miðvikudagur, janúar 11, 2012

Fréttnæmt: Snöggsoðið yfirlit yfir 2011

Áður en ég segi skilið við árið 2011 þá skelli ég fram léttum yfirlitslista yfir "uppáhöldin". Með þessu vil ég í leiðinni undirstrika að þó ég hafi ekki gengið á fjöll eins og til stóð eða séð jafn mörg meistaraverk kvikmyndasögunnar og ég ætlaði þá gerðist nú samt ýmislegt á árinu.

Ferðalag ársins: Skólaferðalag til Boston og í kjölfarið ferð til Maine í einkaerindum, að hitta gamlan og góðan vin sem þar býr, Robert Klose.
Áhugamál ársins: Stjörnuskoðun (sem átti hug minn allan í október og nóvember). Ég fór oft út með bók í hönd eftir að allir aðrir voru sofnaðir og starfði á himininn. Mjög róandi og spennandi í senn. Einnig fékk ég þráhyggju fyrir barnabókum. Ég notaði undirbúningstímann fyrir Bostonferðina til að viða að mér fróðleik og upplýsngum um barnabækur og keypti óheyrilega margar þar úti (tvo fulla bakpoka). Sumar þessara bóka langar mig að þýða.
Náttúruupplifun ársins: Að sjá fylgihnetti Júpíters með venjulegum handkíki. Ekki varð upplifunin minna hrífandi við það að vita að Galíleo Galilei (sem uppgötvaði þessi fylgitungli fyrir 400 árum) notaðist við kíki af svipuðum styrk.
Efnilegasta áhugamál ársins: Skautar. Signý hreifst af þeirri hreyfingu í desember og við sem fjölskylda gætum vel hugsað okkur að fylgja því eftir.
Tónlistaruppgötvun ársins: Buddy Holly (sem ég hreifst af í fyrsta skipti í sumar). Það er margt sem Bítlarnir lærðu af Buddy Holly. Það heyrði ég fyrst á síðasta ári. Hann var langt á undan sínum tíma og afkastaði ótrúlega á stuttum starfsferli.
Uppáhaldsplata á árinu: PJ Harvey: Let England Shake (ekki nokkur spurning). Einnig vakt nýja Kat Bush platan athygli mína ásamt, reyndar, nýju Paul Simon, sem kom verulega á óvart (og það fór lítið fyrir henni).
Tónleikar ársins: Ég held ég hafi ekki farið á neina tónleika á árinu. Elvis Costello átti að koma en þeim tónleikum var frestað fram í júní á þessu ári.
Leikhúsupplifun ársins: Tvívegis fór ég á leikhús. Ég sá stórskemmtilegt barnaleikrit í Borgarleikhúsinu, Eldfærin, sem stelpurnar eignuðust á DVD um jólin og hafa horft oft á síðan. Hin sýningin var ópera. Það var Töfraflauta Mozarts í Hörpunni. Hún var eftirminnileg á allt annan hátt þannig að ég reyni ekki einu sinni að bera þessar sýningar saman.
Besta mynd sem ég sá í bíó á árinu: The Black Swan. Frábær leikstjóri hann Aronofsky. Ég hlakka til að sjá næstu myndir, sem detta inn í kvikmyndasalina á árinu, reikna ég með.
Besta mynd sem ég sá heima í stofu: The Kids Are All Right. Mjög nútímaleg mynd um áleitið vandamál og samskiptaflækjur. Listilega vel gerð mynd og skemmtileg, svolítið í anda "Juno".
Áhrifamesta sjónvarspþáttaröð sem ég sá á árinu: Africa - the Luminous Continent (Bob Geldof). Mjög sjokkerandi sería. Ég átti erfitt um svefn eftir einn þáttinn og var satt að segja starfur fram eftir á netinu að leita nánari upplýnga um efni þáttarins.
Besti sjónvarpsþáttur ársins: Áramótaþáttur Hljómskálans. Sá þáttur er reyndar að mínu mati besta skemmtiefni sem ég hef séð síðan Rúv sýndi "Gætt´að hvað þú gerir maður" árið 1984. Ég var gáttaður af hrifningu minni á því hvernig þeir í Hljómskálanum náðu að framreiða skemmtiefni sem var raunverulega stórskemmtilegt.
Endurmat ársins: Baggalútur. Ég hef alltaf vísað þeim frá mér sem skemmtilegum trúðum en geri mér betur grein fyrir því núna að framlag þeirra til íslenskrar dægurmenningar er ómetanlegt.
Hrossakaup ársins: Sjónvarpsserían "Roots" (Rætur) sem ég fann á markaði fyrir slikk í vönduðum DVD kassa. Hún kom fólki alveg í opna skjöldu þegar ég opinberaði hana sem jólagjöf til allrar fjölskyldunnar.
Breyting ársins: Signý fór úr leikskóla og yfir í grunnskóla. Hún átti frekar erfitt með að aðlagast breytingunni. Um svipað leyti fékk hún sýkingu í hálsinn og missti matarlystina í nokkra mánuðu. Maður veit ekkert hvað er orsök og hvað afleiðing. En hún virðist vera að braggast núna, sem betur fer, og orðin sáttari í skólanum.
Framfarir ársins: Signý er farin að lesa og Hugrún fylgir henni eins og skugginn.
Ný venja árins: Við fórum að venja okkur á sund á föstudögum. Notaleg byrjun á helgi. Okkur fannst þetta lengja helgina því föstudagarnir hafa oft verið hálf ónýtir dagar vegna þreytu.
Frumkvæði ársins:
Þáttaka í hárgreiðslunámskeiði; svokölluðu pabbanámskeiði.
Óvænt uppákoma ársins: Lenti tvisvar í sjónvarpinu. Gæti verið að við höfum verið virkari út á við en áður?
Afmæli ársins: 75 ára afmæli pabba. Þetta var sérlega ánægjulegur dagur.
Áfangi ársins: 50 ára brúðkaupsafmæli mömmu og pabba sem haldið var með pompi og prakt heima hjá þeim. Við fórum vandlega yfir fimmtíu ára sögu fjölskyldunnar með afslappaðri kertaathöfn.

Engin ummæli: