.
Tónlistaruppgötvun ársins: Buddy Holly (sem ég hreifst af í fyrsta skipti í sumar). Það er margt sem Bítlarnir lærðu af Buddy Holly. Það heyrði ég fyrst á síðasta ári. Hann var langt á undan sínum tíma og afkastaði ótrúlega á stuttum starfsferli.
Uppáhaldsplata á árinu: PJ Harvey: Let England Shake (ekki nokkur spurning). Einnig vakt nýja Kat Bush platan athygli mína ásamt, reyndar, nýju Paul Simon, sem kom verulega á óvart (og það fór lítið fyrir henni).
Tónleikar ársins: Ég held ég hafi ekki farið á neina tónleika á árinu. Elvis Costello átti að koma en þeim tónleikum var frestað fram í júní á þessu ári.
Leikhúsupplifun ársins: Tvívegis fór ég á leikhús. Ég sá stórskemmtilegt barnaleikrit í Borgarleikhúsinu, Eldfærin, sem stelpurnar eignuðust á DVD um jólin og hafa horft oft á síðan. Hin sýningin var ópera. Það var Töfraflauta Mozarts í Hörpunni. Hún var eftirminnileg á allt annan hátt þannig að ég reyni ekki einu sinni að bera þessar sýningar saman.
Besta mynd sem ég sá í bíó á árinu: The Black Swan. Frábær leikstjóri hann Aronofsky. Ég hlakka til að sjá næstu myndir, sem detta inn í kvikmyndasalina á árinu, reikna ég með.
Besta mynd sem ég sá heima í stofu: The Kids Are All Right. Mjög nútímaleg mynd um áleitið vandamál og samskiptaflækjur. Listilega vel gerð mynd og skemmtileg, svolítið í anda "Juno".
Áhrifamesta sjónvarspþáttaröð sem ég sá á árinu: Africa - the Luminous Continent (Bob Geldof). Mjög sjokkerandi sería. Ég átti erfitt um svefn eftir einn þáttinn og var satt að segja starfur fram eftir á netinu að leita nánari upplýnga um efni þáttarins.
Besti sjónvarpsþáttur ársins: Áramótaþáttur Hljómskálans. Sá þáttur er reyndar að mínu mati besta skemmtiefni sem ég hef séð síðan Rúv sýndi "Gætt´að hvað þú gerir maður" árið 1984. Ég var gáttaður af hrifningu minni á því hvernig þeir í Hljómskálanum náðu að framreiða skemmtiefni sem var raunverulega stórskemmtilegt.
Endurmat ársins: Baggalútur. Ég hef alltaf vísað þeim frá mér sem skemmtilegum trúðum en geri mér betur grein fyrir því núna að framlag þeirra til íslenskrar dægurmenningar er ómetanlegt.
Hrossakaup ársins: Sjónvarpsserían "Roots" (Rætur) sem ég fann á markaði fyrir slikk í vönduðum DVD kassa. Hún kom fólki alveg í opna skjöldu þegar ég opinberaði hana sem jólagjöf til allrar fjölskyldunnar.
Breyting ársins: Signý fór úr leikskóla og yfir í grunnskóla. Hún átti frekar erfitt með að aðlagast breytingunni. Um svipað leyti fékk hún sýkingu í hálsinn og missti matarlystina í nokkra mánuðu. Maður veit ekkert hvað er orsök og hvað afleiðing. En hún virðist vera að braggast núna, sem betur fer, og orðin sáttari í skólanum.
Framfarir ársins: Signý er farin að lesa og Hugrún fylgir henni eins og skugginn.
Ný venja árins: Við fórum að venja okkur á sund á föstudögum. Notaleg byrjun á helgi. Okkur fannst þetta lengja helgina því föstudagarnir hafa oft verið hálf ónýtir dagar vegna þreytu.
Frumkvæði ársins:
Þáttaka í hárgreiðslunámskeiði; svokölluðu pabbanámskeiði.
Óvænt uppákoma ársins: Lenti tvisvar í sjónvarpinu. Gæti verið að við höfum verið virkari út á við en áður?
Afmæli ársins: 75 ára afmæli pabba. Þetta var sérlega ánægjulegur dagur.
Áfangi ársins: 50 ára brúðkaupsafmæli mömmu og pabba sem haldið var með pompi og prakt heima hjá þeim. Við fórum vandlega yfir fimmtíu ára sögu fjölskyldunnar með afslappaðri kertaathöfn.

miðvikudagur, janúar 04, 2012

Pæling: Rukkað um áramótaheit

Á nýju ári er rétt að líta aðeins um öxl. 2011 var ár hinna aumu efnda. Hjá mér að minnsta kosti. Ég setti fram nokkurs konar áramótaheit fyrir um ári síðan. Annars vegar stefndi ég að því að ganga á fjöll af miklum móð (sjá hér). Við Jón Már ætluðum okkur að ganga saman á tólf fjöll á árinu en því er skemmst frá að segja að ekki var gengið á eitt einasta fjall allt árið! Ekki var áætlunin óraunhæf. Þetta átti að vera svo auðvelt. Kannski var það valdur að kæruleysi og olli því að við fórum aldrei almennilega af stað. Hins vegar var ég með ágætt varaplan, allt annars eðlis, sem hægt er að kalla áramótaheit tvö. Það var að renna markvisst í gegnum röð af kvikmyndum sem ég hef alltaf trassað að horfa á (frægum myndum, það er að segja, sem ég átti enn eftir að sjá). Meira að segja þetta klikkaði algjörlega. Hversu vonlaus getur maður verið!? Bæði útivistar- og innipúkaheitið klikkuðu. Það var nákvæmlega eins með myndirnar eins og fjöllin; ég sá ekki eina einustu af þeim sem ég hafði strikað undir! Það sem gerir þetta kannski enn fyndnara er það að ég gerði mér þó lítið fyrir og keypti þrjár af myndunum (Memento, Donnie Darko og Dumb & Dumber). Ég á þær núna en er ekki búinn að sjá þær. Þetta er svona eins og að taka upp úr sjónvarpinu í staðinn fyrir að horfa eða ljósrita grein í stað þess að lesa. Endalaust hálfkák, svo ég rakki mig nú aðeins niður í tilefni af nýju ári.

Hins vegar var maður ekki iðjulaus. Mikið var gengið, bæði Öskjuhlíðina og Heiðmörkina, auk þess að við Jón vorum duglegir að hittast og horfa á fræðslumyndir saman. Það kom svo að segja í staðinn fyrir kvikmyndaþemað, eftir á að hyggja, og var að mörgu leyti betra.