föstudagur, nóvember 07, 2008

Daglegt líf: Signý og Hugrún í leikskólanum

Núna í vikulokin er minnisstæðast að veikindi fóru að banka á dyrnar hjá okkur á ný eftir margra mánaða hlé. Hugrún veiktist lítillega á þriðjudag og var frá leikskóla í tvo daga. Það reyndist vera minniháttar og hún var fersk í gær og í dag. Signý var hins vegar slöpp í dag. Var með eitthvað í hálsinum í gær (með viskírödd) en brött þrátt fyrir það. Í morgun var hún hins vegar ekki sjálfri sér lík í leikskólanum, lífslgöð eins og hún er, og kúrði bara í stað þess að leika sér. Ég sótti hana um tíuleytið. Samkvæmt mælingum heima reyndist hún hins vegar ekki með hita. Vonandi er þetta hvort tveggja að baki.

Við þetta sköpuðust hins vegar þær sérstöku aðstæður að ég fór heim með Signýju án þess að ná í Hugrúnu líka. Signý er mjög meðvituð um litlu systur sína á yngstu deildinni og spurði mig um hana um leið og ég hélt á henni út um dyrnar. Ég tók stóran sveig fram hjá glugganum hennar Hugrúnar (til að koma henni ekki úr jafnvægi) en benti Signýju hins vegar á að þarna sæti litla systir, fyrir innan gluggann í fjarska. Þegar hún skildi að ég myndi skilja Hugrúnu eftir fór hún að gráta, með sinni veiku röddu, og fannst greinilega óþægilegt að skilja systur sína eftir. Skyldi hún hafa svona mikla verndarþörf? Fannst henni Hugrún vera óörugg svona ein í leikskólanum? Að minnsta kosti grét hún ámátlega á leiðinni heim. Þá skildi ég við hana með Vigdísi (sem er enn í fríi, sem betur fer) og fór sjálfur í vinnuna á ný.

Þegar ég sótti Hugrúnu um fjögurleytið fagnaði sú litla mér ákaft en um leið og við komum í fatahengið spurði hún um systur sína. "Diþdi" (systir) sagði hún undrandi, aftur og aftur, og fannst greinilega vanta systur sína.

Signý og Hugrún eru bundnar mjög sterkum tilfinningalegum böndum. Starfsfólkið hefur tjáð sig um það við mig að það sé mjög sætt að sjá þær hittast á leikskólalóðinni. Þá hlaupa þær í fangið á hvorri annarri. Síðan fylgir Signý Hugrúnu eftir og hjálpar henni í leiktækjunum. Ég gæfi mikið fyrir að fá að fylgjast með því.

Engin ummæli: