laugardagur, desember 31, 2011

Daglegt líf: Snjóhúsagerð

Hvenær fellur feikilegt fannfergi og hvenær er bara eðlileg snjókoma? Það er kannski ágætur mælikvarði á fannfergi að þegar það tekur styttri tíma að búa til snjóhús en að moka bílinn út úr stæðinu, þá hefur óeðlilega mikið fallið á einni nóttu. Í fyrradag vöknuðum við, eins og allir aðrir, við allt annað landslag en daginn á undan. Það var ópraktískt að fara út úr húsi nema rétt út á lóð. Stelpurnar fengu frí frá leikskóla og frístundaheimili, ekki vegna þess að ég kæmist ekki út úr stæðinu heldur voru aðrir bílaeigendur fastir í götunni rétt fyrir aftan stæðið. Við ákváðum bara að halda okkur heima, enda við Vigdís bæði í fríi, og helguðum daginn snjóhúsagerð. Vigdís mallaði heitt súkkulaði og bara fram sætindi á meðan og beið eftir því að við hin kæmum inn úr snjónum. Það verður ekki mikið jólalegra. Reyndar kláruðum við ekki snjóhúsið heldur bjuggum við bara til fjall/hól í miðjum garðinum og eigum enn eftir að grafa okkur inn. Það bíður betri tíma. Við vorum hins vegar dugleg að þétta hólinn með því að renna okkur á honum á sleða. Meira að segja ég sveiflaði mér upp á hann á eins og á brimbretti og mjakaðist niður hinum megin. Núna er hins vegar von á slyddu yfir áramótin og síðan frystir aftur. Það hentar okkur vel. Þá verður hóllinn orðin glerharður á nýju ári og húsið öruggt. Þá getum við loksins flutt inn.

Tómstundir: Nýtt áhugamál Signýjar

Þetta eru búin að vera fín jól. Við fjölskyldan höfum sofið út upp á hvern einasta dag, aldrei þessu vant. Stelpurnar eru vanar að vakna um áttaleytið um helgar en einhvern veginn duttu þær inn í aðra svefnrútinu. Mjög notalegt. Signý uppgötvaði líka nýtt áhugamál núna á aðventunni og um jólin. Hún fór á skauta með frístundaheimilinu tveim dögum fyrir jól. Fyrst ætlaði hún ekki að fara og talaði um að "bara horfa". Þá ákvað ég að fara með og hvatti hana til að fara inn á svellið. Með stuðningi var hún ákveðnari og skemmti sér fljótt vel. Hún náði hratt árangri með sérstakri stuðningsgrind og áður en hópurinn yfirgaf svellið var hún farin að ýta grindinni frá sér. Strax á eftir talaði hún um að fara aftur á skauta og sú tilhlökkun yfirskyggði tilhlökkunina eftir jólunum. Við skelltum okkur öll á skauta fyrsta virka dag eftir jólin og þá fékk Hugrún að prófa. Signý naut þess að vera orðin tiltölulega örugg en Hugrún var pínu svekkt yfir að vera ekki orðin jafn klár og systir sín í fyrstu tilraun. En svona er þetta bara. Þær eiga ábyggilega eftir að reyna aftur og aftur og ná góðum tökum á þessu. Það verður gaman að sjá árangurinn á árinu sem er framundan.

mánudagur, desember 26, 2011

Þversögn: Hlutverk jólasveina

Jólin eru i fullum gangi. Um daginn, þegar stormur gekk yfir landið í hryðjum, voru menn að stússast í ýmsu í undirbúningi aðfangadagskvölds. Vigdís var heima ásamt Signýju en Hugrún var til í að skjótast með mér á nokkra staði með pakka. Þetta var á hádegi og tiltölulega góður tími til stefnu. Vigdís raðaði gjöfum í poka og sorteraði vandlega þannig að einn poki átti að fara á hvern stað. Þegar hún ætlaði að setja merkimiða á pokana stoppaði ég hana af því ef ég myndi lenda í vafa gæti ég alltaf kíkt í pokana og skoðað merkinguna á þeim. Hún svaraði: "Heldurðu að þú ráðir við þetta?". Ég brosti afslappaður: "Þetta er auðvelt" og fannst hún hafa allt of miklar áhyggjur. Þá svaraði hún og skellti fram óvæntri þversögn: "Ég treysti þér ekki. Þú ert svo mikill jólasveinn!"

Þegar maður deilir út gjöfum hlýtur að vera kostur að vera jólasveinn, er það ekki?

Gleðilega hátíð.

miðvikudagur, desember 21, 2011

Skólinn: Jólaleikrit

Eins og fram kom síðast er mikið búið að vera í gangi. Fyrsta meiriháttar umstangið var í kringum jólaleikritið í Grandaskóla. Þá redduðum við Vigdís okkur pása frá vinnu til að komast og mættum með allar tiltækar myndavélar. Þetta kom ákaflega vel út hjá fyrsta bekk. Allir krakkarnir fengu hlutverk og til þess að svo yrði varð að tvískipta hópnum (stór árgangur) þannig að leikritið var leikið í tveimur hollum. Mikil vinna fyrir kennarana sem eiga hrós skilið fyrir skipulagið. Það var athyglisvert að nemendur fluttu allan texta og skiptu honum á milli sín, blaðalaust. Signý var í englahjörðinni ásamt nokkrum vinkonum sínum og flutti: "Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem Hann hefur velþóknun á" (ég vona að ég hafi haft þetta rétt eftir :-). Signý var nýbúin að fara í klippingu og var með liðaða englalokka. Hún tók sig mjög vel út. Við kipptum Hugrúnu meira að segja með okkur úr leikskólanum þannig að þetta var fjölskylduskemmtun með piparkökum og kakói á eftir.

Þær Hugrún voru býsna uppteknar af helgileiknum um tíma og léku sér heima með leikritið á sinn hátt. Þær renndu í gegnum leikritið með brúðunum sínum. Það er ágætt að geta prufukeyrt hlutverk sín með þessum hætti. Signý á það til að gera þetta líka með hlutverk sitt í daglega lífinu, eins og í skólanum. Þá fer hún í hlutverk kennslukonu og breytir Hugrúnu í nemanda. Maður sér þá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í skólanum (eins gott að þar sé allt með felldu :-).

Svo sungu þær jólalög í kringum uppfærslurnar sínar: Bjart er yfir Betlehem sérstaklega. Ég tók eftir því að Signý fór rangt með eitt orð í textanum "... var hún áður vitringum VINA-ljósið skæra". Ætli hún hafi verið að hugsa um VINA-súluna í Viðey? Nú er ég að vitna í Friðargönguna sem farin var á vegum leikskólans í október í fyrra í tengslum við tendrun Friðarsúlunnar. Þá kom Signý heim með skilti sem á stóð "Allir vinir". Einhvern veginn tókst henni að tengja Friðarsúluna við skilaboðin á skiltinu sínu. Friðarsúlan heitir sem sagt VINA-súlan á okkar heimili og nú virðist sem vinaljósið skíni líka frá Betlehemstjörnunni. Þetta er eiginlega ekki hægt að leiðrétta. Snýst ekki annars allur friðarboðskapur um að allir eigi að vera vinir?

föstudagur, desember 16, 2011

Fréttnæmt: Annasöm aðventa

Nú er desember búinn að vera erilsamur. Það munar talsvert um það að hafa stelpurnar á sitt hvorum staðnum og vera svo sjálfur þar að auki starfandi í þriðja skólanum. Fyrir vikið fórum við í piparkökuföndur í þrígang. Á sama tíma var Signý upptekin við það að æfa jólaleikritið (þar sem hún var engill með sannkallaða englalokka). Þegar því sleppti var stutt í afmælið hennar, sem haldið var upp á í tvennu lagi: annars vegar fjölskylduboð (síðastliðinn sunnudag) og svo krakkaafmæli (á þriðjudaginn var). Mitt á milli þessara tveggja daga dró svo til stórtíðinda þegar Signý og Hugrún eignðust lítinn frænda. Það var móðursystir þeirra, hún Ásdís, sem eignaðist myndarlegan dreng. Hún mætti reyndar í afmælið á sunnudaginn og það lá vel á henni. Síðan frétti maður af því að morguninn eftir væri drengurinn væri bara fæddur! Svona gerist þetta stundum án mikils fyrirvara. Allt gekk að óskum og Almar litli mætti stoltur með mynd af honum í leikskólann í gær. Signý og Hugrún eru líka voða spenntar fyrir því að sjá litla frænda og eiga von á að fá að kíkja á næstu dögum.