þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Upplifun: Skírn í Bessastaðakirkju

Núna um helgina gerðist það markverðast að við Vigdís fórum í skírn til Bjarts og Jóhönnu. Litla systir Friðriks Vals var þá skírð um eftirmiðdaginn í Bessastaðakirkju (því miður gleymdum við myndavél í flýtinum en vísum þess í stað á nýlega myndskreytta færslu hér fyrir neðan).

Við vorum búin að velta því fyrir okkur, eins og gengur, hvaða nafn hún skyldi hljóta. Við gerðum okkur smá leik úr því, skrifuðum nokkur nöfn á blað og settum í umslag til þess að kíkja á þegar við kæmum heim. Þetta gerðum við kvöldið fyrir. Um morguninn vaknaði Vigdís hins vegar með nafnið Dagmar í kollinum og fór að bera það saman við föðurnafnið: "Dagmar Bjartsdóttir". Ég var þá kominn á fætur og frétti ekki af þessu fyrr en eftir á. Í kirkjunni sjálfri fékk ég hins vegar sambærilegt hugboð, eða "moment of clarity" eins og það var kallað eftirminnilega í Pulp Fiction. Sem sagt, einni mínútu áður en nafnið var opinberað gerði ég mér skyndilega grein fyrir því að sú litla hlyti að heita Helga, enda heitir móðir Bjarts því virðulega og kristilega nafni. Ég hallaði mér strax að Vigdísi og hvíslaði að henni: "Það er Helga".

Dagmar Helga heitir hún. Það er mikið spunnið í þetta nafn og það rennur líka ljómandi vel saman. Það sem er hins vegar undarlegt er að þegar ég bar nafnið saman við ljósmynd af Dagmar Helgu þá horfði myndin til baka eins og hún hafi alltaf heitið það.

Athöfnin var virðuleg, markviss og þægileg í afar fallegri kirkju (það eru ekki margir sem geta sameinað á einum stað vinnu sína og persónulegustu stundir með þessum hætti). Okkur var sv boðið til veislu í foreldrahúsum Jóhönnu, í Grafarvoginum. Þar vorum við svolítið á jaðrinum, eins og gefur að skilja, en þekktum samt nógu marga til að geta látið fara mjög vel um okkur. Ekki skemmdi fyrir að Signý og Hugrún voru í pössun hjá mömmu og pabba þannig að við tvö vorum afslöppuð eftir því og gátum gætt okkur á fjölbreyttum veitingum. Sumt af því sem þar var í boði hefur nú þegar ratað í uppskriftabókina mína og verður vonandi á boðstólum á næstunni (ekki langt í næsta afmæli, en Signý verður þriggja ára í desember). Við kunnum hins vegar gestgjöfum okkar bestu þakkir fyrir ánægjulegan tíma í Grafarvoginum og notalega skírn í þessari einstöku kirkju.

Engin ummæli: