mánudagur, janúar 31, 2011

Upplifun: Ónotaleg kvöldstund - fyrri hluti

Við Vigdís urðum fyrir verulega ógnvekjandi upplifun um helgina og vorum beinlínis heppin að sleppa ósködduð. Það var á laugardaginn (stelpurnar komnar í pössun) að við ákváðum að nýta kvöldið að hluta til í bænum með því að fá okkur smá snarl og sjá svo til með framhaldið. Við fórum á Hamborgarabúlluna þar sem ég fékk mér grænmetisborgara en Vigdís hefðbundin ostborgara. Síðan var ekið upp Hverfisgötu og aftur niður Laugaveginn. Við tókum okkur drjúgan tíma í að velta því fyrir okkur hvort okkur langaði í bíó eða bara á kaffihús. Við vorum komin einn hring þegar Vigdís stakk upp á því að fara aftur niður Laugaveginn. Þá vorum við stödd í Hafnarstræti á móts við veitingahúsið Hornið á leiðinni upp eftir þegar skyndilega birtist fólksbíll á fullri ferð frá hægri (líklega á 40-50 km hraða) og skeytti engu um aðra umferð (ökumaður var ungur strákur, með vinstri hönd út um opinn glugga og horfði einbeittur og hvasseygur áfram). Okkur krossbrá enda munaði engu að við yrðum fyrir bílnum. Ég rétt náði hemla (á minni löturhægu ferð) og náði að ýta snögglega á flautuna þegar hann hvart til vinstri, svona til áminningar. Við prísuðum við okkur sæl fyrir að hafa sloppið með skrekkinn, enda virtist ökumaðurinn vera í annarlegu ástandi. Svo hugsuðum við ekkert meira um það og ókum sem leið lá til vinstri, en sáum þá bílinn þar kyrrstæðan við gatnamótin á móts við Tollhúsið. Hann hafði þá staðnæmst við gatnamótin. Ég hugsaði nú með mér að ég hefði betur farið beint áfram Hafnarstrætið en fyrst svo var komið ákvað ég að ögra honum ekkert frekar og horfði bara beint áfram. Hann beygði síðan til vinstri og við héldum okkar leið áfram til hægri, upp Hverfisgötuna, óáreitt (að við héldum).

miðvikudagur, janúar 26, 2011

Tónlist: Eins konar annáll

Á morgun er frí í leikskólanum þannig að stelpurnar fengu að njóta sín aðeins lengur frameftir en venjulega. Við spiluðum skemmtilegt spil sem ég fann rétt fyrir jól, eins konar lönguvitleysu með dýramyndum og stærðarsamanburði. Þær spiluðu þetta ákafar í klukkutíma þannig að við steingleymdum að horfa á mynd saman. Það átti nefnilega að vera "kósí kvöld" og oftast tengir maður það við makindalegt kvöld fyrir framan sjónvarpið þar sem allir horfa saman á eitthvað ánægjulegt (til dæmis barnamynd sem höfðar til breiðs hóps). En núna var kvöldið annars eðlis og það var góð tilbreyting. Svo keyptum við ís með kókosbragði frá Kjörís. Ég mæli eindregið með honum. Hann er nýr á markaðnum.

Þegar stelpurnar voru sofnaðar höfðum við Vigdís nægan tíma til að klára mynd sem ég tók á bókasafninu nýlega: "I´m Your Man". Þetta er viðtalsmynd við Leonard Cohen í bland við heiðurstónleika sem haldnir voru í hans nafni (þar sem fram koma Nick Cave, Jarvis Cocker úr Pulp og svo Bono og félagar úr U2 ásamt fleiri tónlistarmönnum). Mjög vel heppnuð mynd í alla staði. Við tókum hana reyndar fyrir nokkrum árum þegar hún var nýkomin út en þurftum að endurnýja kynnin. Ástæðan er sú að á síðasta ári kynntumst við Cohen sérlega vel. Vigdís tók ástfóstri við tónlist hans og ég náði í nokkrar plötur. Sjálfur þekkti ég ekki nema um tvær plötur með honum almennilega svo þessi áhugi hennar Vidísar var mér mjög að skapi. Ég hellti mér nú ekki út í þetta með sama hætti og Vigdís (hún þekkir textana hans núna nánast utanbókar) en flaut með. En það er eitthvað við þessa kynslóð tónlistarmanna sem greip Vigdísi í fyrra því Dylan bankaði líka upp á og fékk að vera með okkur öðru hvoru. Hann eigum við eftir að skoða betur í ár (maður þekkir hann skammarlega lítið fyrir utan það sem hefur heyrst í útvarpinu) en platan "Blood on the Tracks" hefur reynst magnaður förunautur að undanförnu.

En ef ég skoða árið að baki í þessu ljósi er gaman að draga fram það sem Signý og Hugrún uppgötvuðu. Þær féllu fyrir Abba og Madonnu á árinu. Þær sáu myndina náttúrulega (Mamma Mia) þegar hún var sýnd í sjónvarpinu og virtust kannast við flest lögin (eflaust úr leikskólanum) svo ég setti Abba í ipodinn og spilaði markvisst í haust. Mér fannst mikilvægt að þær þekktu upprunalega flutninginn. Í bland við þetta spiluðum við svo Madonnuplötu sem minnir um margt á Pál Óskar, dansplötu sem hún gaf út fyrir nokkrum árum og er orkumikil og jákvæð eins og það sem Páll gaf út á sínum tíma. Lagið "Hung Up" sló strax í gegn hjá þeim enda er viðlagið geysilega grípandi. Hins vegar er skemmtileg tenging við Abba í þessu lagi því hún endurvinnur glæsilegt stef frá Abba og setur í allt annað samhengi (giskið nú á hvaða lag það er!.... áður en þið finnið svarið: hér). Stundum stríði ég þeim með þessu og set Abba-lagið með á og þær biðja oftast um að fá að heyra í hinu laginu (sem við köllum "klukkulagið", með Madonnu, af því það hefst á tikkandi klukku). Smám saman stækkar þessi heildarmynd. Spurning hvenær ég fer að spila bítlana og í hvaða samhengi? Börn þurfa alltaf að ná einhverri tengingu við það sem þau upplifa.

Nú, ef einhver skyldi vilja vita hvaða tónlist ég sjálfur féll fyrir á árinu þá uppgötvaði ég loksins tvo gamla meistara. Annars vegar djass-píanistann Bill Evans og hins vegar eyðimerkur-blústónlistarmanninn Ali Farka Touré. Það er þess virði að kíkja á Diaraby með Touré og Peace Piece með Evans, svo maður gefi smá sýnishorn. Þetta er hvort tveggja mjög seiðandi tónlist, en á mjög ólíkan hátt.

Pæling: Frískandi áhrif fiskmetis

Mikið er fiskur góður matur! Því einfaldari sem hann er því betri áhrif hefur hann. Soðning, til dæmis, þessi venjulegi hversdagsmatur frá í gamla daga, er eitthvað það besta sem líkaminn fær. Það skynja ég mjög áþreifanlega þessa dagana. Tvívegis í þessum mánuði hef ég komið útkeyrður heim úr vinnu, gjörsamega orkulaus, fengið svigrúm til þess að leggja mig í hálftíma og staulast slompaður á fætur rétt fyrir fréttir. Þá tekur við hægfara ferli þar sem ég braggast smám saman en er samt hálf tuskulegur. En ef ég fæ mér soðna ýsu í kvöldmatinn finn ég hvernig hugsunin skýrist tiltölulega hratt þannig að ég verð brakandi ferskur það sem eftir lifir kvölds (ég tala nú ekki um ef ég bæti kaffibolla við þessa blöndu).

Núna er komið kvöld og ég hreinlega verð að skrifa. Oftast nær er ég orðinn of dofinn eða þreyttur eftir klukkan tíu en í þetta skiptið er þetta hrein og klár gæðastund. Best að vinda sér í næstu færslu strax :-)

þriðjudagur, janúar 11, 2011

Pæling: Myndir sem allir virðast þekkja nema ég

Ég fór heim úr vinnu með bunka af pappír sem ég tók að mér að fara með í endurvinnslu. Ég reyni alltaf að halda tryggð við endurvinnsluhugsjónina, þó smátt sé (sbr. "think global, act local"). Þá sá ég tölublað Mynda Mánaðarins frá í September sem ég mundi eftir að hafa komið með sjálfur á sínum tíma í vinnuna til að sýna vinnufélögunum. Þetta var nefnilega sérstakt tölublað, einhvers konar afmælisblað, þykkara en venjulega með fullt af áhugaverðum umfjöllunum, þar á meðal samantekt á þeim hundrað kvikmyndum sem íslendingar halda mest upp á (samkvæmt könnun blaðsins).

Eruð þið búin að kíkja á listann (bls. 72 og áfram)? Mér fannst hann að mörgu leyti athyglisverður. Það fyrst nokkuð sláandi hvað gullfiskaminni neytenda nær skammt. Flestar myndirnar eru innan við tíu ára gamlar. Svo er frekar hátt hlutfall hasarmynda og ævintýramynda. Þessu mátti búast við enda var höfðað með könnuninni til þeirra sem lesa blaðið og eru almennt þyrstir eftir nýjustu afþreyingunni. Listinn er engu að síður fyrir smekk almennings á Íslandi og er ágætis samantekt á því sem hefur hrifið landann á undanförnum árum (ásamt nokkrum eldri gullmolum í bland).

En það sem vakti mig sjálfan til umhugsunar var hversu ferlega margar myndir ég átti eftir að sjá á listanum. Ég er greinilega eitthvað búinn að vanrækja þessa tegund afþreyingar á síðastliðnum árum svo ég einsetti mér að nota listann sem praktískan útgangspunkt og fyrst ég er að rekast á blaðið aftur rétt upp úr áramótum (eftir að hafa gleymt því í vinnunni mánuðum saman) er ekki úr vegi að tengja listann áramótunum og þeim ferskleika sem maður þykist búa yfir á þessum tímamótum. Sem sagt: Áramótaheit númer tvö er að sjá að minnsta kosti tólf myndir á listanum á árinu (eina á mánuði að meðaltali).

Það sem er praktískt við þennan "verkefnalista" er að flestar þessara mynda ætti að vera til á næstu leigu svo það ætti ekki að vefjast fyrir mér að keyra þetta í gegn. Hér fyrir neðan má sjá þann hluta listans sem ég hef ekki séð. Ég strikaði undir þær sem ég hef raunverulegan áhuga á. Þeir sem vilja hitta mig heima yfir poppkorni í ár mega því gjarnan kippa einhverri af þessum myndum með sér.

100. The Prestige (2006)
97. There Will Be Blood (2007)
94. Iron Man (2008)
92. Der Untergang (2004)
91. Harry Potter...(2005)
90. Harry Potter... (2007)
87. The Rock (1996)
84. Batman Begins (2005)
82. Dumb and Dumber (1994)
80. Magnolia (1999)
78. Blade Runner (1982)
77. The Pianist (2002)
74. Seven Samurai (1954)
72. V for Vendetta (2005)
70. Princess Mononoke (1997) - jap. teiknimynd
69. Spirited Away (2001) - jap. teiknimynd
68. Oldboy (2003)
67. 300 (2006)
66. The Departed (2006)
65. Heat (1995)
62. Shutter Island (2010)
60. Twilight Saga (2009)
57. Citizen Kane (1941)
55. Taxi Driver (1976)
52. Taken (2008)
51. Twilight Saga (2010)
50. The Hangover (2009)
49. City of God (2002)
45. Twelve Angry Men (1957)
44. The Notebook (2004)
42. One Flew over Cuckoo´s Nest (1975)
38. Kick-Ass (2010)
37. Twilight (2008)
36. Casablanca (1942)
35. American History X (1998)
32. Toy Story 3
31. Donnie Darko (2001)
29. Scarface (1983)
28. The Boondock Saints (1999)
27. Memento (2000)
24. Terminator 2 (1991)
18. Gladiator (2000)
13. Inception (2010)
2. The Dark Knight (2008)

Daglegt líf: Vangaveltur Signýjar

Við vorum öll í bíltúr um daginn og Signý var eitthvað hugsi: "Af hverju fer strætó svona hratt, og það eru engin belti í honum?". Við Vigdís horfðum bara hvort á annað. Þetta er nú eiginlega ein af þessum spurningum sem maður getur ekki auðveldlega svarað svo henni var bara hrósað fyrir að velta þessu fyrir sér. Svo var ekið aðeins lengra og leiðin endaði úti í búð (Nóatún). Það var komið myrkur - hálfgerð nótt í augum stelpnanna - og þá velti Signý aftur fyrir sér upphátt: "Búðin er alltaf opin! Af hverju loka þeir aldrei búðinni?" spurði hún hálf hneyksluð. "Eiga þeir engan lykil, eða hvað?"

fimmtudagur, janúar 06, 2011

Áætlun: 2011 verður fjallgönguár

Í gær kíkti ég á fund hjá Ferðafélagi Íslands ásamt Jóni Má. Okkur leist nefnilega vel á metnaðinn hjá þeim. Þeir í FÍ eru að smala saman gönguhóp til að klífa 52 fjöll á árinu, eitt á viku, sama hvernig viðrar. Einnig var í boði 12 fjalla prógramm (eitt á mánuði), sem okkur Jóni leist nú betur á miðað við bindinguna af hinu. Eftir spjall á kaffihúsi eftir á var hins vegar ákveðið að fara á mis við hópeflið í FÍ. Við vildum helst fara á 12 fjöll á eigin tíma og hraða, tveir eða fleiri, en nota hins vegar uppsetta áætlun Ferðafélagsins sem áminningu og hvatningu. Maður er jú alltaf að spara (þátttakan í hópnum kostaði tugi þúsunda yfir árið) og tíminn er líka naumur. Það skiptir öllu að vera sveigjanlegur - svo lengi sem maður notar það ekki sem afsökun til að gefast upp.

Hér er sem sagt komið einhvers konar áramótaheit og það tilkynnist hér með að ég stefni á 12 fjallstoppa á árinu. Segi frá afrakstrinum hér jafn óðum og sýni myndir.

laugardagur, janúar 01, 2011

Afþreying: Innrömmuð áramót

Áramótin gengu mjúklega í gegn hér á bæ. Við fórum bara snemma að sofa og tókum því rólega. Ég vakti reyndar aðeins lengur en Vigdís því ég ákvað að horfa á DVD disk sem ég var með í láni með klassísku efni úr smiðju Rowan Atkinson (sem er best þekktur sem Mr. Bean). Á þessari mynd takmarkar hann sig ekki við Mr. Bean persónuna heldur reytir hann af sér grín í ýmsum gervum og hlutverkum uppi á sviði. Þetta horfði ég mikið á fyrir um fimmtán árum síðan þegar ég vann á sambýli í Kópavoginum. Einn íbúanna átta þetta uppistand Atkinsons og mér eru margir brandaranna enn í fersku minni. Ég hló mikið síðastliðna nótt þegar ég rifjaði þetta allt saman upp. Væri satt að segja alveg til í að endurtaka leikinn um hver áramót héðan í frá. Fastur liður.

Annars rammaði ég áramótin inn með þessu og annarri afþreyingu rúmlega sólarhring fyrr. Þá fór ég í bíó á TRON. Mæli eindregið með henni við alla vísindaskáldsagnanörda og þá sem unna glæsilegri kvikmyndaupplifun. Nú er ég fyrst og fremst að tala um veislu fyrir auga og eyra á meðan sjálf sagan og persónusköpun er síðri. En þvílík veisla!