þriðjudagur, október 28, 2008

Upplifun: Einn heima

Nú eru tveir dagar síðan Vigdís fór út. Hún kemur aftur eftir aðra tvo (á fimmtudaginn kemur). Á sama tíma er Hugrún nýbyrjuð í í leikskólanum (aðlögunin gengur vel) og er í dag til klukkan hálf fjögur. Sjálfur á ég nokkra daga eftir af feðraorlofinu mínu. Þetta fellur allt saman með þeim hætti að ég hef loksins tíma út af fyrir mig og get athafnað mig nánast algjörlega á eigin forsendum tímunum saman. Það er undarleg tilfinning. Hvað gerir maður við svona stundir? Á maður að læðast upp í rúm fyrst það er svona mikill friður í húsinu, eða á maður heldur að nýta tækifærið og spila tónlist sem bara ég hef gaman af? Kannski ætti ég að reyna að gleyma mér í miðbænum, röltandi í tímaleysi milli verslana og kaffihúsa, eða skreppa í heimsóknir? Á ég að sinna áhugamálum mínum og verkefnum, taka fram pappíra og bækur og dreifa úr þeim um öll borð? Núna er enginn til að amast út í ruslið eða róta í dótinu.

Það fylgja því ýmsir kostir að vera einn. Eflaust á ég eftir að verða þreyttur á því undir það síðasta því það tekur á að finnast maður stöðugt þurfa að nýta tímann vel og þurfa jafnframt að passa að vanrækja ekki heimilið. Vigdís hefur yfirleitt séð um að setja í töskur fyrir Hugrúnu og Signýju og passað upp á að þær vanti ekkert á meðan ég sé um að skutla þeim. Hún er svona í því eftirlitshlutverki dags daglega að tryggja að ekkert klikki á meðan ég er sá sem geri flest viðvik. Hún passar sem sagt upp á að ekkert "klikki" og ég passa upp á að hlutirnir "gangi". Sú verkaskipting hefur gengið ágætlega til þessa. Nú hef ég hins vegar alla yfirumsjón og þarf að gæta þess að vera ekki vera annars hugar. Verst að maður tímir ekki að hvíla sig á meðan allir eru í burtu.

Þetta er undarlegt ástand en hollt því ég nýt mín í þögninni. Þegar maður er með tvö leikskólabörn á heimilinu er þögnin sérstaklega dýrmæt. Núna fann ég til dæmis mikla þörf fyrir að skrifa í dagbókina mína aftur, þessa gömlu, prívat, inni í svefnherbergi, og er farinn að taka upp gamlar og góðar bækur til að lesa á ný. Það er gott að nýta tímann til að enduruppgötva það sem maður hefur gleymt upp á síðkastið í erlinum dags daglega og reyna að draga það fram á ný.

fimmtudagur, október 23, 2008

Fréttnæmt: Leikskólaaðlögun

Aðlögun Hugrúnar gengur samkvæmt vonum. Hún tekur þessari nýbreytni allri með stóískri ró. Hún arkar bara beint af augum og skoðar það sem fyrir augu ber. Það er svo margt skemmtileg að gera í leikskólanum. Það eru ekki endilega hin hefðbundnu leikföng sem heilla. Skemmtilegast er að þramma fram og til baka á mjúkri dýnu, skoða sjálfa sig í risastórum spegli eða rúlla á undan sér bolta á stærð við hana sjálfa. Á morgun hvílist hún eftir hádegi í fyrsta skipti á deildinni, en hingað til hefur hún bara verið fram að hádegi, og aukið við sig í smá skömmtum. Á mánudag verður hún svo fram að kaffi (og ég sit með henni í kaffitímanum) en daginn eftir er hún sjálf fram yfir kaffi, og ég sæki snemma. Á miðvikudag verður hún loks fullnuma í leikskólafræðunum.

Fullt af orðum streyma frá Hugrúnu þessa dagana. Eitt það nýjasta kom í gær er hún virti fyrir sér nýfallna fönnina allt í kring. Hún benti á þetta fyrirbæri og sagði: "Sjónni" (með blæstu Þ-hljóði í stað S-ins). Í matnum á leikskólanum sagði hún "glas" í fyrsta skipti í mín eyru og fínpússaði framburðinn jafnt og þétt frá "gaþ" og yfir í að nota fallegt "L". Núna talar Hugrún mikið um "mús" og "missa"(kisa) (með sama S-framburði og áður). Þegar hún minnist á Mikka mús, hins vegar, slær þessu tvennu saman í "missa mús".

Þegar Hugrún verður eins og hálfs (eftir rúma viku) stefni ég að því að taka saman yfirlit yfir orðaforðann sem safnast hefur saman undanfarið. Vonandi næ ég hins vegar fyrst að renna yfir sérstæðan framburð Signýjar, áður en hann heyrir fortíðinni til, ásamt uppáhalds frösum hennar.

mánudagur, október 20, 2008

Upplifun: Sinfóníur Síbelíusar

Ég geri það ekki endasleppt í menningarlífinu þessa dagana. Á meðan Galapagosfyrirlesturinn frá því í fyrri viku var enn í fersku minni skelti ég mér á tvenna sinfóníutónleika. Sinfóníuhljómsveitin var nefnilega með Síbelíusarmaraþon (svo maður orði það á íþróttamáli). Síbelíus samdi sjö sinfóníur og einn fiðlukonsert á langri starfsævi (ásamt ýmsu öðru). Þetta var allt flutt svo að segja í einum rykk á þrennum tónleikum, frá fimmtudegi til laugardags. Þar sem ég er mikill aðdáandi Síbelíusar (og hef verið frá því ég uppgötvaði sinóníurnar hans fyrir tæpum tuttugu árum) gat ég ekki látið þetta fram hjá mér fara. Fékk Villa bróður til að fara með mér á fyrstu tónleikana (fyrsta og þriðja sinfónían plús konstertinn) og fór einsamall á aðra tónleikana (önnur og fjórða sinfónían). Þriðju tónleikunum sleppti ég hins vegar vegna anna, en var svo sem búinn að fá vænan skammt og þurfti ekki meira í bili.

Tónleikarnir voru báðir á köflum magnaðir en misjafnir. Konsertinn fannst mér til dæmis ekki vel heppnaður. Fannst vanta bæði meiri ruddaskap og nákvæmni í flutninginn. Sinfóníurnar voru hins vegar að mestu leyti glæsilega fluttar. Einn og einn kafli virkaði eitthvað þreyttur (mikið álag á hljómsveitinni að æfa þetta allt upp) og kom út sem skortur á fínu blæbrigðunum. Inn á milli voru hins vegar svo glæsilegir kaflar að ég man ekki eftir að hafa heyrt þá flottari. Sérstaklega átti það við um lokakafla annarrar sinfóníunnar (seinna tónleikakvöldið). Sú sínfónía er eitt vinsælasata verk Síbelíusar og er einn af hápunktum rómantíska tímans í klassíkinni. Lokakaflinn er einstaklega lagrænn og ástríðufullur og sínfóníuhljómsveitin gerði honum svo góð skil að ég var hreinlega vankaður eftir tónleikana. Ég hreinlega vafraði um í myrkrinu þegar ég gekk út. Þvílík tónlist, þvílík hafbylgja af hamingju! Verkið var samið á Ítalíu, en þar dvaldi Síbelíus fyrir rétt rúmlega hundrað árum til að rífa sig upp úr þunglyndi. Við njótum afrakstursins enn þann dag í dag, sem er ekkert nema forréttindi og munaður á svona dimmum tímum.

þriðjudagur, október 14, 2008

Fréttnæmt: Foreldrafundur og Hugrúnarupphitun

Í dag var foreldrafundur í Vesturborg þar sem leikskólakennararnir á deildinni hennar Signýjar (Miðbæ) kynntu starfsemina fyrir foreldrum. Við Vigdís fórum bæði, með Hugrúnu. Nú vill svo til að það er ekki nema um vika þangað til Hugrún byrjar aðlögun sína á yngstu deildinni (Norðurbæ). Miðað við líðan hennar í morgun (og hennar atgervi yfir höfuð) þá er það fyrirsjáanlegt að hún kemur til með að renna inn mjög mjúklega. Hún naut sín til hins ítrasta innan um allt dótið og arkaði eins og herforingi á milli sala. Ég hlakka bara til að byrja á mánudaginn kemur :-)

Daglegt líf: Í skugga kreppunnar, seinni hluti

Á fimmtudaginn var náði samfélagið botninum með lögsókn Breska ríkisins yfir höfði sér. Vorum við að missa allt frá okkur? Var raunveruleg hætta á því að við misstum sjálfstæði okkar? Við Jón Már ákváðum að bregða okkur út úr þessari þrúgandi umræðu og kíktum á fyrirlestur ásamt heimildarkvikmyndarsýningu um Ekvador og Galapagoseyjar (sem tilheyra Ekvador). Þetta er liður í hátíðahöldum í Kópavogsbæ þar sem veglega er hampað einni þjóð á hverju ári í formi listviðburða af ýmsu tagi. Ekvador var þemað í ár.

Reyndar var um nokkra fyrirlestra að ræða og voru þeir allir áhugaverðir, hver á sinn hátt. Ari Trausti er með afbrigðum frambærilegur og öruggur fyrirlesari, enda einn okkar færustu fræðurum um náttúru og ferðalög. Hann sagði frá landinu - bæði eyjunum og meginlandinu, og þar kom fram ansi athyglisverð staðhæfing um að Ekvador sé það land í heimi sem búi yfir mestri fjölbreytni lífríkis á jörðinni (og þá var ekki tekið tillit til stærðar). Landið slær meira að segja Brasilíu léttilega út - án þess að taka Galapagos með í reikninginn. Ástæðan er sú að landið nær ekki aðeins yfir regnskógasvæði heldur líka fjölbreytt hálendi (tvo fjallgarða og hásléttu þar á milli) og Kyrrahafsströndina að auki (sem býr yfir allt öðruvísi lífríki). Í þessum samanburði við önnur lönd var Indónesíueyjaklasinn hugsanlega undanskilinn, en það gerir staðhæfinguna ekki síður merkilega þar sem landið er mjög lítið (aðeins þrisvar sinnum stærra en Ísland).

Hinir fyrirlestrarnir voru líka fínir. Innblásinn fyrirlesari frá Ekvador, fræðimaður á sviði sjálfbærrar ferðamennsku, sagði frá landi sínu frá ýmsum hliðum. Svo var ágætur fyrirlestur um lífríki Galapagos sem íslenskur líffræðingur tók saman eftir dvöl þar. Mér fannst hvað merkilegast hvað lífverur eyjanna eru spakar, samkvæmt lýsingunni. Ekki gerist það hér á Íslandi að fálki sest á grein tvo metra í burtu frá manni og virðir mann varla viðlits?

Að lokum var sýnd mynd um Ekvador og Galapagos. Hún var reyndar ekki eins vönduð og ég hafði gert mér vonir um. Hún reyndist vera aðeins um tuttugu mínútur að lengd og var eins konar samanklippt túristamyndband, með þeim takmörkuðu gæðum sem tilheyra. Hins vegar var myndin markviss og skilaði sínu prýðilega þegar upp var staðið og mörg skotanna voru mjög flott. Eiginlega var þetta eins og að horfa á Dogma mynd, með kostum þess og göllum. Manni fannst maður vera einn af hópnum sem þarna var staddur úti og sá landið út um rútuglugga eða af bátsþilfari. Lífríkið virkar þess vegna raunverulegra og nærtækara. Náttúruleg hljóð fengu sem betur fer að njóta sín þegar kvöldkyrrðin í Amazon var kvikmynduð af verönd kofans sem hópurinn gisti í. Mikið held ég að það sé magnað að vera staddur þar.

Hvíldin í Salnum var nauðsynleg og drjúg, enda gættu fyrirlesarar þess að minnast ekki á ástandið í samfélaginu eða peninga yfir höfuð. Eftir sýninguna fórum við hins vegar aftur út í spennuþrungið loftið utan Salarins. Þá var stutt í kvöldfréttirnar.

Daglegt líf: Í skugga kreppunnar, fyrri hluti

Manni finnst hálf ómerkilegt að rekja atburði sem áttu sér stað samtímis og samfélagið riðaði til falls. Fyrir vikið verð ég að kalla þennan póst "í skugga kreppunnar". Auðvitað aðhefst maður alltaf eitthvað þó að skugga sé varpað yfir allt. Við fórum til að mynda öll í eins árs afmæli Melkorku, þeirra Jóns Más og Margrétar. Þar voru saman komnir gestir úr ýmsum áttum og voru greinilega mjög uggandi. Þá voru þegar talsverðar blikur á lofti og þó enn stæðu tveir bankar uppi af þrem. Nokkrum dögum síðar hafði ástandið versnað til muna. Ég man eftir mér í stofunni heima horfandi á enn einn krýsufundinn í sjónvarpinu. Vigdís var á kvöldvakt svo ég ákvað bara að slökkva á öllu saman. Strangt til tekið þurfti ég ekki að fylgjast með þar sem við Vigdís erum eins trygg og hugsast getur með okkar takmörkuðu fjárhagslegu skuldbindingar. Við það fann ég annan kraft leysast úr læðingi, undan fargi umræðunnar. Staður og stund. Ég setti klassíska tónlist á og hlustaði með Hugrúnu og Signýju. Þær þekkja nú ótal tónverk (þökk sé Snillingunum) og það kom mér á óvart hvað þær voru þolinmóðar og hlustuðu af athygli á meira en bara þekktustu stefin. Heilu kaflarnir runnu í gegn og á endanum vorum við farin að dansa vals fram og aftur. Signý var sigri hrósandi og hrópaði: "Áfram Rauðka!" (=sögupersóna úr þáttunum). Ég tók undir með henni að sjálfsögðu, "áfram Rauðka", en þá bætti hún um betur og sagði: "Þú getur þetta alveg!". Mér fannst þetta aðallega fyndið þá en svona eftir á að hyggja finnst mér þau orð eiga svo sannarlega við á þessum síðustu og verstu tímum :-)

sunnudagur, október 12, 2008

Pæling: Kreppan

Jæja. Ég verð að brjóta ísinn. Í þessu fárviðri sem búið er að geisa í samfélaginu er maður nánast ófær um að setjast niður og taka hugsanir sínar saman. Það sem stendur upp úr er hversu þægilegt það er að vera eignalaus maður á þessum tíma. Hefðum við Vigdís skellt okkur á íbúð á síðasta ári hefði það þurft að standa tæpt í upphafi (við erum ekki það vel stæð) og á endanum kafsiglt okkur. Ég tala nú ekki um ef lánið hefði verið tekið í erlendri mynt. Sem betur fer eigum við enn innistæðuna okkar óskerta í bankanum. Til greina kom á sínum tíma að skipta yfir í sjóð níu en þá hefði maður tapað umtalsverðum upphæðum. Á gamla innlánsreikningnum okkar eru innistæðurnar hins vegar víst tryggðar. Eins gott. Vonandi nær það yfir lífeyrissjóði líka, svo maður hugsi til sinna allra nánustu. Mér skilst það reyndar.

Á stundu sem þessari verður manni helst hugsað til alls þess sem hægt er að njóta í lífinu án þess að það kosti krónu. Þeir sem vanir eru því að bruna um á neyslupeningum koma til með að eiga erfitt með að hægja á sér. Það er ekki allra að standa í þögn og njóta þess að hugsa. Það geta ekki allir gengið um í náttúrunni og látið tímann líða, eða standa í stað. Kannski fær maður svigrúm til að lesa bækurnar sínar loksins. Verst að Vigdís er búin að panta sér ferð til Danmerkur gegnum vinnuna sína. Þangað fer nokkur hópur saman að skoða ýmsar stofnanir og slappa af í fjóra daga í lok október. Greitt hefur verið fyrir ferð og gistingu nú þegar (sem betur fer) en neyslupeningarnir eiga eftir að vera blóðugir. Við skoðuðum matseðla á netinu af nokkrum valinkunnum stöðum í Köben og sáum í hendi okkar hvað hlutirnir muni kosta. Kaffibollinn hefur rokið upp úr ca. 350 krónum í 700. Máltíð kostar ekki lengur 1750 krónur heldur 3500. Þannig er það fram eftir götunum. Við höfum því ákveðið að ég verði þarna með henni í anda í Köben, á kaffihúsunum og veitingahúsunum, því hún borgar fyrir tvo :-)