sunnudagur, nóvember 16, 2008

Þroskaferli: Fleiri orð og frasar

Ég var að klæða Hugrúnu eftir baðið rétt áðan þegar hún fór að endurtaka undarlegt orð: "dley!". Hún sagði þetta með vissum ákafa. Hún fór að sýna mikla óþreyju þegar ég rétti henni hitt og þetta og hélt áfram að biðja um "dley". Sjálfur var ég orðinn þreyttur eftir langan dag og meðtók ekki hvað hún nákvæmlega sagði. Þá stoppaði ég mig af og ákvað að hlusta markvisst: D-L-E-Y. Síðan fletti ég í Hugrúnarorðabókinni í huganum og mundi eftir orðinu sem nýtilkomnu og mundi sérstaklega að það var óvenjulega samsett miðað við merkingu þess: KREM. Þegar ég loksins bar það undir hana hvort hún vildi fá krem fann ég að henni létti mikið og hún sönglaði orðið gleðilega fyrir sér á meðan ég bar kremið á hana í bak og fyrir.

Það eru alltaf að bætast við ný og ný orð. Sum eru bara á tilraunakenndu stigi, tilfallandi, jafnvel bara eins og bergmál af því sem hún heyrir í kringum sig. Eins og til dæmis á föstudaginn var, þegar við kvöddum starfsfólkið, þá sagði ég "bless-bless" og Hugrún tók eftir þessari tvítekningu undireins og bergmálaði það sem ég sagði: "beþþ-eþþ". Hún hlustar greinilega gaumgæfilega á það sem sagt er og er dugleg að endurtaka.

Um kvöldið kom hún okkur hins vegar verulega á óvart. Ekki með nýju orði, heldur með eins konar setningu. Ég hélt á henni og var að fara með hana inn í svefnherbergi, en stóð um stund fyrir framan Vigdísi. Þá horfði hún hróðug á mig og sagði: "pabbi MINN"! Ég spurði Vigdísi í forundran hvort hún hefði tekið eftir þessu, en hún var ekki viss (sagðist hætt að kippa sér upp við það sem hún segir). Í þeirri andrá bætti Hugrún um betur og sagði: "Mamma MÍN"! Þá urðum við bæði jafn undrandi.

Maður hefur heyrt hana segja ýmislegt öðru hvoru sem líkist setningum, eins og "búin pela" eða "búin núna". Þetta var hins vegar fyrsti óyggjandi vísirinn að markvissri setningarnotkun.

1 ummæli:

Steini sagði...

Í dag sagði hún til dæmis "mamma, ó, ó" þegar hún sá hana klóra sér í sár. Þetta er allt að koma.