sunnudagur, nóvember 02, 2008

Daglegt líf: Heimkoma

Vigdís kom á tilsettum tíma heim, á fimmtudaginn var. Daginn eftir átti Hugrún eins og hálfs árs afmæli. Hvort tveggja leið hjá á tiltölulega látlausan hátt. Signý og Hugrún tóku móti Vigdísi allt að því hversdagslega. Það var góðs viti að vissu leyti, sem vitnisburður um það að þær hafi ekki skort neitt í þessa fjóra daga. Ég passaði upp á að hafa alltaf nóg að gera með þeim meðan Vigdís var í burtu. Við fórum í margar heimsóknir þannig að þær upplifðu ekki neina fábreytni þó Vigdís væri fjarri Svo eru þær vanar því að fara að sofa öðru hvoru án móður sinnar vegna þess að hún vinnur stundum kvöldvaktir. Þetta gekk því átakalaust fyrir sig og Vigdís var satt að segja nokkuð hvumsa yfir því. Þetta var í rauninni bara eins og löng helgarvaktatörn. Hvað Hugrúnu varðar (og hennar tímamót) gerðum við ekkert til að halda upp á það annað en að minnast á það hér og þar við þá sem á vegi okkar urðu. Ég ætlaði mér að vera með myndarlegan pistil um þroskastöðu hennar á þessum tímamótum, en það verður víst að bíða ögn lengur. Maður er alltaf að glíma við þennan blessaða tímaskort.

Engin ummæli: