mánudagur, nóvember 10, 2008

Draumar: Árbæjaróbyggðir og Malvíkingar

Mig dreymdi tvo furðulega drauma í nótt. Annar þeirra var frekar skuggalegur en hinn var bara fyndinn.

Sá fyrri átti sér stað í þeim afskekkta hluta Árbæjarins þar sem Árbæjarsafnið er til húsa, sunnan við Ártúnsbrekku/Vesturlandsveg (heitir það ekki Ártúnsholt?). Þar dreymdi mig að væru óbyggðir (eins og Geldingarnes) nema mikið víðáttumeiri og skógi vaxnar. Holtið gnæfir þar svæðinu í kring, bæði hátt og ógreiðfært, og bæjarbúar sneiða hjá því með því að keyra fram og aftur Höfðabakkann. Einn stígur liggur þó inn á svæðið gegnum skóginn og upp hæðina þar sem hann endar á berangri uppi á toppi. Þar er eins konar sambland af sumarhúsi og eyðibýli, hús sem fáir vita af. Þar fannst mér ég vera staddur ásamt gömlum æskuvini mínum (sem ég hef í raun ekki séð í yfir áratug) og hann var þar með kærustu sinni (sem í raun er bara einhver kollegi minn af BUGL-inu). Við sitjum þarna á verönd seint um kvöld, ég og æskuvinurinn, og erum eitthvað að skoða myrkrið þegar kærastan hans kemur dæsandi til okkar úr rjóðrinu, hálf grátandi, og tjáir sig um það við okkur að hún hafi verið að villast tímunum saman og haldið að hún myndi ekki finna húsið aftur. Ég styð hana varlega og segi henni að ég skilji vel hvernig henni líði vegna þess að ég hef lent í þessu sjálfur. Hún er í miklu uppnámi.

Þá vaknaði ég um miðja nótt, með ónotalega kennd og átti erfitt með að festa svefn strax aftur. Ég náði samt að sofna og náði greinilega að bægja þessu frá mér því um morguninn vaknaði ég með allt annars konar hugsanir:

Ég var á næturvakt á sambýli sem ég vann á fyrir rúmum tíu árum. Næturvaktir nýtast vel til þess að velta vöngum. Mér varð allt í einu hugsað til Malaví, þar sem Stefán Jón Hafstein hefur verið starfandi um nokkurt skeið og fatta í leiðinni að íbúar Malaví hljóti að kallast Malvíkingar, af því að Malaví er alveg eins og Reykjaví (ekkert K). Ég var svo uppnuminn yfir þessari uppgötvun að það hvarflaði að mér að hafa samband við Stefán Jón sjálfan og segja honum frá því hvernig hann getur loksins ávarpað fólkið kringum sig. Þá finnst mér eins og hann hafi svarað mér (því allt rennur saman í draumum) með því að þakka mér góðfúslega fyrir uppástunguna en að hugmyndin gangi einfaldlega ekki upp: Malaví er landlukt og því engin leið að ímynda sér að víkingar hafi gengið þar á land.

Engin ummæli: