þriðjudagur, október 28, 2008

Upplifun: Einn heima

Nú eru tveir dagar síðan Vigdís fór út. Hún kemur aftur eftir aðra tvo (á fimmtudaginn kemur). Á sama tíma er Hugrún nýbyrjuð í í leikskólanum (aðlögunin gengur vel) og er í dag til klukkan hálf fjögur. Sjálfur á ég nokkra daga eftir af feðraorlofinu mínu. Þetta fellur allt saman með þeim hætti að ég hef loksins tíma út af fyrir mig og get athafnað mig nánast algjörlega á eigin forsendum tímunum saman. Það er undarleg tilfinning. Hvað gerir maður við svona stundir? Á maður að læðast upp í rúm fyrst það er svona mikill friður í húsinu, eða á maður heldur að nýta tækifærið og spila tónlist sem bara ég hef gaman af? Kannski ætti ég að reyna að gleyma mér í miðbænum, röltandi í tímaleysi milli verslana og kaffihúsa, eða skreppa í heimsóknir? Á ég að sinna áhugamálum mínum og verkefnum, taka fram pappíra og bækur og dreifa úr þeim um öll borð? Núna er enginn til að amast út í ruslið eða róta í dótinu.

Það fylgja því ýmsir kostir að vera einn. Eflaust á ég eftir að verða þreyttur á því undir það síðasta því það tekur á að finnast maður stöðugt þurfa að nýta tímann vel og þurfa jafnframt að passa að vanrækja ekki heimilið. Vigdís hefur yfirleitt séð um að setja í töskur fyrir Hugrúnu og Signýju og passað upp á að þær vanti ekkert á meðan ég sé um að skutla þeim. Hún er svona í því eftirlitshlutverki dags daglega að tryggja að ekkert klikki á meðan ég er sá sem geri flest viðvik. Hún passar sem sagt upp á að ekkert "klikki" og ég passa upp á að hlutirnir "gangi". Sú verkaskipting hefur gengið ágætlega til þessa. Nú hef ég hins vegar alla yfirumsjón og þarf að gæta þess að vera ekki vera annars hugar. Verst að maður tímir ekki að hvíla sig á meðan allir eru í burtu.

Þetta er undarlegt ástand en hollt því ég nýt mín í þögninni. Þegar maður er með tvö leikskólabörn á heimilinu er þögnin sérstaklega dýrmæt. Núna fann ég til dæmis mikla þörf fyrir að skrifa í dagbókina mína aftur, þessa gömlu, prívat, inni í svefnherbergi, og er farinn að taka upp gamlar og góðar bækur til að lesa á ný. Það er gott að nýta tímann til að enduruppgötva það sem maður hefur gleymt upp á síðkastið í erlinum dags daglega og reyna að draga það fram á ný.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað ætlarðu að vera lengi einn heima drengur! Blogga meira blogga meira
kv
Andköf