Við ókum sem leið lá upp Hverfisgötuna eftir upplifunina óþægilegu í Hafnarstrætinu (sjá síðustu færslu) grunlaus um að hún myndi hafa einhvern eftirmála. Við vorum hins vegar ekki komin nema hálfa leið upp götuna þegar heyrðist í bílflautu að baki. "Er eitthvað athugavert við bílinn okkar?" spurði ég Vigdísi. Við ákváðum að gefa ökumanninum svigrúm til að komast fram hjá okkur, upp Hverfisgötuna, og fórum því inn hliðargötu til hægri í átt að Laugavegi. En þá tókum eftir því að bíllinn fylgdi okkur eftir - og flautaði aftur! það var eins og hann vildi að við stöðvuðum bílinn. Um leið og við komum upp á Laugaveginn fannst okkur rétt að athuga hvað væri á seyði og fundum skásett stæði á hægri hönd og vonuðum auðvitað að hinn héldi áfram sína leið. En hann fór rakleiðis í þarnæsta stæði (einn bíll á milli). Þá sá Vigdís bílnúmerið: "Þetta er sami bíllinn! Hann er kominn til að ná í okkur!". Ég leit um öxl og sá að ég hafði sem betur fer pláss til að bakka hið snarasta. Á sama tíma gekk hinn ökumaðurinn í áttina til okkar með sviplaust andlit fyrir utan hatursfullt augnaráð sem maður sér ekki nema í bíómyndum. Hann var yfirvegaður eins og hann teldi sig hafa okkur í sigtinu. Það virtist hlakka í honum. Hann átti ekki von að við sæjum við honum og var örlítið undrandi á að sjá okkur bakka út en lét það ekki slá sig út af laginu, gekk sallarólega út á miðja götuna og þannig í áttina að bílnum. Það var ekkert nema ísköld heift í andlitinu. Hann var dökkur yfirlitum, grannleitur en með ljóst hörund og minnti mig á Litháa. Augun voru djúpt sokkin og virkuðu sljó en fókuseruð. Við komumst ekkert fram hjá honum en hann gat ekki gert okkur neitt nema með því að komast upp að hlið bílsins og þegar hann var kominn þangað renndi ég bílnum fram hjá honum og niður Laugaveginn. Við horfðum ekki einu sinni í baksýnisspegilinn til að athuga hvort hann ætlaði að elta okkur. Ég var kominn með ágæta "flugbraut" eftir töfina á götunni og gat skotist inn Þingholtin, fór krókaleið gegnum þyrpinguna og svo beina leið heim. Við hringdum að sjálfsögðu á lögregluna á leiðinni og vorum í talsverðu sjokki þegar við komum inn. Öryggisleysið var algjört. Kvöldið var náttúrulega ónýtt og satt best að segja var maður hálf sérkennilegur næsta dag líka, hugsandi stöðugt um allt það sem hefði getað komið fyrir.
Hvað ef ég hefði ekki getað bakkað úr stæðinu í tæka tíð?
Hvað ef ég hefði álpast til að opna gluggann til að eiga orðastað við náungann?
Hvað ef Vigdís hefði ekki séð bílnúmerið og verið svona eldsnögg að átta sig?
Hvað ef við hefðum lent í árekstrinum í upphafi?
Þetta hefði orðið ójafn leikur. Jafnvel þó ég kynni að verja mig hefði það ekki haft mikið upp á sig. Þá kallar það bara á hefnd seinna meir. Það sem er kannski skuggalegast er það að lögreglan getur heldur ekki getað verndað mann, jafnvel þó maður hefði sigað henni á náungann. Hún hefði í mesta lagi getað haldið honum yfir nótt (ef þeir standa hann að verki) og í kjölfarið myndi hann líklega herja á mann af meiri heift - hugsanlega með fleiri gaura með sér. Þannig að... þegar upp er staðið gerðum við allt rétt. Og vorum heppin.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sjúkk,,,, Guði sé lof að þið sluppuð ómeidd...
kv.Begga
Skrifa ummæli