mánudagur, janúar 31, 2011

Upplifun: Ónotaleg kvöldstund - fyrri hluti

Við Vigdís urðum fyrir verulega ógnvekjandi upplifun um helgina og vorum beinlínis heppin að sleppa ósködduð. Það var á laugardaginn (stelpurnar komnar í pössun) að við ákváðum að nýta kvöldið að hluta til í bænum með því að fá okkur smá snarl og sjá svo til með framhaldið. Við fórum á Hamborgarabúlluna þar sem ég fékk mér grænmetisborgara en Vigdís hefðbundin ostborgara. Síðan var ekið upp Hverfisgötu og aftur niður Laugaveginn. Við tókum okkur drjúgan tíma í að velta því fyrir okkur hvort okkur langaði í bíó eða bara á kaffihús. Við vorum komin einn hring þegar Vigdís stakk upp á því að fara aftur niður Laugaveginn. Þá vorum við stödd í Hafnarstræti á móts við veitingahúsið Hornið á leiðinni upp eftir þegar skyndilega birtist fólksbíll á fullri ferð frá hægri (líklega á 40-50 km hraða) og skeytti engu um aðra umferð (ökumaður var ungur strákur, með vinstri hönd út um opinn glugga og horfði einbeittur og hvasseygur áfram). Okkur krossbrá enda munaði engu að við yrðum fyrir bílnum. Ég rétt náði hemla (á minni löturhægu ferð) og náði að ýta snögglega á flautuna þegar hann hvart til vinstri, svona til áminningar. Við prísuðum við okkur sæl fyrir að hafa sloppið með skrekkinn, enda virtist ökumaðurinn vera í annarlegu ástandi. Svo hugsuðum við ekkert meira um það og ókum sem leið lá til vinstri, en sáum þá bílinn þar kyrrstæðan við gatnamótin á móts við Tollhúsið. Hann hafði þá staðnæmst við gatnamótin. Ég hugsaði nú með mér að ég hefði betur farið beint áfram Hafnarstrætið en fyrst svo var komið ákvað ég að ögra honum ekkert frekar og horfði bara beint áfram. Hann beygði síðan til vinstri og við héldum okkar leið áfram til hægri, upp Hverfisgötuna, óáreitt (að við héldum).

Engin ummæli: