miðvikudagur, janúar 26, 2011

Pæling: Frískandi áhrif fiskmetis

Mikið er fiskur góður matur! Því einfaldari sem hann er því betri áhrif hefur hann. Soðning, til dæmis, þessi venjulegi hversdagsmatur frá í gamla daga, er eitthvað það besta sem líkaminn fær. Það skynja ég mjög áþreifanlega þessa dagana. Tvívegis í þessum mánuði hef ég komið útkeyrður heim úr vinnu, gjörsamega orkulaus, fengið svigrúm til þess að leggja mig í hálftíma og staulast slompaður á fætur rétt fyrir fréttir. Þá tekur við hægfara ferli þar sem ég braggast smám saman en er samt hálf tuskulegur. En ef ég fæ mér soðna ýsu í kvöldmatinn finn ég hvernig hugsunin skýrist tiltölulega hratt þannig að ég verð brakandi ferskur það sem eftir lifir kvölds (ég tala nú ekki um ef ég bæti kaffibolla við þessa blöndu).

Núna er komið kvöld og ég hreinlega verð að skrifa. Oftast nær er ég orðinn of dofinn eða þreyttur eftir klukkan tíu en í þetta skiptið er þetta hrein og klár gæðastund. Best að vinda sér í næstu færslu strax :-)

Engin ummæli: